Sálfélagsleg þjónusta barna skiptist í sálfræðiþjónustu barna og geðheilsuteymi barna.
Til að komast í þjónustu þarf tilvísun frá fagfólki innan heilbrigðis-, fjölskyldu-, skóla- eða félags/velferðarþjónustu. Tilvísendur senda beiðni til Sálfélagslegrar þjónustu barna og inntökuteymi raðar málum í viðeigandi þjónustu eftir mati á þörf á þjónustu.
Notast er við gagnreyndar meðferðir eins og hugræna atferlismeðferð til þess að takast á við kvíðaraskanir, þunglyndi, áföll eða uppeldisráðgjöf. Meðferð er alltaf í samvinnu við foreldra/forráðamenn og mega þeir vænta þess að vera þátttakendur í meðferð barna sinna. Unnið er með foreldrum yngri barna en eftir því sem börn verða eldri hafa þau meiri getu til að nýta sér samtalsmeðferð. Samvinna við foreldra ef þó oft lykill að árangri.
Samstarf er við lækna, hjúkrunarfræðinga og ljósmæður. Einnig skóla og félagsþjónustur.
Áhersla er lögð á að allir fái rétta meðferð í samræmi við vanda. Stundum er mælt með netmeðferð með stuðningi sálfræðings, hópmeðferð, einstaklingsmeðferð eða geðheilsuteymi barna. Ákvörðun um meðferð í hópi, einstaklingsviðtöl eða teymi byggir á klínísku mati sálfræðings um eðli og alvarleika vanda. Einnig getur verið að matið bendi til þess að réttari meðferð sé annars staðar en hjá sálfélagslegri þjónustu HSN og þá er vísað frá og bent á annað úrræði.
Eftirfarandi úrræði fyrir börn/foreldra eru í boði á vegum sálfélagslegrar þjónustu HSN:
Lágþrepameðferðir/Hópmeðferðir
Foreldramiðað HAM í hópmeðferð
FLIKK-ForeldraLausn og Internetmeðferð fyrir Kvíðna Krakka (5-12 ára)
Sálfræðiþjónusta barna-einstaklingsviðtöl
Í grunnþjónustu HSN eru sálfræðingar sem meta vanda og veita börnum viðeigandi meðferð við vægum eða miðlungs alvarlegum hegðunar- og tilfinningavanda og foreldrum þeirra ráðgjöf. Í þjónustunni felst mat á vanda, meðferðaráætlun og viðeigandi meðferð. Almennt er miðað við styttri meðferðir en tímafjöldi hjá barnasálfræðingi og meðferðarúrræði innan heilsugæslu veltur á alvarleika vanda og klínísku mati sálfræðings. Sálfræðiþjónusta í heilsugæslu er ekki langtíma úrræði.
Foreldramiðað HAM einstaklingsmeðferð.
Geðheilsuteymi barna
Geðheilsuteymi barna (GTB) þjónustar börn að 18 ára aldri og fjölskyldur þeirra í heilbrigðisumdæmi Norður- og Austurlands. Teymið þjónustar börn og fjölskyldur þeirra sem eru með miðlungs til alvarlega flókinn vanda sem þurfa aðkomu teymis eða fyrir þau börn sem þurfa meiri, lengri og sérhæfðari þjónustu en veitt er í sálfræðiþjónustu heilsugæslunnar. Í teyminu starfa sálfræðingar, læknir, félagsráðgjafi og heilbrigðisgagnafræðingur.
Í þjónustunni felst mat á vanda, meðferðaráætlun og viðeigandi meðferð. Áhersla er lögð á gott viðmót, fjölskyldumiðaða þjónustu og góða samvinnu við önnur þjónustukerfi sem koma að málum þeirra barna sem eru í þjónustu GTB.
Bráðamál
Ef um alvarlegan bráðan geðrænan vanda er að ræða skal leita til Bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri þar sem öll bráðaþjónusta fer fram. Geðheilsuteymi barna er ráðgefandi í málum sem þar koma inn og vinnur mál í samráði við Sjúkrahúsið á Akureyri og eftir atvikum bráðateymi Barna- og unglingageðdeildar Landspítala (BUGL).
Athugið að Sálfélagsleg þjónusta barna HSN framkvæmir ekki greiningar á taugaþroskaröskunum á borð við ADHD og einhverfu og hefur öllu jafna ekki fyrstu lyfjameðferð vegna ADHD greininga. Mælt er með að forsjáraðilar leiti til skólaþjónustu í sínu sveitarfélagi til frumgreiningar og úrlausna um næstu skref þar á eftir. Eftir grunnskóla er mælt með að leitað sé til fagaðila til tilvísunar til Geðheilsumiðstöðvar barna eða leiti til sjálfstætt starfandi fagaðila.
Hægt er að finna upplýsingar um bjargráð á biðtíma hjá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.
Sjá kynningarmyndband um sálfræðiþjónustu fyrir börn og unglinga hjá HSN