Fara beint í efnið
Vinnueftirlitið Forsíða
Vinnueftirlitið Forsíða

Vinnueftirlitið

Framtíð vinnuverndar í umönnunarstörfum

29. september 2022

Vinnueftirlitið stendur fyrir ráðstefnunni Framtíð vinnuverndar í umönnunarstörfum á Grand hóteli föstudaginn 14. október næstkomandi.

Vinnueftirlitið - framtíð vinnuverndar í umönnunarstörfum

Stoðkerfisvandi er algengasta orsök fjarvista frá vinnu í Evrópu og ein algengasta orsök örorku. Á ráðstefnunni verður fjallað um mikilvægi forvarna í skipulagi umönnunarstarfa og áhrif vinnustaðamenningar á vellíðan starfsfólks sem sinnir þeim.  

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, setur ráðstefnuna. 

Aðalfyrirlesarar verða Charlotte Wåhlin, aðstoðarprófessor við vinnu- og umhverfisheilsudeild Háskólasjúkrahússins í Linköping, sem mun segja frá nýrri nálgun við að meta áhættu við umönnunarstörf á legudeildum og hins vegar Jonas Örts Vinstrup, Phd. rannsakandi frá Dönsku rannsóknarstofnuninni í vinnuvernd, sem mun fjalla um vinnuumhverfi og menningu á umönnunarstofnunum.

Þá verða erindi frá Hrafnistuheimilunum, Landspítala og VIRK.

Ráðstefnan er liður í tveggja ára samstarfsverkefni Vinnueftirlitsins, félagsmálaráðuneytisins, samtaka aðila vinnumarkaðarins og VIRK sem ber yfirskriftina „Vinnuvernd er allra hagur. Hæfilegt álag – heilbrigt stoðkerfi 2020-2022.”