Fara beint í efnið

Um ættleiðingar

Réttaráhrif ættleiðingar

Við útgáfu leyfis til ættleiðingar falla niður öll lagaleg tengsl hins ættleidda við kynforeldra og önnur ættmenni, þar með talin afa, ömmur og systkini. Erfðaréttur milli hins ættleidda og kynforeldra og annarra ættmenna þeirra fellur niður.

Við ættleiðinguna fær kjörbarn sömu lagaleg tengsl við kjörforeldra eins og kjörbarnið væri þeirra eigið barn. Einnig fær kjörbarn sömu lagalegu tengsl við ættmenni kjörforeldra, þar með talin afa, ömmur og systkini. Erfðaréttur stofnast milli hins ættleidda og kjörforeldra og annarra ættmenna þeirra, í samræmi við reglur erfðalaga um erfðaréttindi.  Framangreint er með þeim fyrirvara að lög geti kveðið á um annað.

  • Lög um ættleiðingar fjalla um lagaleg tengsl og réttaráhrif ættleiðingar, en ekki persónuleg tengsl.

  • Þegar ættleiðandi er einn, verður sá ættleiðandi eina foreldri hins ættleidda, en lagaleg tengsl falla niður við báða kynforeldra.

  • Þegar um er að ræða stjúpættleiðingu, það er ef ættleiðandi er í sambúð eða hjónabandi með öðru kynforeldri þess sem ættleiða á, falla niður lagaleg tengsl við hitt kynforeldrið og ættmenni þess.

  • Barn sem hefur verið ættleitt á ekki aðild að máli til að sannreyna erfðafræðilegan uppruna sinn, það er faðernismáli eða véfengingarmáli.

  • Barn, undir 18 ára aldri, sem ættleitt er af íslenskum ríkisborgara, öðlast íslenskt ríkisfang við ættleiðinguna ef ættleiðingarleyfi er gefið út hér á landi.

  • Ef íslenskur ríkisborgari, búsettur erlendis, ættleiðir þar barn yngra en 18 ára og ættleiðingin hlýtur staðfestingu Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, fær barnið íslenskt ríkisfang við staðfestinguna.

  • Þau sem búsett eru á Íslandi geta ekki á löglegan hátt ættleitt barn erlendis, án þess að fyrst hafi verið gefið út forsamþykki á Íslandi. Slík ættleiðing myndi ekki hafa réttaráhrif á Íslandi.

  • Ættleiðingu er ekki hægt að fella niður.

Þjónusta

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu fjallar um erindi vegna ættleiðinga á landsvísu. Erindum vegna ættleiðinga skal beina til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, Hlíðasmára 1, Kópavogi.

Ef þú hefur fyrirspurn varðandi efnið eða þarfnast frekari aðstoðar, er hægt að hafa samband við embætti Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu með því að hringja eða senda tölvupóst á netfangið fjolskylda@syslumenn.is  

Rafræn afhending gagna

Sýslumenn geta sent skjöl vegna mála í pósthólf aðila hjá island.is. Til að fá tilkynningu um að skjal hafi borist, þarf að stilla pósthólfið þannig. 

Kostnaður

Ekki er tekið gjald fyrir að leggja fram beiðni um forsamþykki eða ættleiðingu hjá sýslumanni. 

Ættleiðingarleyfi kostar kr. 5.000 kr.

Tengt efni 

Leiðbeiningar um alþjóðlegar fjölskylduættleiðingar á vef Stjórnarráðs Íslands
Vefrit dóms- og kirkjumálaráðuneytins, október 2007, ættleiðingar milli landa
Heimasíða Haag stofnunarinnar og Guides to Good Practise 
Ættleiðingarnefnd

Lög og reglur 

Ættleiðingarlög nr. 130/1999
Reglugerð um ættleiðingar 238/2005
Reglugerð um ættleiðingarfélög 453/2009
Reglugerð um veitingu leyfa til ættleiðingar 1264/2011
Haag samningurinn um vernd barna og ættleiðingar milli landa 
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, Barnasáttmálinn
Lög um íslenskan ríkisborgararétt nr. 100/1952