Fara beint í efnið
Vinnueftirlitið Forsíða
Vinnueftirlitið Forsíða

Vinnueftirlitið

Heilbrigð vinnustaðamenning leggur grunn að vellíðan starfsfólks og árangri vinnustaða

10. október 2024

Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn er í dag en hann er að þessu sinni tileinkaður geðheilbrigði á vinnustað. Flest eyðum við stórum hluta ævinnar í vinnunni og er sífellt meiri meðvitund um áhrif vinnuumhverfisins á líðan. Vinnueftirlitið leggur ríka áherslu á mikilvægi þess að vinnustaðir leggi metnað í að byggja upp heilbrigða vinnustaðamenningu en hún leggur grunn að öryggi og vellíðan starfsfólks og hefur jákvæð áhrif á árangur og orðspor vinnustaða.

Gleði Vinna

Vinnueftirlitið hefur jafnframt lagt áherslu á að öll á vinnustaðnum bera ábyrgð. Atvinnurekendur og stjórnendur bera ábyrgð á að stuðla að öryggi og vellíðan starfsfólks og sýna gott fordæmi. Öll sem starfa saman á vinnustað bera ábyrgð á eigin hegðun, þar á meðal hvernig komið er fram við hvert annað.

Vinnueftirlitið hefur á undanförnum misserum beint sjónum að sálfélagslegu vinnuumhverfi með bæði vitundarvakningum og fræðsluefni en undir sálfélagslegt vinnuumhverfi heyrir stjórnun og skipulag starfa og samskipti á vinnustað, þar með talið einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi (EKKO). Vinnustaðamenning er órjúfanlegur hluti af sálfélagslegu vinnuumhverfi en þar er átt við þau gildi, venjur og viðhorf sem ríkja í vinnuumhverfinu og starfsfólk tileinkar sér í samskiptum, samvinnu og við lausn mála. Ef vinnustaðamenningin byggir á trausti, vinsemd og virðingu líður starfsfólki vel í vinnunni og er líklegra til að ná árangri í starfi.

Hér á vefnum okkar er að finna ýmiss konar fróðleik um það hvernig er hægt að stuðla að og viðhalda heilbrigðri vinnustaðamenningu og eins um það hvað ber að gera til að fyrirbyggja og bregðast við óæskilegri hegðun eins og einelti, áreitni og ofbeldi.

Í tilefni dagsins hvetjum við stjórnendur jafnt sem starfsfólk til að kynna sér efnið og nýta með það að markmiði að öll komi heil heim úr vinnu, starfsævina á enda.

Í myndböndunum hér að neðan má fræðast nánar um vinnustaðamenningu og traust á vinnustöðum: