Fara beint í efnið
Vinnueftirlitið Forsíða
Vinnueftirlitið Forsíða

Vinnueftirlitið

Vel sótt afmælisráðstefna

21. nóvember 2021

Um tvö hundruð manns fylgdust með beinu streymi frá afmælisráðstefnu Vinnueftirlitsins Vinnuvernd – ávinningur til framtíðar sem haldin var föstudaginn 19. nóvember síðastliðinn í tilefni þess að stofnunin fagnar 40 ára afmæli á árinu.

Vinnueftirlitid-Cecilia Berlin

Áberandi í erindunum sem haldin voru var áhersla á sjálfbærni í vinnuvernd sem meðal annars felur í sér að hanna og skipuleggja vinnustaði þannig að þeir henti starfsfólki, byggi það upp og stuðli að vellíðan þess út starfsævina. Að allir komi heilir heim er hagur einstaklinga, fyrirtækja og samfélagsins alls. Í erindunum kom einnig berlega í ljós að sjálfbærni í vinnuvernd eykur framleiðni fyrirtækja og stofnana og dregur úr kostnaði þannig að allir ættu að sjá sér hag í að vinna kerfisbundið að forvörnum.

Aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar voru Cecilia Berlin, dósent við Chalmers tækniháskólann í Gautaborg, sem fjallaði um vinnuumhverfi í víðum skilningi og gerði grein fyrir rannsókn sinni á samspili hönnunar og vinnuumhverfis og getu og takmarkana manneskjunnar í vinnu og Eva Genzöe Mikkelsen, lektor í vinnu- og skipulagssálfræði við Syddansk háskólann í Óðinsvéum, sem fjallaði um forvarnir gegn einelti á vinnustöðum.

Fundarstjóri var Bergur Ebbi.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra, ávarpaði ráðstefna og tóku fjölmargir aðrir til máls en ráðstefnan endaði á góðum umræðum fulltrúa aðila vinnumarkaðarins um vinnustaði framtíðarinnar.

Streymi frá ráðstefnunni.

Málstofa um félagslegt vinnuumhverfi

Vegna hertra samkomutakmarkana var fyrirkomulagi ráðstefnunnar breytt úr því að vera staðbundin í að vera eingöngu í streymi með skömmum fyrirvara og féllu áður auglýstar vinnustofur niður. Vegna mikils áhuga á þeim var aftur á móti ákveðið að breyta þeim í málstofur og halda í streymi næstu vikurnar.Við hefjum leikinn fimmtudaginn 25. nóvember með málstofu um félagslegt vinnuumhverfi. Þar fjalla þau Margrét Ingólfsdóttir, sérfræðingur hjá Vinnueftirlitinu og Brynjar Már Brynjólfsson, mannauðsstjóri ÍSAVIA, um áskoranir og tækifæri sem blasa við í vinnuumhverfinu í dag og mikilvægi þess að byggja upp vinnustaðamenningu sem styður við gott félagslegt vinnuumhverfi. Málstofan verður í beinu streymi á heimasíðu Vinnueftirlitsins frá klukkan 9.00 – 10.00.

Fleiri málstofur

Fimmtudaginn 2. desember er fyrirhuguð málstofa um forvarnir gegn stoðkerfisvanda og föstudaginn 14. janúar stendur til að halda málstofu um rakaskemmdir og inniloft. Fimmtudaginn 20 janúar verður síðan málstofa um forvarnir í mannvirkjagerð á hönnunar og undirbúningsstigiUmræddar málstofur, sem verða allar í beinu streymi hér á heimasíðunni, verða nánar auglýstar þegar nær dregur.