Handbók vefstjóra: Setja inn efni
Hvað á heima á Styrkjatorgi?
Styrkjatorg er nýjung sem er ætlað að halda utan um margvíslega styrki, tækifæri og annan stuðning sem sækja má um.
Í grunninn má segja að útgangspunktur í afmörkun skráninga á Styrkjatorgi sé samkeppni um einhvers konar takmarkað framboð.
Þetta er kannski skýrast hjá samkeppnissjóðum sem veita úr afmarkaðri heildarupphæð, yfirleitt byggt á umsóknum sem berast á afmörkuðu umsóknartímabili. Dæmi um þetta eru starfslaun listamanna og ýmsir styrkir vegna nýsköpunar.
Takmörkun framboðs á ekki bara við um fjármögnun, heldur getur líka verið um að ræða annars konar tækifæri þar sem ekki er gefið að allir umsækjendur fái það sem sóst er eftir, þótt þeir uppfylli sett skilyrði. Hér mætti nefna sem dæmi þátttöku í nýsköpunarhröðlum eða stúdentaskipti milli landa.
Hvað á ekki heima á Styrkjatorgi?
Styrkjatorgi er ekki ætlað að halda utan um styrki og stuðning sem íbúar, félög eða fyrirtæki eiga lagalegan rétt á og þar sem liggur fyrir í reglum og skilmálum hvaða upphæðir eða umfang á við hverju sinni (þótt það geti verið breytilegt milli ára).
Sem dæmi um slíkt mætti nefna greiðslur vegna fæðingarorlofs eða endurgreiðslur kostnaðar sem skýrt er að tilteknir aðilar eiga lagalegan rétt á.
Nákvæmlega hvar mörkin liggja getur verið túlkunaratriði og í vafaatriðum hefur ritstjórn Stafræns Íslands lokaorð um það hvað á heima á Styrkjatorgi.
Nokkur dæmi til skýringar
Loftslags- og orkusjóður auglýsir reglulega eftir umsóknum vegna styrkja sem tengjast orkuskiptum og öðrum áherslum sjóðsins, þeim styrkjum er úthlutað úr afmörkuðum potti eftir afmarkað umsóknartímabil og eru því dæmigerðir samkeppnisstyrkir. ✅
Sami sjóður afgreiðir líka rafbílastyrki sem rafbílaeigendur eiga rétt á að sækja um, og þar liggja styrkupphæðir hvers ár fyrir. Út frá samkeppnis-afmörkuninni eiga rafbílastyrkir því ekki heima á Styrkjatorgi. ⛔
Enterprise Europe Network (í umsýslu Rannís) býður nokkrar „vörur“. Ein þeirra er ráðgjöf um stafræna vegferð þar sem fyrirtækjum stendur til boða að fara í gegnum greiningarferli og fá ráðgjöf þar að lútandi. Þetta er afmörkuð þjónusta/tækifæri sem ekki er gefið að geti sinnt öllum og á því við nálgun Styrkjatorgs. ✅
Enterprise Europe Network býður líka „vöruna“ Samstarfsleit & viðskiptatækifæri á vefnum sínum. Hún felst í aðgangi að leitarvirkni gagnagrunns sem er öllum opin og byggir á sjálfsafgreiðslu (auk mögulegrar ráðgjafar). Hér er ekki beinlínis um að ræða takmarkað framboð og því hæpið að þessi „vara“ eigi heima á Styrkjatorgi. ⛔
Handbók vefstjóra
Ertu með ábendingu eða spurningu?