Fara beint í efnið

Tæki og vélbúnaður

Á þessari síðu

Öryggi við jarðvegsvinnu

Ýmiss konar slysahætta getur fylgt vinnu við skurðgröft, grunna, efnistöku og annan gröft sem fylgir mannvirkjagerð. Það er því mikilvægt að gera áhættumat þar sem áhættur eru skilgreindar og áætlun um hvernig brugðist verður við þeim. 

Undirbúningurinn mikilvægur

Það má draga úr áhættu með því að undirbúa verk sem best, beita réttum vinnubrögðum og ganga þannig frá á vinnustað að ekki skapist hætta fyrir starfsfólk eða aðra.

Atvinnurekandi skal tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Á það sérstaklega við framkvæmd vinnu, vinnustaðinn, vélar, tækjabúnað og hættuleg efni.

Mikilvæg atriði áður en hafist er handa:

  • Leita þarf upplýsinga um allar lagnir áður en byrjað er að grafa.

  • Gæta verður varúðar þegar unnið er nálægt vinnuvélum, krönum og öðrum tækjum.

  • Tilkynnið strax hlutaðeigandi ef skemmdir verða á jarðstrengjum eða lögnum.

Lesa meira:

Skipulag og framkvæmd

Þeir sem skipuleggja verk, framkvæma þau eða hafa eftirlit með þeim eiga að hafa þekkingu og reynslu af slíkri vinnu. Sá sem sér um framkvæmd verks á að sjá til þess að fyllsta öryggis sé gætt.

Athuganir á lóð

Áður en byrjað er að grafa skurði eða þegar grafið er fyrir mannvirkjum er meðal annars nauðsynlegt að athuga eftirfarandi atriði: Eiginleika jarðvegsins, dýpt á uppgreftrinum, lengd hans og breidd, grunnvatnsstöðu, hve lengi skurðurinn eða grunnurinn verður opinn og hve mikið álag verður á bakkana. Í sumum tilfellum getur verið nauðsynlegt að gera jarðvegsrannsóknir.

Komið í veg fyrir hrun

Til að koma í veg fyrir hrun í skurði er nauðsynlegt að hafa hæfilegan fláa eða nota skorður. Einnig má draga úr hættu á hruni með því að grafa skurði í eins stuttum áföngum og mögulegt er og ljúka lögn og fylla síðan. Einnig má draga úr hættu á hruni í skurðum og grunnum með því að leggja hæfilega þéttriðið net á hliðar og bakka.

Vélavinna

Þegar skurðir og grunnar eru grafnir skal hugað að því að þeir standi opnir í eins stuttan tíma og mögulegt er. Við uppgröft þarf að fara sérstaklega varlega og leggja efni ekki of nálægt bökkum skurða þannig að álag verði of mikið og hætta á að bakkinn hrynji.

Álag frá vélum og titringur við uppgröftinn getur reynt mikið á bakka skurðarins. Því á að aka gröfu sem minnst í nánd við skurðinn og skal ávallt aka henni frá skurðinum þegar uppgreftri er lokið.

Kranar og vélar, sem notaðar eru við skurði og grunna, á að hafa í hæfilegri fjarlægð frá bökkum. Sérstök þörf er á aðgát þegar jarðvegur er að þiðna.

Vinnueftirlitið: Öryggi við skurðgröft (2)

Halli á skurðveggjum

Þegar skurðir eru með hallandi hliðum án skorða verður hallinn að vera það mikill að ekki sé hætta á hruni. Taka skal tillit til jarðvegsefna í hverju tilviki. Ef steinar skaga fram í hlíðum er mikilvægt að fjarlægja þá eða skorða vel til að gæta fyllsta öryggis.

Ekki er hægt að setja algildar reglur um hver þessi halli eigi að vera. Mörg atriði skipta þar máli, svo sem samsetning jarðvegsins, dýpt skurðarins, fjarlægð frá umferð, fjarlægð frá mannvirkjum og fleira.

Vinnueftirlitið: Öryggi við skurðgröft (3)

Dæmi um hættulegar aðstæður. Skurðurinn er orðinn dýpri en grunnvatnsstaðan og lítill halli er á hliðunum.

Skorður: Almennt

Ef efnið er laust í sér þarf að skorða lóðrétta skurðveggi  á tryggilegan hátt annaðhvort með skorðum, hallandi bökkum eða beita öðrum ráðum sem gera vinnu í skurðinum örugga. Skorður eiga að vera nægjanlega sterkar til að geta staðist þann jarðþrýsting sem þær verða fyrir og komið þannig í veg fyrir að hliðar skurðsins geti fallið saman.

Vinnueftirlitið: Öryggi við skurðgröft (4)

Dæmi um skorður.

Þar sem grafið er í blautum leir eða/votum sandi í djúpum skurðum (undir grunnvatnsborði) er hætta á að botninn bresti eða vatn þrýstist upp af skurðbotni. Þegar aðstæður eru á þann veg á að nota þil.

Sérstakar aðstæður

Þegar grafið er langsum meðfram halla geta skapast sérstakar aðstæður. Laghlutar, grunnvatn og mjúkur leir geta valdið sérstakri hættu, einkum þegar leir blandast  grunnvatni. Einnig er þörf á sérstakri aðgát fyrst eftir að frost fer úr jörðu og þegar jörð þiðnar á skömmum tíma. Við slíkar aðstæður er ráðlegt að fá ráðgjöf hjá þeim sem hefur góða jarðfræðilega þekkingu.

Vinnueftirlitið: Öryggi við skurðgröft (5)

Við aðstæður sem þessar er nauðsynlegt að skorða bæði veggi og stoðvegg.

Þegar grafið er nálægt stoðvegg geta skapast vissar hættur. Nauðsynlegt er að fá ráðgjöf við slíkar aðstæður um hvort þurfi að skorða gröftinn og jafnvel stoðvegginn líka. Við aðstæður eins og sýndar eru á myndinni hér að ofan er bæði nauðsynlegt að skorða veggi og stoðvegg.

Uppgrafið efni

Það efni sem kemur upp úr skurðinum eykur þrýsting á hliðar hans og á því að setja í sem mesta fjarlægð. Hún skal ekki vera minni en einn metri.

Vinnueftirlitið: Öryggi við skurðgröft (6)

Efnið sem kemur upp úr skurðinum á að setja í að minnsta kosti eins metra fjarlægð frá skurðbrúninni.

Lausir steinar geta hæglega runnið niður í skurðinn ef efnið er of nálægt. Það á einnig að vera hægt að ganga á tryggan hátt eftir bökkum skurðarins án þess að skapa hættu á að þeir hrynji yfir þann sem kann að vera við vinnu í skurðinum.

Vinnueftirlitið: Öryggi við skurðgröft (7)

Það á að vera hægt að ganga á tryggan hátt eftir bökkum skurðarins án þess að skapa hættu á að þeir hrynji yfir þann sem kann að vera að vinna í honum.

Skorður fjarlægðar: Fylling

Þegar skorður eru fjarlægðar á að reyna að haga vinnubrögðum þannig að þeir sem vinna við það þurfi ekki að vera ofan í skurðinum.

Aðkomuleiðir

Í öllum skurðum, sem eru dýpri en einn meter, á að nota að minnsta kosti einn stiga á hverju vinnusvæði til að auðvelda mönnum að fara niður í skurð eða grunn og upp aftur. Ef skurðir eru langir eiga að vera fleiri en einn stigi sem hægt er að nota. Stigar skulu ná frá botni skurðar og minnst einn metra upp fyrir bakka hans.

Hlé gert á verki

Ef gera þarf hlé á vinnu þarf vinnusvæðið að vera vel afgirt og gengið frá því samkvæmt þeim reglum sem um það gilda.

Aðvaranir

Þar sem unnið er við skurði þarf að vera góð lýsing. Setja skal upp aðvörunarbúnað vegna umferðar, ekki síst vegfarenda og barna. Í því sambandi má nefna aðvörunarskilti, aðvörunarljós, línu og búnað sem hindrar að fólk geti fallið ofan í skurði, til dæmis í myrkri.

Þjónustuaðili

Vinnu­eft­ir­litið