Almenn afgreiðsla og lestrarsalur Þjóðskjalasafns er á Laugavegi 162, fyrstu hæð. Gengið er inn frá Laugavegi. Á lestrarsal koma þeir sem vilja fá að skoða skjöl sem varðveitt eru á safninu.
Mánudagur kl. 9:30-16:00
Þriðjudagur kl. 9:30-16:00
Miðvikudagur kl. 9:30-16:00
Fimmtudagur kl. 9:30-16:00
Föstudagur Lokað
Afgreiðsla skjala á lestrarsal
Til þess að skoða skjöl á lestrarsal skal senda skriflega beiðni og tilgreina skjölin samkvæmt skrám safnsins eða leiðbeiningum skjalavarðar. Gögn eru aðgengileg næsta virka dag eða eftir nánara samkomulagi. Ef um er að ræða mikið af gögnum geta orðið tafir á afhendingu og pöntunin gæti jafnvel verið afgreidd í nokkrum skömmtum. Hentugast er að senda beiðni með tölvupósti á netfangið upplysingar@skjalasafn.is.
Til þess að hjálpa okkur að varðveita skjölin sem best biðjum við gesti á lestrarsal að virða eftirfarandi reglur í umgengni:
Þvoðu hendur fyrir og eftir meðhöndlun skjala.
Matur og drykkur eiga aldrei heima á lestrarsal.
Lestrarsalur er hljótt rými, vinsamlega taktu tillit til þess.
Hafðu aðeins eina öskju opna í einu og gakktu frá skjölum áður en næsta askja er opnuð.
Taktu myndir á síma eða myndavél án þess að nota leifturljós (flass).
Flettu blaðsíðum varlega og ekki bleyta fingurna til þess að skilja að síður.
Notaðu pappírsrenning til að fylgja eftir texta í skjölunum, ekki nota fingurinn eða skriffæri.
Notaðu aðeins blýanta við vinnu þína nálægt skjölum en ekki önnur skriffæri.
Skjöl skyldi aldrei beygla, brjóta upp á eða skrifa á.
Fáðu pappírsrenninga í afgreiðslu til merkingar, aldrei skyldi líma neitt á skjöl.
Nánari upplýsingar um meðhöndlun skjala má sjá hér.
Allir geta fengið aðgang að opinberum skjalasöfnum sem varðveitt eru í Þjóðskjalasafni á lestrarsal safnsins. Á þessari meginreglu eru nokkrar, en mikilvægar undantekningar, sem takmarka aðgang almennings að opinberum skjölum og á það sérstaklega við ef skjöl hafa að geyma upplýsingar um viðkvæm mál einstaklinga eða mál sem varða almannahagsmuni.
Um aðgang að skjölum sem varðveitt eru í Þjóðskjalasafni fer eftir ákvæðum laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn eða eftir atvikum ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012 ef skjölin eru yngri en 30 ára, en saman mynda lögin heildstæðan ramma um upplýsingarétt almennings.
Aðgangur að skjölum sem innihalda upplýsingar um fjárhags- og einkamál einstaklinga er takmarkaður í 80 ár frá tilurð skjalanna en aðgangur að aðalmanntölum, prestþjónustubókum og sóknarmannatölum er heimill þegar 50 ár eru liðin frá færslu upplýsinganna.
Þá er óheimilt að veita aðgang að sjúkraskrám og öðrum skrám um heilsufarsupplýsingar einstaklinga fyrr en liðin eru 100 ár frá síðustu færslu í skrárnar. Loks getur aðgangur verið takmarkaður í 40 ár ef um er að ræða virka, mikilvæga almannahagsmuni.
Mánudagur kl. 10:00-12:00
Miðvikudagur kl. 10:00-12:00
Fimmtudagur kl. 10:00-12:00
Kynningar
Nemendahópar og aðrir hópar geta bókað kynningar og heimsóknir í Þjóðskjalasafn Íslands. Boðið er upp á almenna kynningu á starfseminni þar sem sýnt er úrval skjala sem varðveitt er í safninu. Einnig er hægt að óska eftir nákvæmari kynningu fyrir starfshópa, starfsmannafélög eða nemendur.
Þeir sem óska eftir kynningu á starfsemi eða safnkosti Þjóðskjalasafns eða vilja fræðast nánar um heimsóknir er bent á að hafa samband í síma 590 3300 eða á netfangið upplysingar@skjalasafn.is.