Fara beint í efnið

Akstur og bifreiðar

Bílpróf og fyrsta ökuskírteinið, B-próf

Sækja um ökuskírteini

Á Íslandi er bílprófsaldur 17 ár og miðast við þann dag sem aðili verður 17 ára. Ökunám má hefja við 16 ára aldur.

Ökuskírteinið veitir almenn ökuréttindi í flokki B.

Fyrsta ökuskírteinið gildir í 3 ár. Við endurnýjun skírteinis gildir það í 15 ár í senn. 

Skilyrði fyrir útgáfu ökuskírteinis

 • Hafa náð 17 ára aldri

 • Hafa fullnægjandi sjón og heyrn 

 • Vera líkamlega og andlega hæfur til að stjórna bíl 

 • Hafa staðist verklegt ökupróf hjá löggiltum ökukennara

 • Hafa staðist skriflegt ökupróf

 • Hafa fasta búsetu á Íslandi

Nánar um skilyrði fyrir útgáfu ökuskírteina í reglugerð nr. 830/2011 um ökuskírteini.

Ökunám og æfingaakstur

Umsókn um ökuskírteini

Áður en nám er hafið þarf að sækja um námsheimild til sýslumanns. Það er gert með því að fylla út umsókn um ökuskírteini.  Nemandinn þarf sjálfur að mæta með umsóknina til sýslumanns. Best er búið sé að velja ökukennara og ökuskóla þegar komið er með umsókn. 

Fylgigögn

 • Passamynd (35 x 45 mm) af umsækjanda, á ljósmyndapappír, merkja- og stimplalaus og bakgrunnur skal vera einlitur. Ekki er heimilt að senda mynd rafrænt og ekki er mögulegt að notast við myndir sem teknar hafa verið til afnota í vegabréf.

 • Ef viðkomandi notar gleraugu eða linsur, hefur skerta sjón eða skert sjónsvið þarf einnig að koma með læknisvottorð frá heimilislækni. Vottorð frá augnlækni er ekki fullnægjandi. 

Kostnaður

Það kostar 4.000 krónur að skila inn umsókn um ökuskírteini. 

Verklegir ökutímar

Fyrsta skrefið í ökunáminu er að ræða við þann ökukennara sem nemandinn velur.

Samkvæmt námsskrá á tímafjöldinn að vera að lágmarki 17 tímar. Algengur tímafjöldi er á bilinu 19-25 tímar.

Gjald fyrir verklega námið greiðist beint til ökukennara.

Ökuskóli 

Bóklegt nám í ökuskóla þarf að taka samhliða tímum hjá ökukennara. 

Ökuskólanum er skipt upp í 3 námskeið. 

 • Ö1 er bóklegt námskeið sem klára skal áður en æfingaakstur með leiðbeinanda hefst

 • Ö2 er bóklegt námskeið sem klára skal áður en farið er í skriflega prófið

 • Ö3 er verklegt námskeið sem fram fer stuttu fyrir próf í ökugerði þar sem líkt er eftir krefjandi aðstæðum við akstur. Í undantekningartilvikum, til dæmis ef nemandi býr úti á landi, er hægt að taka Ö3 á fyrstu þremur árunum eftir að bráðabirgðaskírteini er fengið. 

Námskrá og frekari upplýsingar um ökunámið eru aðgengilegar á vef Samgöngustofu.

Ökunámsbók

Ökunámsbók er samskipta- og upplýsingabók allra þeirra sem koma að ökukennslu nemandans. Bókina þarf að hafa  með í alla kennslutíma, bæði bóklega og verklega. Hún er lögð inn til sýslumanns þegar sótt er um æfingaleyfi og líka við komu í próf. Prófdómarar votta í ökunámsbók þegar nemandi stenst skriflegt og verklegt ökupróf.

Æfingaakstur með leiðbeinanda

Þegar ökuskóla 1 og að minnsta kosti 10 verklegum ökutímum er lokið má sækja um leyfi til æfingaaksturs. Ökukennarinn metur hvort og hvenær nemandinn er tilbúinn til að hefja æfingaakstur og staðfestir það með sérstöku vottorði. 

Umsókn um leyfi til æfingaaksturs er að finna í ökunámsbókinni. 

Í æfingaakstri æfir nemandinn sig í því að aka venjulegum bíl með leiðbeinanda sem oft er foreldri eða forráðamaður. 

Leyfi fyrir leiðbeinendur

Til að fá leyfi sem leiðbeinandi við æfingaakstur þarf viðkomandi að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 • Hafa náð 24 ára aldri

 • Hafa gild ökuréttindi og að minnsta kosti 5 ára reynslu af akstri 

 • Hafa ekki verið sviptur ökuréttindum eða refsað fyrir vítaverðan akstur á síðustu 12 mánuðum. 

Eftir æfingaakstur taka aftur við nokkrir tímar hjá ökukennara í undirbúningi fyrir próf. 

Ökupróf

Ökupróf getur farið fram þegar nemandi hefur fengið próftökuheimild hjá sýslumanni og ökukennari hefur staðfest að fullnægjandi ökunám hafi farið fram.

Ökupróf skiptist í skriflegan og verklegan hluta. Ekki er hægt að taka verklega prófið fyrr en búið er að standast skriflega hlutann.

Skriflegt próf

Skriflega prófið má taka mest 2 mánuðum áður en próftakinn nær 17 ára aldri. Prófið er krossapróf og er spurt út í efni sem kennt er í ökuskólanum. Nemandinn fær niðurstöður strax í próflok. 

Verklegt próf

Til að geta farið í verklegt próf, þarf nemandi að hafa lokið 15 ökutímum hjá ökukennara og klárað ökuskóla 1, 2 og 3. 

Í verklega prófinu byrjar prófdómarinn á því að spyrja nemandann út í ýmislegt sem snertir bílinn sjálfan og svo er ekið um ákveðnar prófleiðir. Nemandinn fær að vita við lok prófsins hvort hann hefur staðist það eða ekki. 

Kostnaður

Gjöld vegna skriflegs og bóklegs prófs greiðist beint til ökuskóla.

Ökuskírteini

Bráðabirgðaskírteini

Þegar náminu er lokið og prófunum náð, fær nemandinn útgefið fyrsta ökuskírteinið sem er svokallað bráðabirgðaskírteini. 

Bráðabirgðaskírteinið gildir í 3 ár og á meðan þarf færri punkta til að missa ökuréttindin. Hafi ökumaður með bráðabirgðaskírteini hvorki fengið punkt vegna umferðarlagabrota eða verið sviptur ökuréttindum í 12 mánuði, getur hann farið fram á akstursmat hjá ökukennara. 

Fullnaðarskírteini

Ef viðkomandi stenst akstursmatið þarf hann að fylla út umsókn um útgáfu fullnaðarskírteinis.

Nánar um ökuréttindi á vef Samgöngustofu.

Sækja um ökuskírteini

Þjónustuaðili

Sýslu­menn

Ábyrgðaraðili

Lögreglan