Fara beint í efnið

Ættleiðing barns erlendis frá

Á þessari síðu

Þau sem eru búsett á Íslandi geta ekki ættleitt barn erlendis, nema sýslumaður samþykki það fyrst með útgáfu forsamþykkis til ættleiðingar. 

Á Íslandi starfar eitt löggilt ættleiðingarfélag, Íslensk ættleiðing. Aðeins löggild ættleiðingafélög geta haft milligöngu um ættleiðingar. Með milligöngu er átt við starfsemi sem hefur þann helsta tilgang að koma á sambandi milli þeirra sem óska eftir að ættleiða erlent barn og stjórnvalda/annarra opinberra aðila/löggiltra ættleiðingarfélaga í heimalandi barns, auk þess að veita þá aðstoð sem nauðsynlegt er til að af lögmætri ættleiðingu geti orðið. 

Þau sem eru að íhuga ættleiðingu barns erlendis frá geta fengið fræðslu og leiðbeiningar hjá Íslenskri ættleiðingu og hjá flestum eru það fyrstu skrefin að leita þangað. Íslensk ættleiðing heldur námskeið fyrir þau sem eru að íhuga ættleiðingu - Er ættleiðing fyrir mig?

Skilyrði þess að fá forsamþykki 

Umsækjendur um forsamþykki geta verið fólk í sambúð eða hjónabandi, óháð kynhneigð og einnig einhleypir einstaklingar. Ættleiðing skal ávallt taka mið af því sem barni er fyrir bestu. Gerðar eru kröfur um að grunnstoðir fjölskyldunnar séu tryggar sem bjóði barni upp á möguleika til að þroskast og dafna við góðar aðstæður. Reglur um skilyrði fyrir því að fá forsamþykki miða að því að tryggja þetta. 

 Skilyrðin koma fram í lögum um ættleiðingar og í reglugerð um ættleiðingar. 

Umsækjendur þurfa að uppfylla þessi skilyrði þegar umsókn um forsamþykki berst sýslumanni: 

Sambúð og sambúðartími

  • Hjón hafi verið í samfelldri sambúð í að lágmarki tvö ár 

  • Einstaklingar í skráðri sambúð hafi verið í samfelldri sambúð að lágmarki í fimm ár

Aldur umsækjenda

  • Umsækjendur mega ekki vera yngri en 25 ára. Undantekningar má gera ef umsækjandi hefur náð 20 ára aldri og sérstaklega stendur á.

  • Umsækjendur á aldrinum 25 til 50 ára geta sótt um forsamþykki fyrir því að ættleiða barn á aldrinum 0 til 5 ára og/eða barn eldra en 5 ára. Hámarksaldurinn miðast við þann umsækjanda sem er eldri. Forsamþykki fyrir því að ættleiða barn á aldrinum 0 til 5 ára fellur úr gildi þegar eldri umsækjandinn er 51 árs.

  • Umsækjendur á aldrinum 51 til 55 ára geta sótt um forsamþykki fyrir því að ættleiða barn eldra en 5 ára. Hámarksaldurinn miðast við þann umsækjanda sem er eldri. Forsamþykki fyrir því að ættleiða barn sem er eldra en 5 ára fellur úr gildi þegar eldri umsækjandinn er 56 ára.

Líkamleg og andleg heilsa 

Umsækjendur skulu vera svo andlega og líkamlega heilsuhraustir að tryggt sé, eftir því sem unnt er, að ættleiðing verði barni fyrir bestu.

Umsækjendur mega ekki vera haldnir sjúkdómi eða þannig á sig komnir að dragi úr lífslíkum þeirra á þeim tíma þar til barn verður lögráða, eða minnki möguleika þeirra til að annast vel um barn. 

Umsækjendur leggja fram heilsufarsupplýsingar og læknisvottorð með umsókn sinni. 

Önnur skilyrði

  • Umsækjendur skulu hafa til að bera þá eiginleika og skilning á þörfum barna sem gera þá vel hæfa til að sinna forsjárskyldum gagnvart barni

  • Fjárhagur umsækjanda þarf að vera traustur

  • Umsækjendur hafi yfir að ráða fullnægjandi húsnæði og öðrum aðbúnaði til að geta veitt barni þroskavænleg uppeldisskilyrði

  • Umsækjandi hafi ekki hlotið refsidóm sem gæti dregið í efa hæfni til að veita barni gott uppeldi.

Umsókn um forsamþykki 


Íslensk ættleiðing leggur umsókn um forsamþykki fram hjá sýslumanni.

Gögn með umsókn um forsamþykki 

Nánari upplýsingar um fylgigögnin eru í eyðublaði fyrir umsókn um forsamþykki.

  • Heilsufarsupplýsingar og læknisvottorð á sérstöku eyðublaði

  • Síðustu þrjú skattframtöl

  • Gögn um tekjur næstliðins árs ef ekki er komið skattframtal fyrir það ár

  • Þrír síðustu launaseðlar

  • Síðustu greiðsluseðlar vegna lána, eða stöðuyfirlit frá lánveitanda (ef við á)

  • Stöðuyfirlit Menntasjóðs námsmanna (ef við á)

  • Fæðingarvottorð

  • Hjúskaparvottorð eða vottorð um staðfesta samvist umsækjenda

  • Staðfesting Þjóðskrár Íslands á sambúðartíma (ef við á)

  • Ótvíræð gögn um sambúðartíma (ef við á)

  • Staðfesting á að sótt hafi verið námskeið til undirbúnings ættleiðingar

  • Listi vegna skilgreindra þarfa (ef við á)

  • Eftirfylgniskýrslur (ef umsækjandi hefur áður ættleitt barn) 

  • Önnur gögn

Meðferð á máli hjá sýslumanni

Þegar umsókn um forsamþykki berst sýslumanni frá Íslenskri ættleiðingu fer málið í svokallaða upphafsvinnslu hjá embættinu þar sem aflað er sakavottorða og gagna frá Þjóðskrá Íslands. Að upphafsvinnslu lokinni er málinu úthlutað til fulltrúa sem yfirfer umsókn og fylgigögn. 

Ef einhver skilyrði eru augljóslega ekki uppfyllt, svo sem skilyrði um aldur eða sambúðartíma, getur sýslumaður hafnað umsókninni á þessu stigi með úrskurði, án þess að óska fyrst umsagnar barnaverndarnefndar. Umsækjendum er þó áður gefinn kostur á að leggja fram frekari gögn umsókn sinni til stuðnings.  

Sýslumaður sendir umsókn um forsamþykki því næst  til umsagnar barnaverndarnefndar og óskar eftir því að nefndin kanni hagi umsækjenda og meti hæfni þeirra til að taka að sér erlent barn til ættleiðingar. Barnaverndarnefndum er almennt veittur 3-4 mánaða frestur til að skila umsögn. Bæði Íslensk ættleiðing og umsækjendur fá afrit af bréfi sýslumanns til barnaverndarnefndar. Meðan málið er til umsagnar hjá barnaverndarnefnd er það í bið hjá sýslumanni. 

Þegar umsögn barnaverndarnefndar berst sýslumanni er hún yfirfarin af hálfu fulltrúa sýslumanns. Umsögnin er kynnt umsækjendum og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Á þessu stigi tekur sýslumaður afstöðu til umsóknarinnar. Ef nægilegar upplýsingar liggja fyrir í málinu og öll skilyrði eru talin uppfyllt gefur sýslumaður út forsamþykki. 

Telji sýslumaður þörf á, svo sem ef vafi er talinn á því hvort skilyrði fyrir útgágu forsamþykkis eru uppfyllt, getur sýslumaður óskað eftir umsögn ættleiðingarnefndar. Sé leitað umsagnar ættleiðingarnefndar er nefndinni almennt veittur þriggja mánaða frestur til að skila umsögn. Þegar umsögnin liggur fyrir er hún kynnt umsækjendum og þeim gefinn kostur á athugasemdum.

Þegar nægilegar upplýsingar liggja fyrir tekur sýslumaður ákvörðun um hvort gefið verði út forsamþykki eða umsókninni hafnað.

Taka skal fram að umsagnir barnaverndarnefndar og ættleiðingarnefndar eru ekki bindandi fyrir sýslumann þegar hann ákveður hvort gefið er út forsamþykki eða því hafnað.

Forsamþykki gefið út

Þegar sýslumaður fellst á umsókn og gefur út forsamþykki er umsækjendum tilkynnt um það. Frumrit forsamþykkis er póstsent til Íslenskrar ættleiðingar. Íslensk ættleiðing hefur milligöngu um að senda umsókn til upprunaríkis. 

Forsamþykki hafnað

Ef sýslumaður hafnar því að gefa út forsamþykki, er það gert með rökstuddum úrskurði. 

Kæra á úrskurði sýslumanns

Hægt er að kæra úrskurð sýslumanns til dómsmálaráðuneytis innan tveggja mánaða frá dagsetningu úrskurðarins.

Samþykki skv. 17. gr. c

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu annast útgáfu á samþykki skv. 17. gr. c Haag samnings um vernd barna og ættleiðingu milli landa.

Samþykkið lýtur að því að fyrirhuguð ættleiðing á tilteknu barni geti haft framgang.

Staðfesting réttaráhrifa erlends ættleiðingarskjals eða ættleiðingarleyfi á grundvelli forsamþykkis

Þau sem hafa ættleitt barn erlendis fyrir milligöngu Íslenskrar ættleiðingar, á grundvelli forsamþykkis útgefnu af Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, óska á síðari stigum eftir annað hvort staðfestingu réttaráhrifa ættleiðingar eða ættleiðingarleyfi, en það veltur á því hvaðan barn hefur verið ættleitt. Íslensk ættleiðing annast sendingu umsóknar og fylgiskjala. 

Eftirfylgniskýrslur

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu annast gerð svokallaðra eftirfylgniskýrslna sem eru gerðar eftir að barn hefur verið ættleitt hingað til lands.

Um er að ræða upplýsingar um stöðu barns eftir komu til landsins. Eftirfylgniskýrslur eru gerðar að ósk upprunaríkisins og sendar þangað.

Mismunandi er eftir upprunaríki hversu margar slíkar skýrslur eru gerðar. Sýslumaður hefur samband við foreldra þegar vinna við slíka skýrslu hefst.

Þjónusta

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu fjallar um erindi vegna ættleiðinga á landsvísu. 

Erindum vegna ættleiðinga skal beina til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, Hlíðasmára 1, Kópavogi.

Ef þú hefur fyrirspurn varðandi efnið eða þarfnast frekari aðstoðar, er hægt að hafa samband við embætti Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu með því að hringja eða  senda tölvupóst á netfangið fjolskylda@syslumenn.is  

Rafræn afhending gagna

Sýslumenn geta sent skjöl vegna mála í pósthólf aðila hjá ísland.is. Til að fá tilkynningu um að skjal hafi borist, þarf að stilla pósthólfið þannig. 

Kostnaður

Ekki er tekið gjald fyrir að leggja fram umsókn um forsamþykki hjá sýslumanni.

Sýslumenn

Höfuð­borg­ar­svæðið

Mán. til fim. 8:30 - 15
Fös. 8:30 - 14

Vest­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Vest­firðir

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 13:30

Norð­ur­land vestra

Mán. til fös. 9 - 15

Norð­ur­land eystra

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Aust­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9-14

Suður­land

Mán. til fös. 9 - 15

Vest­manna­eyjar

Mán. til fim. 9:15 - 15
Fös. 9:15 - 14

Suðurnes

Mán. til fös. 8:30 - 15