Þjónusta og starfsemi
Þjóðskjalasafn Íslands er öflug menningar- og stjórnsýslustofnun sem varðveitir heimildir um sögu þjóðarinnar og leiðir skjalavörslu og skjalastjórn hins opinbera.
Þjóðskjalasafn varðveitir stærsta safn frumheimilda um sögu samfélagsins á Íslandi og þar eru jafnframt stundaðar rannsóknir á íslenskri sögu og skjalfræðum. Stofnunin safnar heimildum um sögu þjóðarinnar, hvort tveggja opinberum skjölum og einkaskjölum, sinnir miðlun á þeim heimildum sem það varðveitir og tryggir aðgengi almennings að þeim.
Sem stjórnsýslustofnun er safnið ríkisskjalasafn sem öllum stofnunum ríkisins, embættum, félögum og fyrirtækjum sem njóta opinberra styrkja er skylt að skila skjölum sínum til. Einnig er sveitarfélögum sem ekki reka eigið héraðsskjalasafn skylt að afhenda skjöl sín til Þjóðskjalasafns.
Þjóðskjalasafn annast eftirlit og ráðgjöf um alla opinbera skjalavörslu, gefur út reglur og leiðbeiningar og gengst fyrir námskeiðum um skjalavörslu og skjalastjórn. Enn fremur annast Þjóðskjalasafn kennslu í hagnýtri skjalfræði við Háskóla Íslands.