Fara beint í efnið

Prentað þann 22. des. 2024

Stofnreglugerð

1030/2023

Reglugerð um ættleiðingar.

I. KAFLI Orðskýringar.

1. gr.

Með orðinu frumættleiðing er átt við ættleiðingu á barni sem ekki er barn eða kjörbarn maka eða sambúðarmaka umsækjanda.

Með orðinu stjúpættleiðing er átt við ættleiðingu á barni eða kjörbarni maka eða sambúðarmaka umsækjanda.

Með orðunum alþjóðleg fjölskylduættleiðing er átt við ættleiðingu erlends ríkisborgara eða fyrrum erlends ríkisborgara, sem á fasta búsetu hér á landi, á tilteknu barni, sem er umsækjanda náskylt og sem er búsett í upprunalandi hans. Þetta á við hvort sem umsækjandi sækir einn um ættleiðingu eða með maka sínum.

Með sýslumanni í reglugerð þessari er átt við sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu.

II. KAFLI Umsóknir og fylgigögn.

2. gr. Umsókn.

Umsókn um ættleiðingu barns og um forsamþykki til ættleiðingar á erlendu barni skal skilað á eyðublaði sem sýslumaður lætur í té.

Nú hafa umsækjendur þegar ættleitt erlent barn og er þeim þá heimilt að leggja fram beiðni um forsamþykki fyrir ættleiðingu annars erlends barns að liðnum sex mánuðum frá heimkomu barnsins,enda hafi staðfesting réttaráhrifa farið fram eða leyfi til ættleiðingar verið gefið út.

3. gr. Fylgigögn.

Með umsókn samkvæmt 2. gr. skulu fylgja eftirtalin gögn:

  1. Fæðingarvottorð umsækjenda og þess sem ættleiða á ef við á.
  2. Upplýsingar um heilsufar umsækjenda.
  3. Læknisvottorð.
  4. Hjúskaparvottorð.
  5. Staðfesting þjóðskrár á sambúðartíma umsækjenda, ef við á.
  6. Staðfest afrit skattframtala umsækjenda fyrir þrjú síðustu ár.

Þegar sótt er um ættleiðingu fósturbarns umsækjenda skulu að auki fylgja gögn frá viðkomandi barnaverndarþjónustu varðandi ráðstöfun barnsins í fóstrið.

Þegar sótt er um ættleiðingarleyfi á grundvelli forsamþykkis sýslumanns eða um staðfestingu sýslumannsá réttaráhrifum ættleiðingar barns erlendis skulu fylgja hið erlenda ættleiðingarskjal eða erlendur dómur er sýni að lögráð barnsins hafi verið fengin umsækjendum í því skyni að það verði ættleitt hér á landi, erlent vegabréf barnsins og skjal er sýni að mátt hafi ættleiða barnið. Enn fremur fæðingarvottorð barns og heilsufarsskýrsla þess, ef unnt er. Íslensk þýðing skal fylgja ef gögnin eru á öðru tungumáli en ensku.

4. gr. Form fylgigagna o.fl.

Gögn þau sem tilgreind eru í b- og c-lið í 3. gr. skulu vera á sérstökum eyðublöðum sem sýslumaður lætur í té. Læknisvottorð skal gefið út af heimilislækni umsækjenda, en ef honum er ekki til að dreifa þá af lækni sem annast hefur umsækjendur.

Læknisvottorð má ekki vera eldra en þriggja mánaða þegar umsókn er lögð fram.

5. gr. Undanþága frá framlagningu fylgigagna.

Nú er sótt um að ættleiða mann sem orðinn er 18 ára og þarf þá ekki að leggja fram þau gögn sem tilgreind eru í b-, c- og f-lið í 3. gr. Sýslumaður getur þó kallað eftir þeim ef sérstaklega stendur á.

6. gr. Sakavottorð og önnur gögn.

Sýslumaður kallar eftir sakavottorðum umsækjenda.

Ef sýslumaður telur ástæðu til getur hann kallað eftir vottorði eða áliti sérfræðings eða trúnaðarlæknis um heilsufar umsækjenda. Sýslumaður getur einnig eftir því sem hann telur tilefni til kallað eftir öðrum upplýsingum, vottorðum eða gögnum frá umsækjendum sem nauðsynleg eru að mati sýslumanns vegna umsóknar.

III. KAFLI Skilyrði sem umsækjendur verða að uppfylla.

7. gr. Ættleiðing barna.

Ákvæði þessa kafla taka til ættleiðinga barna innan 18 ára aldurs.

8. gr. Hæfni til að fara með forsjá.

Umsækjendur skulu hafa til að bera eiginleika og skilning á þörfum barna sem gera þá vel hæfa til að sinna forsjárskyldum gagnvart barni í samræmi við ákvæði barnalaga.

9. gr. Heilsufar.

Umsækjendur skulu vera svo andlega og líkamlega heilsuhraustir að tryggt sé, eftir því sem unnt er, að ættleiðing verði barni fyrir bestu. Því mega umsækjendur ekki vera haldnir sjúkdómi eða þannig á sig komnir að það dragi úr lífslíkum þeirra á þeim tíma þar til barn verður lögráða, eða minnki möguleika þeirra til að annast vel um barn.

Víkja má frá skilyrði 1. mgr. vegna umsóknar um stjúpættleiðingu barns þegar sérstaklega stendur á.

10. gr. Sambúðartími.

Þegar hjón leggja fram umsókn um ættleiðingu eða um forsamþykki til ættleiðingar á erlendu barni og skulu þau þá sannanlega hafa verið í samfelldri sambúð í a.m.k. tvö ár.

Þegar einstaklingar í skráðri sambúð leggja fram umsókn um frumættleiðingu eða um forsamþykki til ættleiðingar á erlendu barni skulu þau sannanlega hafa verið í samfelldri sambúð í a.m.k. fimm ár.

Þegar umsókn um stjúpættleiðingu er lögð fram skal umsækjandi sannanlega hafa verið í samfelldri sambúð með foreldri eða kjörforeldri barns í a.m.k. fimm ár. Þetta gildir hvort sem um er að ræða hjón eða einstaklinga í skráðri sambúð. Víkja má frá þessu ákvæði vegna umsóknar maka í hjónabandi ef barn hefur verið getið við tæknifrjóvgun og verður ekki feðrað af þeim sökum. Sambúð skal þó hafa verið samfelld í a.m.k. tvö og hálft ár í slíkum tilvikum.

Við mat á lengd sambúðartíma skal miðað við lengd sambúðar sem skráð er í þjóðskrá eða sem ráða má af öðrum ótvíræðum gögnum.

11. gr. Aldur umsækjenda.

Þegar umsókn um frumættleiðingu eða um forsamþykki til ættleiðingar á erlendu barni er lögð fram skal umsækjandi hafa náð 25 ára aldri. Víkja má frá því aldursskilyrði ef umsækjandi hefur náð 20 ára aldri og sérstaklega stendur á.

Umsækjendur á aldrinum 25 til 50 ára geta sótt um forsamþykki fyrir því að ættleiða barn á aldrinum 0 til 5 ára og/eða barn eldra en 5 ára. Miðast hámarksaldurinn við þann umsækjanda sem eldri er. Forsamþykki fyrir því að ættleiða barn á aldrinum 0 til 5 ára fellur úr gildi þegar sá umsækjandi sem eldri er nær 51 árs aldri.

Umsækjendur á aldrinum 51 til 55 ára geta sótt um forsamþykki fyrir því að ættleiða barn eldra en 5 ára. Miðast hámarksaldurinn við þann umsækjanda sem eldri er. Forsamþykki fyrir því að ættleiða barn sem er eldra en 5 ára fellur úr gildi þegar sá umsækjandi sem eldri er nær 56 ára aldri.

12. gr. Önnur skilyrði.

Umsækjendur skulu búa í fullnægjandi húsnæði og hafa yfir að ráða öðrum aðbúnaði til þess að geta veitt barni þroskavænleg uppeldisskilyrði.

Efnahagur umsækjenda skal vera traustur.

Umsækjendur mega ekki hafa hlotið refsidóm sem gefur tilefni til að draga í efa hæfni þeirra til að veita barni gott uppeldi.

IV. KAFLI Umsagnir barnaverndarþjónustu í ættleiðingarmálum.

13. gr. Ættleiðing skal vera barni fyrir bestu.

Í umsögn barnaverndarþjónustu skal koma fram hvort barnaverndarþjónusta telur að fyrirhuguð ættleiðing sé barni fyrir bestu. Þá skal koma fram hvort barnaverndarþjónusta mælir með því að ættleiðing verði heimiluð eða ekki. Niðurstaða barnaverndarþjónustu skal vera ítarlega rökstudd, eftir atvikum með skírskotun til greinargerðar félagsráðgjafa eða annars fagmanns, sem unnið hefur málið og gert greinargerð.

14. gr. Leiðbeiningar til handa barni o.fl.

Ef sótt er um að ættleiða barn sem orðið er 12 ára skal koma fram í umsögn barnaverndarþjónustu að rætt hafi verið við barnið á vegum barnaverndarþjónustu og því veitt leiðsögn um ættleiðingu og réttaráhrif hennar. Gera skal grein fyrir því hver eða hverjir ræddu við barnið og enn fremur hvar og hvenær það var gert.

Þegar sótt er um að ættleiða barn sem er yngra en 12 ára skal koma fram hvort rætt hafi verið við barnið á vegum barnaverndarþjónustu og því veitt leiðsögn um ættleiðingu og réttaráhrif hennar. Ef rætt hefur verið við barnið skal gera grein fyrir því hver eða hverjir gerðu það og hvar og hvenær það var gert. Skal þá einnig geta um afstöðu barnsins til fyrirhugaðrar ættleiðingar. Ef ekki hefur verið rætt við barnið skal gera grein fyrir ástæðum þess að það var ekki gert.

15. gr. Annað efni umsagnar barnaverndarþjónustu.

Í umsögn barnaverndarþjónustu eða meðfylgjandi greinargerð fagmanns skal koma fram að umsækjendur uppfylli skilyrði III. kafla reglugerðar þessarar, eftir því sem við á. Sérstaklega skal eftirfarandi koma fram:

  1. Hvar og hvenær rætt var við umsækjendur.
  2. Ástæður þess að umsækjendur óska eftir að ættleiða barn.
  3. Stutt lýsing á uppvexti umsækjenda, menntun þeirra og störfum.
  4. Lýsing á persónulegum eiginleikum umsækjenda, áhugamálum þeirra og tómstundaiðkun.
  5. Lýsing á afstöðu umsækjenda til umönnunar og uppeldis barna.
  6. Lýsing á heilsufari umsækjenda og notkun þeirra á tóbaki, áfengi eða öðrum vímuefnum.
  7. Lýsing á félagslegri og fjárhagslegri stöðu umsækjenda.
  8. Stutt lýsing á fyrstu kynnum umsækjenda, sambúð og eftir atvikum hjónabandi, þ. á m. hvenær stofnað var til hjúskapar.
  9. Lýsing á heimili umsækjenda og umhverfi þess, sérstaklega með tilliti til þarfa barns sem sótt er um að ættleiða. Greina skal frá afstöðu heimilisins til leiksvæða, leikskóla og skóla, eftir því sem við á.
  10. Lýsing á tengslum umsækjenda og barns sem óskað er eftir að ættleiða.
  11. Lýsing á tengslum umsækjenda og annarra barna á heimili þeirra, ef því er að skipta. Enn fremur á uppeldi þeirra barna, félagslegri stöðu þeirra og öðru sem máli skiptir.
  12. Stutt lýsing á afstöðu nánustu skyldmenna umsækjenda til fyrirhugaðrar ættleiðingar og stuðningi þeirra við barnið ef á þarf að halda.
  13. Stutt lýsing á fyrri sambúðum eða hjónaböndum umsækjenda, ef því er að skipta.
  14. Samantekt og mat.

Ef umsækjandi um ættleiðingu barns er einhleypur skal í umsögn barnaverndarþjónustu gerð ítarlega grein fyrir því að umsækjandi sé vel hæfur til að taka að sér barn vegna eiginleika sinna, menntunar eða reynslu, t.d. að umsækjandi hafi mikla reynslu af umönnun og uppeldi barna eða náin skyldleika- eða vináttutengsl séu á milli barns og foreldra þess og umsækjanda eða tengsl umsækjanda séu við heimaland barns. Þá ber einnig að líta til þess hvort umsækjandi geti leitað stuðnings frá nákomnum vegna ættleiðingar.

Þegar sótt er um ættleiðingu á fósturbarni skal greina frá aðdraganda fósturráðstöfunarinnar og því hvernig til hefur tekist með fóstrið. Jafnframt skal greint frá því hvort ættmennum látins kynforeldris barns, sem notið hafa umgengni við það samkvæmt ákvörðun barnaverndaryfirvalda, hafi verið kynnt að umsókn um ættleiðingu þess sé til meðferðar eða, ef það á við, ástæður þess að það hafi ekki verið gert.

Þegar sótt er um stjúpættleiðingu skal gæta ákvæðis þessarar greinar eftir því sem við á.

V. KAFLI Umsagnir barnaverndarþjónustu vegna umsókna

um forsamþykki til ættleiðingar á erlendu barni.

16. gr. Hæfni umsækjenda til að ættleiða erlent barn.

Í umsögn barnaverndarþjónustu skal koma fram hvort umsækjendur séu vel hæfir, hæfir eða ekki hæfir til að ættleiða barn, eftir atvikum með skilgreindar þarfir, frá öðru landi. Skal mat barnaverndarþjónustu á hæfi umsækjenda vera rækilega rökstutt, eftir atvikum með skírskotun til greinargerðar félagsráðgjafa eða annars fagmanns, sem kannað hefur málið. Þá skal koma fram hvort barnaverndarþjónusta mælir með því að forsamþykki verði gefið út eða ekki.

17. gr. Annað efni umsagnar barnaverndarþjónustu.

Í umsögn barnaverndarþjónustu eða meðfylgjandi greinargerð fagmanns (home study) skal koma fram að umsækjendur uppfylli skilyrði III. kafla reglugerðar þessarar, eftir því sem við á.

Enn fremur skal gerð grein fyrir þeim atriðum sem tilgreind eru í 1. og 2. mgr. 15. gr. reglugerðar þessarar.

Í umsögninni skal einnig koma fram lýsing á undirbúningi umsækjenda fyrir komu barns til landsins.

Loks skal gerð grein fyrir eftirliti með ungbörnum hér á landi, þ. á m. börnum sem ættleidd eru hingað til lands.

VI. KAFLI Ættleiðingar á erlendum börnum.

18. gr. Milliganga ættleiðingarfélags.

Þeim sem óska eftir forsamþykki sýslumanns til að ættleiða erlent barn er skylt að leita milligöngu um ættleiðinguna hjá félagi sem til þess hefur löggildingu dómsmálaráðherra.

19. gr. Samþykki fyrir því að ættleiðing megi fara fram.

Ef um ættleiðingu er að ræða á grundvelli Haag-samningsins um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa frá 1993 ber sýslumaður ábyrgð á að veita samþykki samkvæmt c-lið 17. gr. samningsins um að ættleiðing megi fara fram. Sýslumaður tekur við upplýsingum um tiltekið barn frá upprunaríki með milligöngu löggilts ættleiðingarfélags sem hefur milligöngu um ættleiðingu hér á landi. Til grundvallar beiðni um útgáfu samþykkis sýslumanns samkvæmt ákvæðinu skal liggja til grundvallar ítarleg greinargerð um barnið og foreldra þess, skýrsla um aðstæður barnsins, erlend ættleiðingargögn, s.s. ákvörðun um að barnið sé ættleiðanlegt og/eða ákvörðun um ráðstöfun barnsins til ættleiðingar, læknisfræðileg gögn um barnið ásamt fæðingarvottorði þess.

Þegar þýðing á gögnum skv. 1. mgr. liggur fyrir kynnir sýslumaður læknisfræðilegar upplýsingar fyrir lækni sem gefur sýslumanni álit sitt á þeim. Ef sýslumaður telur gögnin fullnægjandi er óskað eftir milligöngu löggilts ættleiðingarfélags við að afla samþykkis væntanlegra kjörforeldra til áframhaldandi málsmeðferðar. Þegar samþykki væntanlegra kjörforeldra til áframhaldandi málsmeðferðar liggur fyrir veitir sýslumaður samþykki samkvæmt c-lið 17. gr. Haag-samningsins og tilkynnir löggiltu ættleiðingarfélagi sem hefur milligöngu um ættleiðingu um veitt samþykki. Löggilt ættleiðingarfélag hefur milligöngu um að senda samþykki sýslumanns til upprunaríkis.

Ef um alþjóðlega fjölskylduættleiðingu er að ræða skv. 20. gr. getur það ríki sem á í hlut óskað eftir því við sýslumann að samþykki skv. 1. mgr. sé gefið út. Í slíkum tilvikum er sýslumaður í beinum samskiptum við viðkomandi ríki og væntanlega kjörforeldra.

Sýslumaður getur hafnað því að veita samþykki skv. 1. og 3. mgr. Sýslumaður skal tilkynna löggiltu ættleiðingarfélagi sem hefur milligöngu um ættleiðingu ef hafnað er að veita samþykki samkvæmt 1. mgr. Skal væntanlegum kjörforeldrum kynnt fyrirhuguð ákvörðun sýslumanns um að hafna því að veita samþykki skv. 1. og 3. mgr.

20. gr. Alþjóðleg fjölskylduættleiðing o.fl.

Víkja má frá ákvæði 18. gr. í undantekningartilvikum ef um er að ræða alþjóðlega fjölskylduættleiðingu eða ef aðrar alveg sérstakar ástæður mæla með ættleiðingu án milligöngu ættleiðingarfélags.

Þegar óskað er eftir að vikið verði frá ákvæði 18. gr. skulu umsækjendur leggja fram gögn frá viðkomandi ríki sem sýna að ættleiðingar sem þar fara fram séu í samræmi við íslensk ættleiðingarlög og grundvallarreglur Haag-samnings um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa frá 1993 og sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Enn fremur skulu umsækjendur leggja fram gögn og skýra nákvæmlega frá gangi ættleiðingarmáls í viðkomandi ríki, hvar og hvernig ættleiðing er veitt og gefa nákvæmar upplýsingar um þau gjöld sem greiða ber í því ríki og til hvers eða hverra þau greiðist. Þá skulu umsækjendur leggja fram ættleiðingarlög þess ríkis. Íslensk þýðing skal fylgja ef gögnin eru á öðru tungumáli en ensku. Sýslumaður, eftir atvikum fyrir milligöngu ráðuneytisins, getur aflað staðfestingar frá viðkomandi ríki um að veittar upplýsingar séu réttar.

21. gr. Námskeið.

Áður en sótt er um forsamþykki til ættleiðingar á erlendu barni á grundvelli Haag-samningsins um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa frá 1993 skulu umsækjendur leggja fram staðfestingu á því, að þeir hafi sótt námskeið eða hafi skuldbundið sig til að sækja námskeið á vegum löggilts ættleiðingarfélags um ættleiðingar erlendra barna.

22. gr. Eftirfylgniskýrslur.

Ef um ættleiðingu er að ræða á grundvelli Haag-samningsins um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa frá 1993 ber sýslumaður ábyrgð á að skýrslur um stöðu barns eftir komu þess til landsins (follow up reports) séu gerðar og sendar upprunaríki barns í samræmi við þær reglur sem um það gilda í ríkinu.

Ef um alþjóðlega fjölskylduættleiðingu er að ræða skv. 20. gr. getur það ríki sem á í hlut óskað eftir því við sýslumann að skýrslur skv. 1. mgr. séu gerðar og sendar til upprunaríkis barns í samræmi við þær reglur sem um það gilda í ríkinu. Ber sýslumaður þá ábyrgð á því að eftirfylgniskýrslur verði gerðar og sendar til upprunaríkis í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru af hálfu viðkomandi ríkis.

Í tengslum við gerð eftirfylgniskýrslna getur sýslumaður, í samráði við kjörforeldra, aflað upplýsinga um kjörforeldra og barn annars vegar frá barnaverndarþjónustu og hins vegar frá löggiltu ættleiðingarfélagi ef þörf krefur.

Kjörforeldrar bera kostnað af þýðingum vegna eftirfylgniskýrslna skv. 1. og 2. mgr. og kostnað vegna staðfestingar á undirskrift eða lögbókandavottun og staðfestingar með Apostille-vottun þegar það á við.

23. gr. Skráning barns.

Þeir sem búsettir eru hér á landi og hafa annaðhvort fengið leyfi erlendra stjórnvalda til ættleiðingar barns, á grundvelli forsamþykkis sýslumanns, eða hafa fengið heimild erlends ríkis til að barn verði ættleitt hér á landi, á grundvelli forsamþykkis sýslumanns, skulu eigi síðar en 6 mánuðum frá komu barns hingað til lands skrá það í þjóðskrá. Framvísa skal erlendum ættleiðingargögnum s.s. erlendu ættleiðingarskjali eða dómi, sem sýni að lögráð barns hafi verið fengin umsækjendum í því skyni að það verði ættleitt hér á landi. Þá skal og framvísa ferðaskilríkjum barns. Við skráningu barnsins í þjóðskrá verður því úthlutað kennitölu.

Innan sama frests, eða eins fljótt og kostur er eftir því sem tilskilin gögn frá upprunaríki liggja fyrir, skal leggja inn beiðni um leyfi til ættleiðingar, eða eftir atvikum staðfestingu sýslumannsá réttaráhrifum ættleiðingar barns erlendis, sbr. 3. mgr. 3. gr.

VII. KAFLI Þjónusta eftir ættleiðingu.

24. gr. Þjónusta og ráðgjöf fyrir uppkomna ættleidda.

Sýslumaður getur boðið þeim sem ættleiddir hafa verið á grundvelli leyfis eða forsamþykkis hér á landi og náð hafa 18 ára aldri upp á ráðgjafarviðtal vegna ættleiðingar. Ráðgjöf samkvæmt þessu ákvæði skal veitt af sérfræðingum sem lokið hafa háskólaprófi til starfsréttinda í sálfræði, félagsráðgjöf eða sambærilegum greinum.

Umfang ráðgjafar skal vera allt að 5 viðtöl fyrir hvern einstakling honum að kostnaðarlausu þar sem hvert viðtal er um 1 klst.

Þeir sem óska eftir ráðgjafarviðtali hjá sýslumanni skulu leggja fram beiðni hjá sýslumanni þess efnis. Þegar beiðni um ráðgjafarviðtal hefur verið samþykkt hjá sýslumanni skal nýta fyrsta viðtalstíma innan 6 mánaða frá því að beiðni var samþykkt, nema óviðráðanlegar aðstæður hjá umsækjanda hafi orðið til þess að umsækjandi hafi ekki getað nýtt viðtalstíma innan tilskilins frests.

VIII. KAFLI Gildistaka o.fl.

25. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 4. mgr. 16. gr., 2. mgr. 28. gr., 2. mgr. 30. gr., 2. mgr. 35. gr. og 41. gr. laga um ættleiðingar nr. 130/1999, öðlast gildi 1. október 2023. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um ættleiðingar, nr. 238/2005.

Dómsmálaráðuneytinu, 28. september 2023.

Guðrún Hafsteinsdóttir.

Haukur Guðmundsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.