Um Þjóðskjalasafn
Þjóðskjalasafn er skjalasafn þjóðarinnar og hefur almenningur aðgang að safninu, bæði á vef og lestrarsal. Þjóðskjalasafn varðveitir stærsta safn frumheimilda um sögu íslensku þjóðarinnar og þróun byggðar og mannlífs í landinu og er þess vegna sá grunnur sem rannsóknir, stjórnsýsla og mannréttindi byggja á.
Hlutverk og framtíðarsýn
Þjóðskjalasafn Íslands hefur það hlutverk að varðveita minni samfélagsins sem endurspeglast í safnkosti þess sem nær yfir margra alda sögu Íslands eða síðustu 850 ár. Lykilhlutverk safnsins fellst í tryggri varðveislu og söfnun skjala um sögu lands og þjóðar.
Markmið Þjóðskjalasafns miðast við lögbundið hlutverk þess og falla undir þrjú meginsvið:
Varðveisla og söfnun
Safnkostur endurspegli samfélag hvers tíma sem best, sé skráður samkvæmt viðurkenndum aðferðum og varðveittur við bestu mögulegu aðstæður.Skilvirkur aðgangur að safnkosti
Afgreiðsla fyrirspurna og aðgengi safnkosts sé skilvirk og afgreiðslutími í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.Rannsóknir og fræðsla
Rannsóknir og fræðsla styðji við stjórnsýslu- og menningarverkefni safnsins.
Hlutverk safnsins er annars vegar að vera framkvæmdaaðili opinberrar skjalavörslu og skjalastjórnar og hins vegar að vera opinbert skjalasafn. Þjóðskjalasafn starfar eftir lögum um opinber skjalasöfn.
Sem framkvæmdaaðili opinberrar skjalavörslu og skjalastjórnar er hlutverk safnsins að:
setja reglur um skjalahald afhendingarskyldra aðila
ákveða um eyðingu skjala
veita héraðsskjalasöfnum rekstrarleyfi og hafa eftirlit með þeim
Sem opinbert skjalasafn er hlutverk safnsins að:
taka við skjölum afhendingarskyldra aðila til varðveislu
hafa eftirlit með skjalahaldi afhendingarskyldra aðila
veita ráðgjöf og fræðslu
hafa safnkost aðgengilegan til notkunar
taka ákvarðanir um aðgang að honum á grundvelli laga
Stefna og starfsemi Þjóðskjalasafns fyrir árin 2022-2027 byggir á gildunum traust, fagmennska og framsýni.
Í stefnunni eru sett fram markmið og aðgerðir til að tryggja varðveislu og aðgengi að upplýsingum með aukinni áherslu á stafræna umbreytingu, hvort sem það snýr að eldri safnkosti eða rafrænum gögnum sem verða til í samtímanum. Sjálfbærni í allri starfsemi safnsins er lykilþáttur til framtíðar.
Í nýjum áherslum á stafræn verkefni hyggst safnið leggja sín lóð á vogarskálarnar í vegferð ríkisins í stafrænni umbreytingu sem þegar er hafin og tryggja varðveislu á mikilvægum upplýsingum samfélagsins.
Evrópsk stefna í skjalamálum fyrir 2025-2030 var samþykkt 30. maí 2024 á fundi European Archives Group (EAG) í Brussel. EAG er samráðshópur þjóðskjalasafna í Evrópu sem starfar sem ráðgefandi sérfræðihópur fyrir Evrópuráðið í málefnum skjalasafna.
Í stefnunni birtist ný nálgun á málefni skjalasafna með tveimur aðaláherslum:
Skjalasöfn styðji við lýðræði
Traust almennings á skjalasöfn í stafrænum heimi sé tryggt
Euroupean Archives Group (EAG) hefur unnið 10 liða aðgerðaáætlun til næstu fimm ára fyrir evrópsku stefnuna í skjalamálum.