Þegar rafræn umsókn um námsheimild hefur verið send inn, þarf umsækjandi að koma á skrifstofu sýslumanns með passamynd á ljósmyndapappír í stærðinni 35x45 mm, með einlitum bakgrunn ásamt því að gefa undirritun.
Ökunámsbók heldur utan um framvindu ökunáms. Í henni má nálgast upplýsingar um:
ökuskóla sem nemi hefur lokið
fjölda verklegra ökutíma sem nemi hefur lokið
staðfestingu á æfingaakstri, sem er forsenda þess að foreldrar eða aðrir geti sótt um að vera leiðbeinendur í æfingaakstri
niðurstöðu bóklegra og verklegra ökuprófa
Ökunemi í æfingaakstri sem stöðvaður er af lögreglu gæti þurft að sýna ökunámsbók til staðfestingar á leyfi til æfingaaksturs.
Bókin er á stafrænu formi og ökunemar geta nálgast hana á mínum síðum (undir Menntun og Ökunám).
Bókaðu ökutíma með ökukennaranum þínum og þú getur hafið verklega hluta námsins.
Þú velur ökuskóla og byrjar á námskeiðinu Ökuskóli 1.
Á námskeiðum er farið yfir grundvallaratriði varðandi
skilning á umferðinni
helstu umferðarreglur
umferðarmerki
umferðarsálfræði
verkefni unnin og fleira
Einnig er aðstoðað við undirbúning ökuprófs.
Námsgögn á öðrum tungumálum
Í ákveðnum ökuskólum eru bókleg námskeið mögulega haldið á öðrum tungumálum. Hafa þarf samband við þann ökuskóla sem er valinn fyrir frekari upplýsingar.
Það þarf að lágmarki 10 ökutíma til þess að ökunemi sé tilbúinn í æfingaakstur. Ökukennari metur hvenær ökunemi er tilbúinn.
Þú velur ökuskóla og tekur bóklegt nám sem heitir Ökuskóli 2.
Áður en farið er í Ökuskóla 3 þarf að ljúka:
Ökuskóla 1
að lágmarki 10 ökutímum
Ökugerði (verklegt nám) Í ökugerði er líkt eftir hættulegum aðstæðum. Markmiðið er að neminn átti sig á hversu auðvelt og fyrirvaralaust er hægt að missa stjórn á bifreið, til dæmis í hálku eða lausamöl.
Framkvæmd prófsins Bóklega prófið er tekið á spjaldtölvur. Prófið samanstendur af 50 fullyrðingum sem svara á rétt eða rangt. Spurt er um efni sem þú hefur lært í ökuskólanum og hjá kennaranum. Niðurstöður úr prófinu færðu strax við próflok. Svara þarf 46 fullyrðingum rétt til að standast prófið.
Ef þú fellur í prófinu getur þú tekið það aftur að viku liðinni. Sama gjald er greitt fyrir hvert próf sem tekið er.
Lespróf
Upplestur er í boði fyrir öll.
Túlkapróf
Ef viðkomandi talar ekkert af þeim tungumálum sem þýdd eru getur sá komið með túlk í prófið. Mikilvægt er að túlkur sé löggildur eða með samþykki frá Samgöngustofu.
Prófreglur
Miklvægt er að kynna sér prófreglur Samgöngustofu og Frumherja.
Oft eru teknir viðbótartímar áður en verklega prófið er tekið.
Gera má ráð fyrir 17-25 ökutímum í heildina.
Verklegt próf má taka allt að 2 vikum fyrir 17 ára aldur. Ökukennari pantar verklega prófið eftir að þú hefur staðist bóklega prófið.
Framkvæmd prófsins
Munnlegt próf Í munnlega prófinu sem tekið er í bílnum áður en farið er í aksturinn er spurt um ýmislegt sem snertir bílinn sjálfan eins og ljós í mælaborði, stjórn- og öryggistæki og hluti sem tengjast viðhaldi bílsins.
Verklegt próf Í akstursprófinu er ekið um ákveðnar prófleiðir og prófdómari skráir niður plúsa og mínusa og reiknar síðan í lokin stig próftakans. Ef heildarstigatala fer undir 80 hefur próftaki ekki staðist prófið.
Ef þú fellur í prófinu getur þú tekið það aftur að viku liðinni. Sama gjald er greitt fyrir hvert próf sem tekið er.
Þegar ökunemi hefur staðist bæði bókleg og verkleg próf gefur sýslumaður út bráðabirgðaskírteini til þeirra sem hafa náð 17 ára aldri.
Bráðabirgðaskírteinið gildir í 1-3 ár. Að þeim tíma loknum má sækja um fullnaðarskírteini.
Áður en fullnaðarskírteini er gefið út þarf að óska eftir akstursmati hjá ökukennara.
Ökumaður ræður sjálfur hvaða ökukennari annast aksturmatið fyrir hann og greiðir ökukennaranum fyrir matið samkvæmt gjaldskrá hans.
Hvað er akstursmat
Í akstursmati er kannað hvort mat ökumanns á eigin aksturshæfni, akstursháttum og öryggi í umferðinni sé í samræmi við raunverulega getu hans. Markmið akstursmats er að ökumaðurinn geri sér grein fyrir hæfni sinni og getu í umferðinni með tilliti til umferðaröryggis.
Hvernig fer akstursmat fram
Mat á eigin á aksturshæfni og öryggi í umferð.
Bíltúr með ökukennara. Ökukennari ákveður hluta akstursleiðarinnar og hluta ákveður ökumaðurinn.
Ökumaður leggur mat á eigin akstur, hvað hefði betur mátt fara og hvað gekk vel.
Ökukennari veitir endurgjöf.
Gert er ráð fyrir að akstursmat taki 50 mínútur, þar af aksturinn 30 mínútur og úrvinnsla og niðurstaða 15 mínútur þar sem ökumaðurinn og ökukennarinn ræða hvernig bæta megi öryggi ökumannsins.
Niðurstaða akstursmats
Að akstursmati loknu getur ökukennari staðfest framkvæmdina með rafrænum hætti. Ekki er hægt að falla í akstursmati. Þegar ökukennari hefur staðfest akstursmat getur ökumaður sótt um fullnaðarskírteini.
Sækja má um fullnaðarskírteini á Ísland.is þegar ökumaður hefur
ekið á bráðabirgðaskírteini í eitt ár samfellt án þess að fá punkt vegna umferðarlagabrots
farið í akstursmat
Bráðabirgðaskírteinið rennur út eftir þrjú ár frá útgáfudegi. Þá þarf ökumaður að sækja um fullnaðarskírteini eða fá nýtt bráðabirgðaskírteini gefið út.
Hafi ökumaður fengið punkta vegna umferðarlagabrota þarf hann að vera áfram á bráðabirgðaskírteini í ár samfellt án frekari punkta.
Að þeim tíma liðnum getur ökumaður sótt um fullnaðarskírteini, fullnægi hann áður nefndum skilyrðum. Fullnægi hann þeim hins vegar ekki, fær hann útgefið bráðabirgðaskírteini á ný til þriggja ára.
Upplýsingar um punktastöðu er hægt að fá með því að mæta á næstu lögreglustjóraskrifstofu eða næstu lögreglustöð og framvísa persónuskilríkjum.
Kostnaður
Það má gera ráð fyrir töluverðum kostnaði við ökunámið og ökuprófið. Meðal annars þarf að greiða fyrir
ökutíma með ökukennara, fjöldi fer eftir þörfum ökunema
kennslubók og verkefni
myndir vegna skírteinis
prófgjöld
Hvað felst í almennum ökuréttindum
Almenn ökuréttindi gefa rétt til að aka fólks- eða sendibifreið sem er
ekki þyngri en 3.500 kg
með sæti fyrir mest 8 farþega auk ökumanns
með tengdan eftirvagn eða tengitæki sem er 750 kg eða minna að leyfðri heildarþyngd
með tengdan eftivagn sem er meiri en 750 kg að leyfðri heildarþyngd, en þá má leyfð heildarþyngd beggja ökutækja ekki vera meiri en 3.500 kg samtals
Ennfremur máttu aka
léttu bifhjóli (skellinöðru)
bifhjóli á þremur eða fleiri hjólum
torfærutæki t.d. vélsleða
dráttarvél
vinnuvél í umferð, en þó ekki vinna á hana nema þú hafir vinnuvélaréttindi
Sá sem er yngri en 21 árs má þó ekki stjórna bifhjóli á þremur hjólum sem er aflmeira en 15 kW.
Skipta um ökukennara
Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að skipta þarf um ökukennara. Til dæmis flutningar á milli landshluta og fleira. Ökunemi skráir breytinguna í gegnum Ísland.is.
Bóklegt nám sem tekið hefur verið í öðru landi en á Íslandi er ekki metið milli landa. Þeir sem ætla að öðlast ökuréttindi á Íslandi þurfa að klára Ökuskóla 1, 2 og 3 á Íslandi.
Fatlað fólk
Ef fatlað fólk hefur næga hreyfigetu til að geta stjórnað bíl af öryggi með hjálpartækjum þá er mögulegt að öðlast ökuréttindi. Slíkt er þó háð mati læknis og annarra sem athuga hvernig hjálpartæki vinna í stjórn bílsins.