Vinnueftirlitið hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar 2022
13. október 2022
Vinnueftirlitið hlaut í gær viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar 2022 en hún er veitt fyrirtækjum, sveitarfélögum og opinberum aðilum sem hafa náð að jafna hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar í að minnsta kosti 40/60. Viðurkenninguna hlutu alls 76 að þessu sinni; 59 fyrirtæki, 6 sveitarfélög og 11 opinberir aðilar.
Viðurkenningarnar voru veittar á ráðstefnu Jafnvægisisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis félags kvenna í atvinnulífinu, sem bar yfirskriftina Jafnrétti er ákvörðun og var sýnd í beinni útsendingu á RÚV.
Markmið Jafnvægisvogarinnar er að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi.
Þátttakendur í Jafnvægisvoginni eru í dag 209 talsins. Þeir hafa allir undirritað viljayfirlýsingu þess efnis að vinna að fyrrnefndu markmiði Jafnvægisvogarinnar, eða að viðhalda jafnvægi ef því hefur þegar verið náð. Stór hluti þeirra þátttakenda sem hafa skrifað undir viljayfirlýsinguna hafa náð góðum árangri á þessu sviði og fjölgaði þeim sem hafa náð markmiðinu um 23 á milli ára. Vinnueftirlitið er þar á meðal.
„Við erum gríðarlega stolt af því að taka þátt í þessari jákvæðu þróun en rannsóknir sýna að fjölbreyttur mannauður hefur jákvæð áhrif á árangur vinnustaða, stuðlar að betri ákvarðanatöku og aukinni starfsánægju,“ segir Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir,“ forstjóri Vinnueftirlitsins.