Nýir leiðtogar hjá Vinnueftirlitinu
10. október 2022
Vinnueftirlitið samþykkti nýja stefnu og framtíðarsýn í júní síðastliðnum sem kallaði á breytingar á skipulagi stofnunarinnar. Nýir leiðtogar hafa nú tekið til starfa hjá stofnuninni en þeim er ætlað að styðja við innleiðingu á þeirri stefnu og framtíðarsýn sem hefur verið mörkuð.
Markmið nýja skipulagsins er að auðvelda stofnuninni að gegna því meginhlutverki sínu að stuðla að því að öll komi heil heim úr vinnu. Áhersla verður á verkefnamiðaða nálgun, bæði í umbóta- og nýsköpunarverkefnum í verkefnastofu og í ferlaverkefnum stofnunarinnar sem flæða í gegnum strauma upplýsingatækni, vettvangsathugana, stafrænna samskipta og vinnuvéla og tækja.
Þórdís Huld Vignisdóttir er leiðtogi straums vettvangsathugana. Þórdís er með B.Sc. gráðu í umhverfisskipulagi frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Þórdís hefur starfað hjá Becromal Iceland/TDK Foil Iceland síðastliðin 11 ár, lengst af íumhverfis- og öryggismálum með tengsl í gæðamál. Frá árinu 2018 stýrði hún öryggis– og umhverfisdeildi fyrirtækisins.
Sverrir Gunnlaugsson hefur tekið við sem leiðtogi nýs straums upplýsingatækni. Sverrir er með B.Sc. gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur starfað sem deildarstjóri Upplýsingatæknideildar Vinnueftirlitsins frá 2017.
Margeir Örn Óskarsson er leiðtogi straums stafrænna samskipta. Margeir Örn er menntaður kerfisfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og hefur víðtæka reynslu af upplýsingatækni og rekstri tölvukerfa. Margeir Örn hefur starfað hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri síðastliðin tvö ár sem sérfræðingur í upplýsingatæknideild.
Guðrún Birna Jörgensen er leiðtogi verkefnastofu. Guðrún Birna er með MLM gráðu í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst og B.Sc. gráðu í alþjóðamarkaðsfræðum og iðnrekstrarfræði frá Tækniskóla Íslands. Guðrún Birna hefur síðastliðið ár starfað sem verkefnastjóri hjá Landsspítalanum. Áður starfaði hún sem viðskiptastjóri á framleiðslusviði hjá Samtökum iðnaðarins. Árin 2011-2017 starfaði hún hjá Íslandsstofu sem verkefnastjóri Inspired by Iceland.
Ægir Ægisson er leiðtogi straums vinnuvéla og tækja. Ægir er menntaður vélvirki með 30 tonna skipstjórnarréttindi, meirapróf og próf á allar vinnuvélar. Hann hefur frá árinu 2016 starfað sem sérfræðingur í eftirliti vinnuvéla og tækja hjá Vinnueftirlitinu.