Fara beint í efnið
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða

Þjóðskjalasafn Íslands

Fræðsla

Þjóðskjalasafn annast eftirlit og ráðgjöf um alla opinbera skjalavörslu, gefur út reglur og leiðbeiningar og gengst fyrir námskeiðum um skjalavörslu og skjalastjórn. Enn fremur annast Þjóðskjalasafn kennslu í hagnýtri skjalfræði við Háskóla Íslands.

Námskeið

Þjóðskjalasafn veitir fræðslu til afhendingarskyldra aðila um skjalavörslu og skjalastjórn. Safnið gefur út leiðbeiningarit, fræðslu- og kennslumyndbönd og stendur fyrir reglulegum námskeiðum og ráðstefnum um skjalavörslu og skjalastjórn. Auk þess veita sérfræðingar safnsins ráðgjöf til afhendingarskyldra aðila um alla opinbera skjalavörslu og skjalastjórn sem lýtur að meðferð þeirra gagna sem ekki hefur enn verið skilað til varðveislu á safnið.

Hagnýt skjalfræði í Háskóla Íslands

Diplóma í hagnýtri skjalfræði er hagnýt 30 eininga námsleið fyrir þau sem lokið hafa bakkalárprófi í einhverri grein. Námið er ætlað þeim sem hafa hug á því að starfa með skjöl eða skjalasöfn, hvort heldur sem skjalavörður á skjalasafni, við stofnun eða fyrirtæki.

Í hagnýtri skjalfræði eru kenndar sígildar aðferðir við skjalavörslu. Skoðaður er ferill skjals frá tilurð þess á skrifstofu yfir í fræðilega heimild, fjallað um gamlar og nýjar skjalavörsluaðferðir, frágang skjala í geymslu og gerð skjalaskrár, auk skjalalesturs og stjórnsýslusögu. Einnig er fjallað um nýjar áherslur og viðhorf í skjalfræðum, meðal annars um notkun og varðveislu rafrænna skjala, og lögð áhersla á heimildargildi skjala og notkun þeirra.

Námsleiðin er kennd í samstarfi Þjóðskjalasafns og Háskóla Íslands en samstarfið nær allt aftur til ársins 1985. Í upphafi var eitt og eitt námskeið kennt við námsbraut í sagnfræði en árið 2011 varð til skjalfræði sem aukagrein á BA stigi. Frá 2020 hefur hagnýt skjalfræði verið kennd sem 30 eininga viðbótardiplóma á framhaldsstigi.