Vanrækslugjald
Vanrækslugjald er lagt á eigendur eða umráðamenn ökutækja sem mæta ekki með ökutækin í lögboðna ökutækjaskoðun innan gefins tímafrests.
Vanrækslugjald er 15.000kr.
Umsjón með vanrækslugjaldi
Sýslumaðurinn á Vestfjörðum sér um álagningu og innheimtu vanrækslugjalds fyrir allt landið.
Símatími er alla virka daga frá 10-12. Sími: 456-1200.
Netfang: vanraekslugjald@syslumenn.is
Skoðunartími ökutækis
Aðalskoðun
Skoðunarmánuður ökutækis miðast við endastaf skráningarmerkis ökutækisins. Frestur til aðalskoðunar ökutækis áður en til álagningar vanrækslugjalds kemur er tveir mánuðir frá skoðanamánuði.
Dæmi:
Ökutæki sem enda á 1
skal skoða í janúar
frestur vegna aðalskoðunar er til loka mars
vanrækslugjald er lagt á í apríl hafi eigandi ekki mætt með ökutækið í skoðun
Ökutæki sem enda á 2
skal skoða í febrúar
frestur vegna aðalskoðunar er til loka apríl
vanrækslugjald er lagt á í maí hafi eigandi ekki mætt með ökutækið í skoðun
Ökutæki sem enda á 0
skal skoða í október
frestur vegna aðalskoðunar er til loka desember
vanrækslugjald er lagt á í janúar hafi eigandi ekki mætt með ökutækið í skoðun
Einkamerki eða einkanúmer
Ef ökutæki er með einkamerki sem endar á tölustaf gildir síðasti tölustafurinn
Ökutæki með einkamerki sem endar á bókstaf skulu koma í skoðun í maí. Frestur vegna aðalskoðunar er til loka júlí og vanrækslugjald lagt á í ágúst.
Fornbílar, húsbifreiðar, bifhjól og eftirvagnar
Fornbifreiðir, húsbifreiðir, fornbifhjól, létt bifhjól, hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagna skal skoða fyrir 1. ágúst á skoðunarári.
Fornbifreiðir skal færa til skoðunar annað hvert ár. Miða skal við skráningarár varðandi skoðunarreglur um skráningarár og ef ár dettur úr fær ökutækið eins árs skoðun.
Sé fornbifreið safngripur og hefur ekki verið hreyfð frá síðustu skoðun er ráðlagt að skrá hana úr umferð.
Endurskoðun
Fái eigandi eða umráðamaður boðun í endurskoðun ökutækis er fresturinn til loka næsta mánaðar.
Dæmi:
aðalskoðun fer fram í janúar og eigandi boðaður í endurskoðun
frestur til endurskoðunar er til loka febrúar
vanrækslugjald er lagt á í mars hafi eigandi ekki mætt með með ökutækið í endurskoðun
Álagning vanrækslugjalds
Tilkynning um álagningu vanrækslugjalds er send eiganda eða umráðamanni ökutækis.
Sé mætt til skoðunar eða ökutækið skráð úr umferð innan mánaðar frá álagningu er veittur 50% afsláttur
Ef ökutækið er afskráð til úrvinnslu/förgunar innan tveggja mánaða frá álagningu fellur gjaldið sjálfkrafa niður. Hægt er að skrá ökutæki úr umferð án þess að skila inn númeraplötunni.
Ekki er veittur helmings afsláttur vegna greiðslu eingöngu, færa verður ökutæki til skoðunar eða skrá úr umferð innan mánaðar frá álagningu til að fá afsláttinn.
Hafi gjaldið ekki verið greitt hjá skoðunarstöð að 2 mánuðum liðnum kemur krafa í netbanka og í framhaldinu leggjast á gjöld vegna innheimtuaðgerða.
Bilað ökutæki
Sé ökutæki bilað og ekki mögulegt að færa það til skoðunar þá ber eiganda að skrá ökutækið úr umferð til þess að sporna við því að vanrækslugjald leggist á. Það þarf að gera áður en ökutækið á að fara í skoðun. Þetta á líka við tjaldvagna og slík tæki sem eru komin í vetrargeymslu.
Rangur skoðunarmiði
Geri skoðunarstöð þau mistök að líma rangan skoðunarmiða á ökutæki er það skráningin í ökutækjaskrá sem ræður en ekki límmiðinn á bílnum. Í þessum tilfellum er gjaldið fellt niður vegna mistaka skoðunarstöðva. Athugið að staðfesting þarf að berast til sýslumanns frá skoðunarstöð.
Hvað gerist ef ég læt ekki skoða bílinn minn?
Mögulegar afleiðingar:
Lögreglan hefur heimild til þess að klippa bílnúmer af ökutækjum sem ekki eru færð til skoðunar.
Innheimtuaðgerðir vegna vanrækslugjalds hafa í för með sér aukinn kostnað sem leggst á eiganda eða umráðamann ökutækisins
Sýslumaður getur farið fram á fjárnám hjá eiganda/umráðamanni, og að lokum nauðungarsölu á ökutæki vegna ógreiddra vanrækslugjalda.
Ekki er hægt að framkvæma eigandaskipti ef vanrækslugjald er á ökutækinu.
Tengd lög og reglugerðir
Sýslumaðurinn á Vestfjörðum
Sýslumaðurinn á VestfjörðumTengd stofnun
Samgöngustofa