15. janúar 2026
15. janúar 2026
51% aukning í notkun stafrænna umsókna
Umsóknarkerfi Ísland.is er ein mest notaða þjónustan sem Stafrænt Ísland hefur þróað í samstarfi við landslið Íslands í hugbúnaðarþróun undanfarin ár. Árið 2025 voru sendar 576 þúsund umsóknir í gegnum Ísland.is, sem er 51% stökk frá árinu áður þegar umsóknirnar voru 381 þúsund.

Lykiltölur ársins 2025
576.000 umsóknir sendar í gegnum Ísland.is.
51% aukning frá árinu 2024 (þegar umsóknir voru 381.000).
55.000 eigendaskipti ökutækja (vinsælasta einstaka umsóknin).
9.000 umsóknir um framhaldsskólanám vorið 2025.
Væntingar fólks til þess að geta leyst úr sínum málum á vefnum halda áfram að vaxa og eru stofnanir í samstarfi við Stafrænt Ísland á fullri ferð að fjölga þjónustuferlum sem í boði eru á Ísland.is.
Á árinu 2025 fjölgaði stafrænum umsóknum um 68 og í dag eru 356 umsóknir í boði frá 154 stofnunum, ráðuneytum og sveitarfélögum.
Vinsælasta umsóknin í fyrra var eigendaskipti ökutækja hjá Samgöngustofu, 55 þúsund slíkar voru afgreiddar í fyrra. Ný umsókn um framhaldsskólanám hífði mjög upp tölurnar vorið 2025 en alls var rúmlega 9000 slíkum skilað í fyrra. Með henni var ferlið við að sækja um framhaldsskóla einfaldað til muna fyrir nemendur, forráðamenn og starfsfólk framhaldsskólanna.
Útbreidd notkun
Kerfið er öflugt verkfæri til þess að færa umsóknaferli hjá stofnunum og opinberum aðilum af pappír eða pdf-skjölum yfir í notendavænna stafrænt viðmót. Umsóknakerfið nær utanum allar helstu tegundir opinberra umsókna og samræmir þannig upplifun notenda þvert á stofnanir.
Umsóknarkerfi Ísland.is styður vel við sjálfsafgreiðslu umsókna en gerir notendum jafnframt kleift að fylgjast með framgangi sinna umsókna á einum stað, hvar og hvenær sem er á Mínum síðum á Ísland.is.
Kerfið auðveldar yfirsýn starfsfólks stofnana og opinberra aðila sem nú hefur aðgang að umsóknargögnum og stöðu umsókna á einum stað, á notendavænan hátt – ásamt því að fækka bæði handtökum og pappírsmagni.
Fjölbreytt verkefni
Nú eru um 300 umsóknaferli aðgengileg á Ísland.is þar á meðal fyrir:
Afgreiðslu vottorða, svo sem umsóknir um sakavottorð, skuldleysisvottorð og veðbókavottorð.
Umsóknir um leyfi svo sem umsókn um leyfi til setu í óskiptu búi, málflutningsleyfi fyrir héraðsdómi og leyfi til einkaskipti á dánarbúi.
Breytingar á skráningu svo sem umsóknir um breytingar á umráðamanni eða meðeiganda ökutækis og afskráning á ökutækjum.
Móttaka erinda, svo sem tilkynning um umráðaskipti ökutækis og kvörtun til Umboðsmanns Alþingis.
Greiðsla fyrir þjónustu, dæmi um umsóknir sem bjóða uppá greiðslur er umsókn um afskráningu ökutækis, umsókn um sakavottorð og umsókn um ríkisborgararétt.
Styrkumsóknir svo sem umsókn um rafbílastyrk og umsókn um styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.