Fara beint í efnið
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða

Þjóðskjalasafn Íslands

Vinnustaðurinn

Þjóðskjalasafn leggur sig fram við að vera eftirsóknarverður vinnustaður sem byggir á öflugu og fjölhæfu starfsfólki. Hjá safninu starfa tæplega 50 manns.  

Þjóðskjalasafn leggur áherslu á að starfsfólk auki þekkingu sína og menntun með ýmsum hætti og fái tækifæri til að vaxa og dafna í starfi. Hjá safninu starfar breiður hópur í sameiningu að því að vera leiðandi í skjalavörslu og skjalastjórn og vinna stöðugt að framförum með markvissum breytingum og framsýni að leiðarljósi. Nú standa yfir mestu breytingar í starfsemi Þjóðskjalasafns um langt skeið, þar sem áhersla er lögð á stafræna umbreytingu, örugga varðveislu, gott aðgengi og sjálfbærni.

Þjóðskjalasafn hefur markað sér stefnu í jafnréttismálum sem byggir á jöfnum tækifærum, umburðarlyndi, sveigjanleika og samhæfingu starfs- og einkalífs. Jafnlaunakerfi Þjóðskjalasafns er reglulega tekið út af vottunaraðila en safnið fékk fyrst jafnlaunavottun árið 2019.   

Á Þjóðskjalasafni er heilsa og velferð starfsfólks í fyrirrúmi og stuðlað er að heilbrigðu og jákvæðu starfsumhverfi. Starfsfólki er boðið upp á góðan aðbúnað og fjölskylduvænt starfsumhverfi og í gildi er samkomulag um 36 klukkustunda vinnuviku. Starfsfólki stendur til boða reglulegar heilsufarsmælingar og heilsuræktarstyrkur og tekur vinnustaðurinn virkan þátt í lýðheilsuverkefnum á borð við Lífshlaupið og Hjólað í vinnuna. Þjóðskjalasafn starfar samkvæmt grænum skrefum í ríkisrekstri og í þeim anda býður safnið starfsfólki sínu upp á samgöngustyrk og hvetur til notkunar umhverfisvænna samgöngumáta.

Starfsmannafélag Þjóðskjalasafns, STAÞÍ stendur fyrir reglulegum viðburðum af ýmsu tagi. 

Laus störf

Starfsauglýsingar eru birtar á starfatorg.is. Í anda jafnréttisstefnu Þjóðskjalasafns eru öll þau sem uppfylla hæfniskröfur hvött til að sækja um störf hjá safninu, óháð kyni.

Stefnur og áætlanir