Ársskýrsla 2022
Vinnueftirlitið hefur sett sér framtíðarsýn til ársins 2028 ásamt fimm meginmarkmiðum en þau eru vellíðan, öryggi, þátttaka, aðlögun og einföldun. Þau ásamt stefnumarkandi áherslum stofnunarinnar mynda skýran ramma utan um störfin og stuðla að langtímaumbótum og jákvæðum breytingum til þess að framtíðarsýnin verði að veruleika.
Vinnueftirlitið stuðlar að bættri vellíðan, heilsu og öryggi starfsfólks með öflugu vinnuverndarstarfi sem er í stöðugri þróun í takti við örar breytingar á vinnumarkaði. Áhersla er á árangursríkt vinnuverndarstarf í samstarfi atvinnurekenda og starfsfólks við að viðhalda og bæta öryggi og aðbúnað á vinnustöðum. Til mikils er að vinna en góð heilsa skilar atvinnulífinu aukinni framleiðni og samfélaginu ávinningi.
Þátttaka, aðlögun og einföldun eru lykillinn að nýjum áherslum hjá Vinnueftirlitinu auk þess sem vellíðan og öryggi eru ávallt í brennidepli. Við sjáum fyrir okkur örar breytingar í tækni og vinnustaðamenningu á næstu árum sem munu óhjákvæmilega hafa áhrif á vinnuumhverfi fólks og vinnuaðferðir. Því er mikilvægt að vinnustaðir stuðli að þátttöku allra á vinnustaðnum í skilvirku vinnuverndarstarfi en þannig náum við betri aðlögun að þeim breytingum sem starfsfólk horfist í augu við. Efna þarf til almennrar umræðu um mikilvægi heilbrigðrar vinnustaðamenningar í síbreytilegu umhverfi til að stuðla að vellíðan og jákvæðum samskiptum.
Við leggjum áfram áherslu á nýsköpun, umbætur og einföldun í störfum okkar hjá Vinnueftirlitinu. Unnið er markvisst að því að einfalda nálgun okkar og samskipti út á við með stafrænum leiðum og með þverfaglega nálgun að leiðarljósi. Skipulagi stofnunarinnar var breytt til að stuðla að farsælli innleiðingu á framtíðarsýninni. Sérstök verkefnastofa var sett á laggirnar sem er eins konar vöruþróunarhús þar sem unnið er að nýsköpun á sviði vinnuverndar og ýmis konar umbótaverkefnum. Með aukinni verkefnastýrðri nálgun verður yfirsýn verkefna betri á sama tíma og stuðlað er að traustri stjórnsýslu, aukinni skilvirkni og áhættumiðaðri nálgun í eftirliti.
Vinnueftirlitið hefur þróast í takt við örar breytingar á vinnumarkaði og leggur sig fram við að skapa góðan vinnustað með heilbrigða vinnustaðamenningu. Markmiðið er að stuðla að bættri vellíðan, heilsu og öryggi starfsfólksins og vera vinnustaður sem er öðrum til fyrirmyndar. Stofnunin hefur sett sér mannauðsstefnu ásamt jafnréttisstefnu, fjarvinnu- og viðverustefnu, starfsþróunarstefnu og stefnu um heilsueflingu og vinnuvernd. Stofnunin hefur vottað jafnlaunakerfi og hefur fengið viðurkenningu sem mannauðshugsandi vinnustaður árin 2021 og 2022 ásamt því að hljóta viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA 2022. Fylgst er vel með þróun á starfsánægju og vellíðan starfsfólks með reglulegum mannauðsmælingum. Til þess eru notaðar reglulegar mælingar fyrir starfsfólk með HR monitor auk þess sem könnun um innra starfsumhverfi er lögð fyrir annað hvert ár. Loks tekur stofnunin þátt í könnuninni um Stofnun ársins og kynnir niðurstöður hennar fyrir starfsfólki sínu. Þessar kannanir sýna allar góðan árangur á árinu.
Við sem störfum hjá Vinnueftirlitinu erum stolt af árangri okkar því við vitum að öll þurfa að taka þátt í því að viðhalda góðri vinnustaðamenningu þar sem við náum árangri saman og sköpum tækifæri til að þróast og þroskast í leik og starfi. Það gildir jafnt um okkar vinnustað sem og annarra og þess vegna viljum við aðstoða aðra við að gera vinnustaði sína að góðum stað til að starfa hjá.
Kær kveðja,
Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir,
forstjóri
Vinnueftirlitið er miðstöð vinnuverndarstarfs í landinu. Hlutverk þess er að tryggja að öll komi heil heim úr vinnu.
Lykilþáttur í starfsemi stofnunarinnar er að stuðla að bættri vellíðan, heilsu og öryggi starfsfólks þannig að öll komi heil heim og er lögð áhersla á forvarnir og eftirlit með vinnuumhverfi, vinnuvélum og tækjum. Þá annast stofnunin fræðslu um vinnuvernd, virka innleiðingu öryggismenningar á vinnustöðum og innleiðingu markvissra aðferða í vinnuverndarstarfi.
Gildi vinnueftirlitsins
Frumkvæði
Felst í því að leggja óumbeðið fram tillögur sem stuðla að framförum og taka þátt í því að hrinda þeim í framkvæmd þegar við á.
Forvarnir
Ráðstafanir til að koma í veg fyrir heilsutjón og draga úr afleiðingum atburða og aðstæðna sem gætu valdið heilsutjóni.
Fagmennska
Felur í sér að verk séu unnin heiðarlega, á grundvelli fullnægjandi þekkingar og í samræmi við lög, reglur og viðurkennt verklag.
Eftirlit með vélum og tækjum er stór þáttur í starfsemi Vinnueftirlitsins.
Sömuleiðis vettvangsathuganir þar sem haft er eftirlit með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum og gefin fyrirmæli um úrbætur gerist þess þörf. Áhersla er á þverfaglega nálgun með tilliti til fimm megináhættuþátta vinnuverndar sem eru efni og efnahættur, hreyfi- og stoðkerfið, sálfélagslegt vinnuumhverfi, tæki og vélbúnaður og umhverfisþættir.
Vinnueftirlitið hefur einnig það hlutverk að halda skrá um vinnuslys sem atvinnurekendum er skylt að tilkynna til stofnunarinnar. Tilgangurinn er að afla þekkingar um tíðni og orsakir vinnuslysa svo efla megi forvarnarstarf á vinnustöðum og koma í veg fyrir að slys endurtaki sig á sama eða sambærilegum vinnustöðum.
Vinnuvélaeftirlit
18.214 vinnuvélar og tæki voru skoðuð á árinu eða 67 % af skráðum vinnuvélum og tækjum. Skoðunarhlutfallið lækkaði örlítið á milli ára eða úr 67,6%. Fjöldi skoðaðra vinnuvéla jókst samt sem áður úr 18.002 í 18.214
31.122 vélar og tæki voru á skrá í lok árs. Þeim fjölgaði úr 29.318, 2021 eða um 6,2 prósent á milli ára.
27.186 vélar og tæki til skoðunar
1949 vinnuvélar og tæki nýskráð
1011 vinnuvélar og tæki afskráð
3236 eigendaskipti afgreidd
93.1 % hlutfall lyfta skoðaðar
4800 verkleg próf framkvæmd sem er 12,4% aukning frá árinu 2021
Vettavangsathuganir
Starfsfólk Vinnueftirlitsins fór í 992 vettvangsathuganir í fyrirtæki. Þeim fjölgaði um 42% á milli ára.
Vinnuslys
Tilkynntum vinnuslysum fjölgaði ár frá ári á tímabilinu 2009 – 2019 samhliða því að þátttakendum á innlendum vinnumarkaði fjölgaði. Árið 2020 fækkaði tillkynntum vinnuslysum og má að öllum líkindum rekja þá þróun til þeirra óvenjulegu aðstæðna sem ríktu í samfélaginu vegna heimsfaraldurs. Tilkynntum slysum fjölgaði aftur árið 2021 og hélt sú þróun áfram 2022, samhliða auknum umsvifum á vinnumarkaði. Tilkynnt slys eru þó enn færri en árið 2019. Þau ná ekki 2000 slysum á ári og eru innan við 1% af fjölda starfandi.
1 banaslys við vinnu
178 slys í opinberri þjónustu
179 slys í mannvirkjagerð
1951 tilkynnt vinnuslys: 1258 karlmenn og 693 konur
361 slys í opinberri stjórnsýslu
218 slys í flutningastarfsemi
Fjöldi á vinnumarkaði og vinnuslys
Ár | Fjöldi á vinnumarkaði | Fjöldi skráðra vinnuslysa | Tíðni vinnuslysa |
---|---|---|---|
2016 | 188.455 | 2117 | 1,12 |
2017 | 197.081 | 2137 | 1,08 |
2018 | 202.942 | 2204 | 1,09 |
2019 | 201.326 | 2234 | 1,11 |
2020 | 191.486 | 1810 | 0,95 |
2021 | 195.029 | 1880 | 0,96 |
2022 | 208.872 | 1951 | 0,93 |
*Gögn frá Hagstofu Íslands
Þegar litið er til tímabilsins frá 2017 til 2022 lækkar hlutfall tilkynntra vinnuslysa af fjölda starfandi árið 2020, er nokkuð óbreytt 2021 og virðist enn lækka árið 2022. Störfum á vinnumarkaði hefur fjölgað nokkuð eftir lægð árið 2020, sem eins og áður segir skýrist sennilega af áhrifum COVID-19. Starfandi á vinnumarkaði fjölgaði á árinu 2022 en þá voru flestir starfandi á framangreindu tímabili, eða 208.872. Það er 3% fleiri en störfuðu á árinu 2018 þegar 202.942 voru starfandi á vinnumarkaði.
Fjöldi vinnuslysa hjá körlum eftir aldri 2018–2022
Fjöldi vinnuslysa hjá konum eftir aldri árið 2018–2022
Fjöldi vinnuslysa eftir atvinnugreinum 2020–2022
Tafla 3 sýnir heildarfjölda tilkynntra slysa eftir tilteknum atvinnugreinum. Þar má sjá að slysum fækkar heldur í flestum greinum, nema í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð, flutningum og geymslu og heilbrigðis- og félagsþjónustu.
Atvinnugrein | 2020 | 2021 | 2022 |
---|---|---|---|
Landbúnaður, skógrækt og fiskveiðar | 70 | 59 | 55 |
Námugröftur og vinnsla hráefna úr jörðu | 15 | 23 | 10 |
Framleiðsla | 410 | 468 | 389 |
Rafmagns-, gas- og hitaveitur | 40 | 41 | 43 |
Byggingastarfsemi og mannvirkjagerð | 123 | 123 | 179 |
Heild og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum | 141 | 163 | 194 |
Flutningur og geymsla | 181 | 141 | 218 |
Rekstur gististaða og veitingarekstur | 35 | 52 | 77 |
Upplýsingar og fjarskipti | 11 | 7 | 12 |
Fjármála og vátryggingastarfsemi | 15 | 19 | 23 |
Fasteignaviðskipti | 7 | 6 | 6 |
Sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi | 28 | 20 | 28 |
Leigustarfsemi og ýmis sérhæfð þjónusta | 78 | 76 | 88 |
Opinber stjórnsýsla, varnarmál og almannatryggingar | 404 | 433 | 361 |
Fræðslustarfsemi | 60 | 61 | 40 |
Heilbrigðis- og félagsþjónusta | 151 | 133 | 178 |
Menningar, íþrótta og tómstundastarfsemi | 13 | 18 | 39 |
Félagasamtök og önnur þjónustustarfsemi | 23 | 20 | 20 |
Atvinnurekstur innan heimilis, þjónustustarfs, vöruframleiðsla | 0 | 0 | 0 |
Starfsemi stofnana og samtaka með úrlendisrétt | 0 | 0 | 0 |
Óþekkt starfsemi | 5 | 13 | 5 |
Fjöldi tilkynntra slysa er mestur í framleiðslu, en hér undir er matvælaframleiðsla, fiskvinnsla og stóriðja. Næst kemur opinber stjórnsýsla en undir hana fellur m.a. löggæsla. Í báðum þessum flokkum fækkar tilkynntum slysum árið 2022 miðað við árin á undan.
Fjöldi tilkynntra vinnuslysa í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð er minni en í framangreindum starfsgreinum. Engu að síður hefur tilkynntum slysum í byggingastarfsemi mannvirkjagerð fjölgað árið 2022 og á það sama við í flutningum og geymslu.
Tíðni miðað við 1.000 starfandi í greinum þar sem slys eru flest 2020–2022
Vegna mikilla umsvifa í mannvirkjagerð ásamt flutningum og geymslu fjölgaði störfum í þessum greinum nokkuð árið 2022.
Slysatíðni virðist fara hækkandi í mannvirkjagerð og flutningi og geymslu, það er fjölgun slysa er umfram það sem búast hefði mátt við miðað við fjölgun starfandi í greinunum. Skoða þarf lengra tímabil til að draga frekari ályktanir. Eins í rafmagns-, gas- og hitaveitum en þar eru tiltölulega fáir starfandi. Slysin þar eru ekki mörg þannig að fá slys vega hlutfallslega mikið.
Banaslys
Banaslys eru fátíð hér á landi og er markmiðið ávallt að koma í veg fyrir svo alvarleg slys. Í töflunni má sjá þróun þeirra á síðustu árum. Á þessu tímabili voru það eingöngu karlar sem létust í umræddum slysum.
Ár | Byggingar og mannvirkjagerð | Flutningur og geymsla | Opinber stjórnsýsla | Framleiðsla | Fjöldi banaslysa alls |
---|---|---|---|---|---|
2017 | 1 | 1 | 2 | ||
2018 | 1 | 2 | 3 | ||
2019 | 1 | 1 | 2 | ||
2020 | 2 | 1 | 3 | ||
2021 | 2 | 1 | 3 | ||
2022 | 1 | 1 | |||
Samtals | 8 | 3 | 1 | 2 | 14 |
Regluleg námskeið
Vinnueftirlitið býður upp á fjölbreytt námskeið tengd vinnuvélum, vinnuvernd, efnum og efnahættum.
Árið 2022 sátu samtals 2.344 nemendur námskeið hjá Vinnueftirlitinu.
Samtals sátu 427 nemendur vinnuverndarnámskeið, þar af 337 námskeið fyrir öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði og 90 önnur vinnuverndarnámskeið.
Samtals sátu 1.603 réttindanámskeið fyrir stjórnendur vinnuvéla.
Í heildina sátu 1.496 nemendur frumnámskeið. Þar af 885 frumnámskeið á íslensku, 286 frumnámskeið á ensku, 241 frumnámskeið á pólsku, 60 frumnámskeið á spænsku, 24 frumnámskeið á rúmensku og 107 byggingakrananámskeið.
Samtals sátu 181 ADR námskeið til að öðlast réttindi til að flytja hættulegan farm á götum úti.
133 sátu námskeið um meðhöndlun á Asbesti.
Ýmis verkefni
Símtöl
Það hringdu 13.002 í okkur og við svöruðum 96,7 prósent hringingum sem vörðu lengur en í 15 sekúndur.
Komur
Það komu að meðaltali fjórir viðskiptavinir á starfsstöðvar okkar á dag. Þeim fækkaði úr fimm á dag 2021 en eitt af markmiðum stofnunarinnar með aukinni stafvæðingu er að viðskiptavinir geti leyst sín mál á vef stofnunarinnar og þurfi ekki að gera sér ferð til okkar.
Netspjall
Við svöruðum 664 netspjöllum.
Útgáfa skírteina
Við gáfum út 2.598 vinnuvélaskírteini. Endurútgefin skírteini voru 1.098. Ný og endurútgefin ADR skírteini voru 200.
Skjalavarsla
3.700 mál voru skráð í GoPro skjalakerfið okkar.
270 skjalakassar voru afhentir Þjóðskjalasafni til varanlegrar varðveislu en öllum ríkisstofnunum ber að varðveita afhendingarskyld skjöl sín og koma þeim til Þjóðskjalasafns þegar þau hafa náð 30 ára aldri.
Umsagnir vegna veitingaleyfa
Leyfisveitingum (þ.e. starfsleyfum, markaðsleyfum, veitingahúsaleyfum og löggildingu rafvirkja) fjölgaði um 9,6 prósent milli ára. Fóru úr 875 í 959.
Þar af fjölgaði veitingahúsa- og gistileyfum um 19 prósent. Fóru úr 506 í 603 á árinu 2022.
1.083 umsóknir um götuskráningar afgreiddar
Mannauður
66 störfuðu hjá Vinnueftirlitinu í lok árs 2022, 41 karl og 25 konur með fjölbreytta menntun og víðtæka þekkingu og reynslu á starfssviði stofnunarinnar. Fjöldi stöðugilda (ársverk) voru hins vegar 64,22 á árinu.
Starfsemin er dreifð á 9 starfsstöðvar um allt land. Árið 2021 var 62 prósent starfsfólks starfandi í Reykjavík en 38 prósent á öðrum starfsstöðvum.
Janúar
Málstofa um rakaskemmdir og innivist á vinnustöðum
Vinnueftirlitið hélt málstofu um rakaskemmdir og innivist á vinnustöðum í beinu streymi föstudaginn 14. janúar. Málstofan var haldin í framhaldi af 40 ára afmælisráðstefnu Vinnueftirlitsins Vinnuvernd – ávinningur til framtíðar sem fór fram 19. nóvember 2021. María Ingibjörg Gunnbjörnsdóttir, lungna- og ofnæmislæknir og Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í innivist á byggingasviði EFLU verkfræðistofu, héldu erindi ásamt Sigurði Einarssyni, sérfræðingi hjá Vinnueftirlitinu. Upptöku frá málstofunni má nálgast hér.
Febrúar
Málstofa um vinnuvernd á hönnunar- og undirbúningsstigi í mannvirkjagerð
Haldin var málstofa um vinnuvernd á hönnunar- og undirbúningsstigi í mannvirkjagerð í beinu streymi fimmtudaginn 24. febrúar. Málstofan var haldin í framhaldi af 40 ára afmælisráðstefnu Vinnueftirlitsins Vinnuvernd – ávinningur til framtíðar sem fór fram 19. nóvember 2021. Anna Kristín Hjartardóttir frá EFLU verkfræðistofu og Leó Sigurðsson frá ÖRUGG – verkfræðistofu fluttu erindi. Í kjölfarið fóru fram pallborðsumræður undir stjórn Hönnu Sigríðar Gunnsteinsdóttur, forstjóra Vinnueftirlitsins. Upptöku frá málstofunni má nálgast hér.
Mars
Morgunfundur um heilsueflandi forystu og vellíðan í starfi
Vinnueftirlitið, VIRK og embætti landlæknis buðu upp á morgunfund um heilsueflandi forystu og vellíðan í starfi miðvikudaginn 16. mars. Fyrirlesari var Dr. Sigrún Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og formaður Þekkingarseturs um þjónandi forystu. Upptöku frá fundinum má nálgast hér.
Apríl
Morgunfundur um vinnuvernd í verkefnadrifnu hagkerfi
Vinnueftirlitið stóð fyrir morgunfundi undir yfirskriftinni Vinnuvernd í verkefnadrifnu hagkerfi í samstarfi við Vinnuvistfræðifélag Íslands (VINNÍS) Fundurinn var haldinn í tilefni af Alþjóðlega vinnuverndardeginum sem ber upp 28. apríl ár hvert. Sex erindi voru á dagskrá. Upptöku frá fundinum má nálgast hér.
Maí
Örráðsstefna: Ert þú á svölum vinnustað?
Vinnueftirlitið, VIRK og embætti landlæknis buðu upp á örráðstefnu um heilsueflandi vinnustaði með Marie Kingston, höfundi bókarinnar Stop stress og Streitustigans, sem bar yfirskriftina Ert þú á svölum vinnustað? Upptöku frá fundinum má nálgast hér.
Rafrænt umsóknarferli fyrir verkleg próf
Rafrænt umsóknarferli fyrir verkleg próf á vinnuvélar var tekið upp en með því var horfið frá notkun þriggja eyðublaða á pappírsformi. Allir sem sækjast eftir vinnuvélaréttindum á Íslandi þurfa að þreyta verkleg próf á vinnuvélar. Rafrænt umsóknarferli er liður í að bæta þjónustu stofnunarinnar við þennan hóp. Enn fremur nýta prófdómarar sér nú smáforrit í spjaldtölvu eða síma þegar þeir ganga frá prófgögnum að prófi loknu svo unnt sé að gefa út vinnuvélaskírteini.
Júní
Ný framtíðarsýn og stefna kynnt
Vinnueftirlitið samþykkti nýja framtíðarsýn og stefnu til ársins 2028 í júní 2022. Hún var unnin í víðtæku samráði við hagsmunaaðila, fagráðuneyti, starfsfólk og stjórnendur stofnunarinnar. Stefnan er byggð upp í kringum fimm meginmarkmið. Hvert þeirra á að stuðla að langtímaumbótum og jákvæðum breytingum til þess að framtíðarsýnin verði að veruleika. Þau eru vellíðan, öryggi, þátttaka, aðlögun og einföldun.
Nýtt skipulag tekur gildi
Samhliða nýrri framtíðarsýn var tekið upp nýtt skipulag hjá stofnuninni sem ætlað var að stuðla að farsælli innleiðingu á framtíðarsýn stofnunarinnar. Starfsemi stofnunarinnar var skipt í þrjú svið, eitt kjarnasvið og tvö stoðsvið. Aukin áhersla var lögð á verkefnastýrða nálgun til að stuðla að betri yfirsýn verkefna og samræmdar aðferðir. Nýtt skipulag byggist á þverfaglegri nálgun við úrlausn verkefna með áherslu á teymisstarf og verkefni innan hvers straums og þvert á stofnunina. Tryggð er heildstæð nálgun og aukin samræming í allri kjarnastarfsemi stofnunarinnar sem aftur styður við samnýtingu þekkingar, getu og hæfni allra sérfræðinga innan Vinnueftirlitsins. Enn fremur er nýju skipulagi ætlað að stuðla að traustri stjórnsýslu, aukinni skilvirkni og áhættumiðaðri nálgun í eftirliti.
September
Nýir leiðtogar taka til starfa hjá Vinnueftirlitinu á haustmánuðum en þeim er ætlað að styðja við innleiðingu á nýrri stefnu og framtíðarsýn sem var mörkuð í júní 2022. Þar á meðal var verkefnastjóri nýrrar verkefnastofu sem er eins konar vöruþróunarhús þar sem unnið verður að nýsköpun á sviði vinnuverndar ásamt öðrum umbótaverkefnum.
Október
Ráðstefna um framtíð vinnuverndar í umönnunarstörfum
Vinnueftirlitið stóð fyrir ráðstefnunni Framtíð vinnuverndar í umönnunarstörfum 14. október. Stoðkerfisvandi er algengasta orsök fjarvista frá vinnu í Evrópu og ein algengasta orsök örorku. Á ráðstefnunni var fjallað um mikilvægi forvarna í skipulagi umönnunarstarfa og áhrif vinnustaðamenningar á vellíðan starfsfólks sem sinnir þeim. Aðalfyrirlesarar voru Charlotte Wåhlin, aðstoðarprófessor við vinnu- og umhverfisheilsudeild Háskólasjúkrahússins í Linköping, sem sagði frá nýrri nálgun við að meta áhættu við umönnunarstörf á legudeildum og hins vegar Jonas Örts Vinstrup, Phd. rannsakandi frá Dönsku rannsóknarstofnuninni í vinnuvernd, sem fjallaði um vinnuumhverfi og menningu á umönnunarstofnunum. Upptöku frá ráðstefnunni má nálgast hér
Viðurkenning Jafnvægisvogar 2022
Vinnueftirlitið hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar 2022 en hún er veitt fyrirtækjum, sveitarfélögum og opinberum aðilum sem hafa náð að jafna hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar í að minnsta kosti 40/60. Viðurkenninguna hlutu alls 76 að þessu sinni; 59 fyrirtæki, 6 sveitarfélög og 11 opinberir aðilar.
Nóvember
Mannauðshugsandi vinnustaður 2022
Vinnueftirlitið uppfyllti skilyrði að vera á meðal leiðandi íslenskra vinnustaða sem uppfylla ströng skilyrði HR Monitor til að verða útnefndur Mannauðshugsandi vinnustaður árið 2022, annað árið í röð. Skilyrði er meðal annars að hafa á tólf mánaða tímabili keyrt mannauðsmælingar meðal alls starfsfólks vinnustaðarins í hverjum ársfjórðungi eða frá fjórum til tólf sinnum á líðandi ári. Enn fremur að upplýsa starfsfólkið um niðurstöður mannauðsmælinga og árangur vinnustaðarins.
Baráttudagur gegn einelti
Vinnueftirlitið minnti á baráttudag gegn einelti 8. nóvember með grein forstjóra stofnunarinnar í Morgunblaðinu þar sem vakin var athygli á því að margt starfsfólk hefur upplifað eða orðið vitni að einelti í vinnuumhverfinu sem veldur vanlíðan þess og hamlar árangri fyrirtækja. Greinina má nálgast hér.
Desember
Rafræn endurnýjun vinnuvélaréttinda og ADR-réttinda
Viðskiptavinum var gert kleift að sækja um endurnýjun vinnuvélaréttinda og ADR-réttinda rafrænt á vefnum. Sótt er um með rafrænum skilríkjum á mínum síðum. Á sama svæði má sjá yfirlit yfir núverandi réttindi en það er líka að finna á mínum síðum á island.is