Fara beint í efnið

Vanrækslugjald er lagt á eigendur eða umráðamenn ökutækja sem mæta ekki með ökutækin í lögboðna ökutækjaskoðun innan gefins tímafrests.

Vanrækslugjald er 20.000 kr. vegna allra ökutækja nema tiltekinna flokka hópbifreiða, vörubifreiða og eftirvagna en gjald vegna þeirra er 40.000 kr.

Umsjón með vanrækslugjaldi

Sýslumaðurinn á Vestfjörðum sér um álagningu og innheimtu vanrækslugjalds fyrir allt landið. 

Símatími er alla virka daga frá 10-12. Sími: 456-1200. 
Netfang: vanraekslugjald@syslumenn.is   

Álagning vanrækslugjalds

Tilkynning um álagningu vanrækslugjalds er send eiganda eða umráðamanni ökutækis. 

  • Sé mætt til skoðunar eða ökutækið skráð úr umferð innan mánaðar frá álagningu er veittur 50% afsláttur. 

  • Ef ökutækið er afskráð til úrvinnslu/förgunar innan tveggja mánaða frá álagningu fellur gjaldið sjálfkrafa niður. Hægt er að skrá ökutæki úr umferð án þess að skila inn númeraplötunni.

Ekki er veittur helmings afsláttur vegna greiðslu eingöngu, færa verður ökutæki til skoðunar eða skrá úr umferð innan mánaðar frá álagningu til að fá afsláttinn.

Hafi gjaldið ekki verið greitt hjá skoðunarstöð að mánuði liðnum kemur krafa í netbanka.

Bilað ökutæki

Sé ökutæki bilað og ekki mögulegt að færa það til skoðunar ber eiganda að skrá ökutækið úr umferð til þess að sporna við því að vanrækslugjald leggist á. Það þarf að gera áður en ökutækið á að fara í skoðun. Þetta á líka við tjaldvagna og slík tæki sem eru komin í vetrargeymslu.

Rangur skoðunarmiði

Geri skoðunarstöð þau mistök að líma rangan skoðunarmiða á ökutæki er það skráningin í ökutækjaskrá sem ræður en ekki límmiðinn á bílnum. Í þessum tilfellum er gjaldið fellt niður vegna mistaka skoðunarstöðva. Athugið að staðfesting þarf að berast til sýslumanns frá skoðunarstöð. 

Hvað gerist ef ég læt ekki skoða bílinn minn?

Mögulegar afleiðingar:

  • Lögreglan hefur heimild til þess að klippa bílnúmer af ökutækjum sem ekki eru færð til skoðunar. 

  • Innheimtuaðgerðir vegna vanrækslugjalds hafa í för með sér aukinn kostnað sem leggst á eiganda eða umráðamann ökutækisins

  • Sýslumaður getur farið fram á fjárnám hjá eiganda/umráðamanni, og að lokum nauðungarsölu á ökutæki vegna ógreiddra vanrækslugjalda.

  • Ekki er hægt að framkvæma eigandaskipti ef vanrækslugjald er á ökutækinu. 


Tengd lög og reglugerðir