Fara beint í efnið
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða

Þjóðskjalasafn Íslands

Forvarsla

Forvarsla felur í sér rannsóknir á efni skjala/gripa og greiningu á umfangi eyðingar og þess sem horfið er. Þekking á hinum efnislega heimi, hvernig ólík efni hegða sér og bregðast við umhverfinu, er nauðsynleg undirstaða bæði fyrirbyggjandi og styrkjandi forvörslu.

Fyrirbyggjandi forvarsla felur í sér að tefja eða koma í veg fyrir skemmdir menningarminja með því að geyma þær við ákjósanleg skilyrði. Styrkjandi forvarsla eða viðgerðir fela í sér lágmarksmeðferð. Allar viðgerðir þurfa að vera afturkræfar og því eru aðeins notuð efni sem komin er vísindaleg þekking og reynsla á.

Viðgerðir á skjölum eru meðal annars þurrhreinsun og vothreinsun, þá eru límbönd, lím og mygla fjarlægð, rifur eru bættar og búnar eru til sérsmíðaðar öskjur eða möppur utan um mjög viðkvæm og/eða illa farin skjöl.

Á fyrri hluta síðustu aldar var lagður grunnurinn að ICOM, alþjóðaráði safna, og í framhaldi voru stofnuð sérstök fagfélög forvarða sem móta stefnur og strauma í forvörslu og gefa út fagleg viðmið og siðareglur, sem endurspegla þau grundvallaratriði sem forverðir um allan heim vinna eftir.

Til gamans má geta þess að íslenska orðið forvarsla er samsetning tveggja gamalla orða, útvörður sem þýðir verndari í hernaði og að forvara sem þýðir að geyma. Það var Kristján Eldjárn sem fyrstur notaði þetta orð sem heiti á því sérstaka starfi að verja hluti gegn eyðingu tímans.

Fræðsla um forvörslu