Tæki og vélbúnaður
Markaðseftirlit og CE-merkingar
Ákveðnar vörur þurfa að vera CE-merktar svo unnt sé að setja þær á íslenskan markað.
Þetta á við um til dæmis vélar, tæki, persónuhlífar og annan búnað. Vinnueftirlitið hefur eftirlit með að vörur og búnaður uppfylli viðeigandi grunnkröfur um öryggi og séu CE-merktar.
Eftirlitið felst í því að:
Kanna hvort vél, tæki eða persónuhlíf sé CE-merkt á réttan hátt og hvort að þeim búnaði fylgi fullnægjandi leiðbeiningar.
Skoða samræmisyfirlýsingu sem á að vera aðgengileg við alla sölu og dreifingu.
Í sumum tilvikum þykir ástæða til að kalla eftir tæknigögnum. Þá er kallað eftir gögnum frá framleiðanda eða viðurkenndum fulltrúa hans innan Evrópska efnahagssvæðisins. Jafnvel er krafist sérstakra prófana.
CE-merkingar
Með því að CE-merkja vöru hefur framleiðandi, innflytjandi eða dreifingaraðili ábyrgst að hún uppfylli grunnkröfur um öryggi og almennt heilbrigði. CE-merking segir þó ekki til um gæði eða endingu vörunnar. Aðeins að hún uppfylli þessar grunnkröfur.
Vegabréf vöru
CE-merkinu hefur stundum verið líkt við vegabréf vöru þar sem CE-merktar vörur hafa frjálst flæði yfir landamæri innan EES/ESB. Kröfur um öryggi eru samræmdar á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins og byggjast á Evrópugerðum um hlutaðeigandi vöru.
Viðurlög
Vinnueftirlitið hefur heimildir til að banna markaðssetningu véla, tækja eða persónuhlífa sem eru ekki CE-merktar eða uppfylla ekki þær kröfur sem eru gerðar til þeirra.
Einnig hefur Vinnueftirlitið heimildir til að banna sölu tímabundið meðan verið er að kanna hvort að viðkomandi vara fullnægi umræddum kröfum. Framleiðandi eða fulltrúi hans hér á landi þarf þá að framkvæma prófanir á eigin kostnað.
Reynist varan ekki fullnægja kröfunum fer Vinnueftirlitið fram á afturköllun þeirra. Brot á reglunum getur varðað sektum.
Vöruvaktin
Vefnum voruvaktin.is er ætlað að auðvelda neytendum að varast gallaðar og hættulegar vörur.
Að Vöruvaktinni standa níu stofnanir sem sinna eftirliti með vörum sem eru seldar á íslenskum markaði. Þær eru Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, ÁTVR, Geislavarnir ríkisins, Neytendastofa, Fjarskiptastofa, Vinnueftiritið, Samgöngustofa, Umhverfisstofnun og Lyfjastofnun.
Á vefnum má finna tilkynningar og upplýsingar um hættulegar vörur. Eins getur almenningur komið á framfæri eigin ábendingum um hættulegar eða ólöglegar vörur.
Þjónustuaðili
Vinnueftirlitið