Ættleiðing stjúpbarns - almennar upplýsingar
Hægt er að veita öðru hjóna, eða einstaklingi í óvígðri sambúð, leyfi til að ættleiða barn hins. Slík ættleiðing er kölluð stjúpættleiðing.
Umsókn um stjúpættleiðingu er lögð fram af stjúpforeldrinu sem vill ættleiða stjúpbarn sitt.
Stjúpættleiðing getur átt við um börn yngri en 18 ára og einnig einstaklinga sem eru orðnir lögráða.
Krafa er gerð um að umsækjandi hafi gegnt foreldrahlutverki gagnvart þeim sem óskað er eftir að ættleiða og tekið þátt í uppeldi væntanlegs kjörbarns.
Skilyrði stjúpættleiðingar
Sambúð og sambúðartími
Þegar umsókn um stjúpættleiðingu er lögð fram skal umsækjandi (stjúpforeldrið) sannanlega hafa verið í samfelldri sambúð með foreldri eða kjörforeldri barns í að minnsta kosti fimm ár. Þetta gildir hvort sem um er að ræða hjón eða einstaklinga í óvígðri sambúð.
Með óvígðri sambúð er átt við að tveir einstaklingar hafi búið saman samkvæmt því er greinir í Þjóðskrá eða ráða má af ótvíræðum gögnum. Umsækjandi þarf að vera í hjónabandi, staðfestri samvist eða óvígðri sambúð með foreldri þess sem ættleiða á þegar umsókn berst sýslumanni.
Víkja má frá skilyrðinu um fimm ára samfellda sambúð ef barn hefur verið getið við tæknifrjóvgun og verður ekki feðrað af þeim sökum. Sambúð skal þó hafa verið samfelld í að minnsta kosti tvö og hálft ár í slíkum tilvikum.
Varðandi skilyrði stjúpættleiðingar fullorðinna þá eru þær heimilaðar
ef umsækjandi hefur tekið í að minnsta kosti fimm ár þátt í í uppeldi þess sem óskað er að ættleiða, á meðan viðkomandi var á barnsaldri,
ef aðrar alveg sérstakar ástæður mæla með ættleiðingu
Samþykki eða umsögn vegna stjúpættleiðingar
Sá sem ættleiða á þarf að veita skriflegt samþykki sitt fyrir ættleiðingunni hjá fulltrúa sýslumanns og fá um leið leiðbeiningar um réttaráhrif ættleiðingar.
Barn sem er orðið 12 ára verður ekki ættleitt án samþykkis síns. Rætt er við barn af hálfu barnaverndarnefndar áður en það veitir samþykki sitt fyrir sýslumanni.
Ef barn sem ættleiða á er yngra en 12 ára skal leita eftir afstöðu þess á vegum barnaverndarnefndar ef slíkt þykir gerlegt miðað við aldur þess og þroska.
Maki umsækjanda, þ.e. annað foreldri þess sem ættleiða á, þarf einnig að veita samþykki sitt fyrir ættleiðingunni í viðurvist fulltrúa sýslumanns og fá um leið leiðbeiningar um réttaráhrif ættleiðingar.
Samþykki forsjárforeldris þarf til ættleiðingar á barni. Undantekningar frá þeirri reglu eru tilgreindar í ættleiðingarlögum.
Leita skal umsagnar kynforeldris, sem ekki fer með forsjá barns, áður en afstaða er tekin til ættleiðingarumsóknar.
Stjúpættleiðing barns yngra en 18 ára er almennt ekki samþykkt nema fyrir liggi samþykki kynforeldris. Þegar kynforeldri mótmælir ættleiðingu eða afstaða þess liggur ekki fyrir er umsókn um stjúpættleiðingu því almennt hafnað, nema veigamiklar ástæður mæli með því að umsóknin verði samþykkt.
Þegar um er að ræða umsókn um stjúpættleiðingu lögráða einstaklings er samþykki kynforeldris ekki skilyrði þess að umsókn verði samþykkt. Umsóknin er þó kynnt fyrir kynforeldri og því gefinn kostur á að koma að afstöðu sinni til umsóknarinnar.
Umsögn eiginmanns/eiginkonu/sambúðarmaka þess sem ættleiða á, er áskilin vegna umsóknar um ættleiðingu lögráða einstaklings.
Ef óskað er stjúpættleiðingar á barni og foreldri þess er látið, skal leita umsagnar foreldra þess foreldris sem látið er, systkina þess foreldris sem látið er og systkina þess sem ættleiða á áður en afstaða er tekin til ættleiðingarumsóknar. Heimilt er að leita umsagnar annarra sem eru nákomnir barni, ef talin er þörf á.
Aldur umsækjanda
Leyfi til ættleiðingar verður veitt þeim einum sem náð hefur 25 ára aldri. Þó má ef sérstaklega stendur á, veita þeim sem orðinn er 20 ára leyfi til ættleiðingar.
Líkamleg og andleg heilsa
Eftirfarandi reglur um heilsufar gilda þegar óskað er stjúpættleiðingar á barni yngra en 18 ára. Víkja má frá þeim þegar sérstaklega stendur á.
Umsækjandi skal vera svo andlega og líkamlega heilsuhraustur að tryggt sé, eftir því sem unnt er, að ættleiðing verði barni fyrir bestu.
Umsækjendur mega ekki vera haldnir sjúkdómi eða þannig á sig komnir að dragi úr lífslíkum þeirra á þeim tíma þar til barn verður sjálfráða, eða minnki möguleika þeirra til að annast vel um barn.
Listi yfir sjúkdóma og líkamsástand sem getur leitt til synjunar á umsókn um forsamþykki til ættleiðingar á barni er í reglugerð um ættleiðingar. Listinn er ekki tæmandi.
Umsækjendur leggja fram heilsufarsupplýsingar og læknisvottorð með umsókn sinni.
Önnur skilyrði
Ekki má veita leyfi til ættleiðingar á barni undir 18 ára nema sýnt þyki, eftir könnun barnaverndarnefndar á málefnum barnsins og þeirra sem óska ættleiðingar, að ættleiðing sé barninu fyrir bestu.
Eftirtalin skilyrði eru fyrir stjúpættleiðingu barns yngra en 18 ára:
Umsækjendur skulu hafa til að bera þá eiginleika og skilning á þörfum barna sem gera þá vel hæfa til að sinna forsjárskyldum gagnvart barni
Fjárhagur umsækjanda þarf að vera traustur
Umsækjendur hafi yfir að ráða fullnægjandi húsnæði og öðrum aðbúnaði til að geta veitt barni þroskavænleg uppeldisskilyrði
Umsækjandi hafi ekki hlotið refsidóm sem gæti dregið í efa hæfni til að veita barni gott uppeldi.
Þjónustuaðili
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu