Eru vinnuvélaréttindin eða ADR-réttindin að renna út?
13. desember 2022
Nú er hægt að sækja um endurnýjun vinnuvélaréttinda og ADR-réttinda rafrænt hér á vefnum. Sótt er um með rafrænum skilríkjum á mínum síðum.
Vinnueftirlitið býður handhöfum vinnuvélaskírteina og ADR réttinda nú upp á að endurnýja réttindi sín á vefnum. Þjónustan er því ekki lengur bundin við opnunartíma stofnunarinnar heldur er unnt að endurnýja réttindin á þeim tíma dags sem hentar.
Sótt er um með rafrænum skilríkjum á mínum síðum. Á sama svæði má sjá yfirlit yfir núverandi réttindi en það er líka að finna á mínum síðum á island.is
Hægt er að óska eftir því að fá skírteinin send í pósti en auk hefðbundinnar útgáfu er hægt að sækja um stafrænt vinnuvélaskíteini. Stafræna skírteinið birtist í island.is appinu samhliða útgáfu hefðbundins skírteinis og úr appinu er hægt að sækja það inn í „veski“ þeirra snjalltækja sem það styðja.
Vinnuvélaréttindi
Kranaréttindi þarf að endurnýja á 10 ára fresti en önnur vinnuvélaréttindi gilda til sjötugs.
Læknisvottorð þarf að fylgja endurnýjun á kranaréttindum og eftir 70 ára aldur.
ADR réttindi
ADR – réttindi gilda í fimm ár. Sitja þarf endurmenntunarnámskeið til að endurnýja þau.