Tæki og vélbúnaður
Katlar og þrýstibúnaður
Vinnueftirlitið hefur það hlutverk að skrá og skoða katla og þrýstibúnað sem notaður er til ýmissa verka í matvælaiðnaði, á sjúkrahúsum, hjá fatahreinsunum, í bruggverksmiðjum og fleiri stöðum.
Katlar og þrýstibúnaður getur verið af ýmsum stærðum og gerðum en er gjarnan keyrður á miklum þrýstingi sem getur skapað mikla hættu. Í öllum tilvikum skal farið eftir leiðbeiningum framleiðenda viðkomandi katla þegar þeir eru skoðaðir. Einnig skal farið eftir reglugerð um notkun tækja og reglugerð um þrýstibúnað (Reglur um þrýstibúnað (framleiddur fyrir 27. nóvember 2017, sbr. reglugerð nr. 1022/2017). Um katla gildir einnig reglugjörð um eftirlit með verksmiðjum og vélum.
Katlar skiptast í autoklava, gufupotta, gufukatla og hitunartæki sem skráðir eru í vinnuvélaskrá í skráningarflokka ZA og ZF sem skoðaðir eru á þriggja ára fresti og ZB, ZD og ZE sem skoðaðir eru árlega. Gefi skoðun til kynna að framkvæma þurfi þykktarmælingu eða sprunguleitun skal verkið framkvæmt af óháðum aðila sem skilar skýrslu um mælingar.
Þegar nýir katlar eru settir upp skulu þeir ávallt vera CE-merktir og framleiddir eftir samræmdum stöðlum. Tilkynning um uppsetningu ketils skal berast til Vinnueftirlitsins sem framkvæmir skoðun að lokinni uppsetningu, en áður en notkun hefst. Við meiriháttar viðgerð á kötlum skal fara fram stórskoðun.
Umsjónarmenn katla skulu hafa til að bera nægjanlega menntun og þekkingu til að annast rekstur þeirra, samanber 40. grein reglugjörðar um eftirlit með verksmiðjum og vélum og 6. og 8. grein reglugerðar um notkun tækja. Skulu þeir vera viðstaddir skoðun og ef um rafskautaketil er að ræða skal rafvirki ketils einnig vera viðstaddur skoðun.
Vinnueftirlitið býður reglulega upp á námskeið um umhirðu katla.
Þjónustuaðili
Vinnueftirlitið