Stefnur og starfsáætlun
Persónuverndarstefna
Starfsmenn Landspítala skrá og vinna með persónu- og heilsufarsupplýsingar til að veita sem besta þjónustu. Lögð er áherslu á þagnarskyldu, friðhelgi einkalífsins og örugga varðveislu gagna (pdf) þegar unnið er með persónu- og heilsufarsupplýsinga.
Persónuverndarstefna Landspítala
Í persónuverndarstefnu Landspítala er útskýrt hvaða upplýsingum er safnað og í hvaða tilgangi. Hvernig upplýsingarnar eru notaðar, miðlað, varðveittar og öryggi þeirra er tryggt, ásamt rétti einstaklinga til sinna eigin upplýsinga.
Persónuupplýsingar
Með persónuupplýsingum er átt við allar upplýsingar sem hægt er að tengja eða rekja til tiltekinna einstaklinga á beinan jafnt sem óbeinan hátt. Það gæti verið í rituðum texta, rafrænu upplýsingakerfi eða á mynd. Dæmi um þetta er nafn, kennitala, heimilisfang, netfang, innlagnardeild og heilbrigðisgögn af ýmsu tagi. Fyrir starfsmenn næði þetta m.a. til starfsaldurs, launaupplýsinga, viðveru- og fjarvistaupplýsinga, veikinda, orlofs og vinnutíma. Upplýsingar sem eru ópersónugreinanlegar teljast ekki persónuupplýsingar. Margvísleg skráning upplýsinga er nauðsynleg, bæði vegna þeirrar heilbrigðisþjónustu sem spítalinn veitir og vegna reksturs hans. Án þessarar skráningar væri ekki unnt að veita þá gæðaþjónustu sem skjólstæðingar spítalans búast við að fá eða að stjórna starfseminni á skilvirkan hátt. Undir hugtakið vinnsla fellur öll notkun persónuupplýsinga, eins og söfnun, skráning, varðveisla, miðlun og eyðing.
Um hverja vinnur Landspítali persónuupplýsingar
Landspítali vinnur persónuupplýsingar um sjúklinga, starfsfólk, nema og viðskiptavini. Þá eru vistaðar upplýsingar varðandi einstaklinga sem eiga í samskiptum við spítalann og ýmsa tengiliði lögaðila.
Öll vinnsla persónuupplýsinga er í samræmi við þá persónuverndarlöggjöf sem gildandi er hverju sinni. Vinnslan fer ávallt fram í skýrum, lögmætum og málefnalegum tilgangi og þá skal þess gætt að upplýsingarnar séu viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er.
Hvaða persónuupplýsingar vinnur Landspítali og af hverju
Landspítali vinnur upplýsingar um ofangreinda flokka einstaklinga, bæði almennar og viðkvæmar. Aðeins er safnað upplýsingum sem eru nauðsynlegar og viðeigandi hverju sinni og ræðst það af eðli sambandsins sem er á milli Landspítala og einstaklingsins sem um ræðir hvaða upplýsingar það eru.
Spítalinn vinnur persónuupplýsingar til þess að geta sinnt þeirri lögbundnu þjónustu sem honum ber að veita og til að uppfylla þær skyldur sem á honum hvíla lögum samkvæmt. Veiting heilbrigðisþjónustu ber þar hæst og er vinnsla heilbrigðisupplýsinga um sjúklinga því afar umfangsmikil. Persónuupplýsingum er einnig safnað á grundvelli samningssambanda, meðal annars við starfsfólk eða verktaka, sem og í öryggis- og eignavörsluskyni. Þá kann spítalinn að þurfa að vinna persónuupplýsingar vegna ákvarðanatöku sem fellur undir stjórnsýslu hans, verka sem unnin eru í almannaþágu og til að gæta lögmætra hagsmuna.
Réttur hins skráða
Skráðir einstaklingar eiga rétt á að vita hvaða upplýsingar eru skráðar um þá hjá Landspítala og á grundvelli sérstakrar beiðni að fá aðgang að þeim. Þeir eiga einnig rétt á að láta leiðrétta rangar upplýsingar og takmarka vinnslu þeirra. Í einstaka tilvikum er heimilt að eyða persónuupplýsingum.
Byggist vinnsla persónuupplýsinga á samþykki hins skráða er ávallt hægt að afturkalla það.
Trúnaður
Á Landspítala er lögð rík áhersla á að trúnaðar gagnavart persónu- og heilbrigðisupplýsingum sé gætt á öllum tímum. Allt starfsfólk Landspítala er bundið þagnareið og hefur þannig skuldbundið sig til þess að gæta fyllsta trúnaðar. Brot á slíku er tekið mjög alvarlega. Réttur allra skjólstæðinga Landspítala sem og starfsmanna hans til trúnaðar er bundinn lögum um persónuvernd.
Varðveislutími
Landspítali er afhendingarskyldur aðili á grundvelli laga um opinber skjalasöfn og er honum því óheimilt að ónýta eða farga skjölum sem falla undir gildissvið laganna nema að fengnu leyfi. Öðrum persónuupplýsingum er eytt eða þær gerðar ópersónugreinanlegar um leið og ekki er lengur þörf á persónuupplýsingum vegna tilgangs vinnslunnar. Um varðveislu sjúkraskrárgagna fer samkvæmt lögum um sjúkraskrár og um bókhaldsgögn í samræmi við lög og reglur um færslu bókhalds og varðveislu þess.
Miðlun
Landspítali miðlar persónuupplýsingum til ýmissa aðila í samræmi við þær lagaskyldur sem á honum hvíla. Má þar nefna Sjúkratryggingar Íslands, landlæknisembættið og Fjársýslu ríksins. Þá kann miðlun persónuupplýsinga að fara fram á grundvelli samnings við Landspítala, þar á meðal eru þjónustusamningar við aðila sem sinna þjónustu við tölvu- og upplýsingakerfi og lækningatæki. Loks getur miðlun farið fram á grundvelli upplýsts samþykkis þess einstaklings sem á í hlut.
Þegar Landspítali gerir samninga við utanaðkomandi aðila sem fela í sér miðlun persónuupplýsinga er ávallt að því gætt að þeir geti tryggt öryggi upplýsinganna.
Öryggi
Landspítali stuðlar að virkri öryggisvitund starfsmanna með viðeigandi fræðslu og þjálfun varðandi öryggi við vinnslu persónuupplýsinga og þagnarskyldu. Vinnsla upplýsinga og tæknilegar og skipulagslegar öryggisráðstafanir eru í samræmi við upplýsingaöryggisstefnu Landspítala.
Ábyrgð og eftirlit
Landspítali, Eiríksgötu 5, 101 Reykjavík, kt. 500300-2130 er skilgreindur ábyrgðaraðili upplýsinga sem varðveittar eru á spítalanum og ber forstjóri ábyrgð á allri meðferð og vinnslu upplýsinganna.
Fyrirspurnum, beiðnum og kvörtunum tengdum persónuverndarstefnu þessari skal beint til persónuverndarfulltrúa Landspítala á netfangið personuvernd@landspitali.is
Endurskoðun
Landspítali getur frá einum tíma til annars breytt persónuverndarstefnu þessari í samræmi við breytingar á viðeigandi lögum og reglugerðum eða vegna breytinga á því hvernig spítalinn vinnur með persónuupplýsingar. Verði gerðar breytingar á stefnu þessari verður slíkt kynnt á heimasíðu spítalans. Þessi persónuverndarstefna var samþykkt af framkvæmdastjórn Landspítala þann 16.07.2018. Hún er í samræmi við ný persónuverndarlög, sem lögfesta ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 frá 27. apríl 2016 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og frjálsa miðlun þeirra.
Hægt er að fræðast nánar um persónuverndarlögin á vef Persónuverndar.
Sjúklingar
Á Landspítala höfum við að markmiði að veita bestu fáanlegu heilbrigðisþjónustu. Ef þú ert sjúklingur hjá okkur þá er nauðsynlegt að halda sjúkraskrá um þig, þína heilsu og þá meðferð sem við höfum veitt þér eða ætlum að veita þér. Læknarnir okkar, hjúkrunarfræðingar og annað heilbrigðisstarfsfólk sem mun annast þig, sem og aðrir starfsmenn okkar, munu þurfa vissar upplýsingar um þig. Þessar upplýsingar eru liður í því að þú fáir þá allra bestu þjónustu sem hægt er að veita. Mismunandi heilbrigðisstarfsmenn munu hugsanlega skrá upplýsingar um þig eftir að þeir hafa veitt þér meðferð og þar með geta þínar skrár verið tímabundið geymdar á mismunandi stöðum, þótt þær séu allar hluti af þinni sjúkraskrá.
Upplýsingar um þig eru fyrst og fremst notaðar til þess að skipuleggja, stjórna og veita þér heilbrigðisþjónustu þannig að:
Þeir heilbrigðisstarfsmenn sem koma að þinni meðferð hafi nákvæmar og uppfærðar upplýsingar til að geta metið heilbrigðisástand þitt rétt og veitt þér þá meðferð sem þú þarfnast.
Viðeigandi upplýsingar séu til reiðu ef þú kynnir að þurfa að leita til annarra lækna eftir útskrift eða þú hafir fengið tilvísun til sérfræðilæknis eða þurfir á einhverri heilbrigðisþjónustu að halda utan Landspítala.
Hægt sé að fylgjast með gæðum þeirrar þjónustu sem þú hefur fengið og bera þau saman við gæðamælikvarða innanlands sem og utan.
Unnt sé að rannsaka á skilvirkan hátt hugsanlegar spurningar eða áhyggjur sem kunna að koma fram hjá þér eftir meðferð á spítalanum.
Önnur not á upplýsingum um þig geta verið:
Eftirlit með heilsufari almennings
Að tryggja að heilbrigðisþjónustan sem við veitum uppfylli þarfir sjúklinganna okkar í dag sem til framtíðar
Tölfræðivinnsla yfir starfsemi og rekstur Landspítala
Menntun og þjálfun nemenda á heilbrigðissviði
Vísindarannsóknir, þróun og nýsköpun
Útreikningur/mat á fjármögnunarþörf Landspítala
Endurskoðun á rekstri og þjónustu spítalans
Greining á kvörtunum, lagalegum kröfum og atvikum.
Ef upplýsingar um þig eru notaðar í ofangreindum tilgangi er nafn þitt og kennitala í nær flestum tilvikum fjarlægt og þær því orðnar ópersónugreinanlegar. Þetta er gert til að viðhalda friðhelgi þinni og virða trúnað.
Starfsmenn
Við söfnum starfsmannaupplýsingum til að hafa yfirsýn yfir allt okkar starfsfólk á hverjum tíma. Starfsmannaupplýsingar eru skráðar í Orra, starfsmanna- og launakerfi ríkisins og sér Fjársýsla ríkisins um alla launaafgreiðslu. Upplýsingar um vinnuskil, viðveru og fjarvistir eru skráðar í Vinnustund.
Upplýsingar um þig eru fyrst og fremst notaðar til þess að skipuleggja og stjórna starfsemi og rekstri spítalans:
Að tryggja að heilbrigðisþjónustan sem við veitum uppfylli þarfir og öryggi sjúklinganna okkar í dag sem til framtíðar
Við launaafgreiðslu
Tölfræðivinnslu yfir starfsemi og rekstur Landspítala
Eftirlit með heilsu, öryggi og vinnuumhverfi starfsmanns
Starfsþróun starfsmanna
Vísindarannsóknir, þróun og nýsköpun
Útreikning/mat á fjármögnunarþörf Landspítala
Endurskoðun á rekstri og þjónustu spítalans
Greiningu á atvikum starfsmanna.
Ef upplýsingar um þig eru notaðar í ofangreindum tilgangi er nafn þitt og kennitala í nær flestum tilvikum fjarlægt og þær því orðnar ópersónugreinanlegar. Þetta er gert til að viðhalda friðhelgi þinni og virða trúnað.
Umsækjendur
Ef þú ert að sækja um starf á Landspítala munu öll innsend gögn frá þér einungis verða notuð við vinnslu starfsumsóknar þinnar eða til að uppfylla lagalega skyldu ef þörf krefur. Landspítalinn er ábyrgðaraðili allra gagna sem þú kannt að láta af hendi í tengslum við ráðningarferlið nema annað sé tekið fram. Allar upplýsingar um umsækjendur eru varðveittar í ráðningarkerfi sem er hluti af Orra, fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins.
Upplýsingar um þig eru notaðar til þess að:
Geta haft samband við þig og unnið frekar með þína umsókn.
Meta hæfi þitt í auglýst starf.
Við söfnum ekki meiri upplýsingum en þörf er á til þess að uppfylla fram kominn tilgang okkar með auglýstu starfi.
Nemar
Við söfnum einnig upplýsingum um alla nema í starfsnámi og/eða þjálfun til þess að halda utan um og skipuleggja allt nám á spítalanum.
Aðstandendur
Ef sjúklingur tilgreinir þig sem hans nánasta aðstanda eru skráðar upplýsingar um hvernig hægt er að hafa samband við þig í sjúkraskrá sjúklings.
Viðskiptavinir
Við skráum upplýsingar um okkar viðskiptavini í rekstrar- og bókhaldslegum tilgangi.
Sjúklingar
Upplýsingar um þig geta verið á pappírsformi eða á rafrænu formi sem er algengara.
Upplýsingar sem við söfnum um sjúklinga okkar eru:
Lýðfræðilegar og persónuupplýsingar um þig (svo sem nafn, kennitala, heimilsfang, heilsugæslulæknir og svo framvegis)
Nákvæma sögu um fyrri samskipti þín við Landspítala (s.s. síðustu komur á göngudeild/bráðadeild, síðustu innlögn)
Skrár og athugasemdir um heilsufar þitt, þínar meðferðir og þá hjúkrun sem þú hefur fengið
Niðurstöður rannsókna (eins og myndgreiningarrannsókna, sneiðmynda og blóðrannsókna)
Viðeigandi upplýsingar frá umönnunaraðilum þínum eða þeim sem þekkja þig vel (eins og heimahjúkrun, félagsþjónusta og aðstandendur).
Sjúkraskrá Landspítala er safn upplýsinga um sjúkling sem unnar eru í tengslum við greiningu, meðferð og eftirlit á spítalanum eða fengnar eru annars staðar frá, vegna meðferðar hans á spítalanum. Allar upplýsingar um sjúkling eru skráðar þar.
Sjúkraskrárupplýsingar eru skilgreindar sem viðkvæmar persónuupplýsingar. Heilbrigðisstarfsmenn sem starfa á Landspítala skrá í sjúkraskrá í samræmi við lög um sjúkraskrár (nr. 55/2009) og hafa aðgang að upplýsingum þar samkvæmt reglum Landspítala um aðgangsheimildir starfsmanna.
Starfsmenn
Upplýsingar um þig geta verið á pappírsformi eða á rafrænu formi sem er algengara.
Upplýsingar sem við söfnum um starfsmenn okkar eru:
Lýðfræðilegar og persónuupplýsingar um þig (svo sem nafn, kennitala, heimilsfang, og svo framvegis)
Starfssögu á Landspítala
Launakjör
Bankaupplýsingar
Stéttarfélagsaðild
Vinnuskil, viðveru og fjarvistir
Menntun og starfsþróun
Rafræna vöktun
Umsækjendur
Upplýsingar um þig geta verið á pappírsformi eða á rafrænu formi sem er algengara.
Upplýsingar sem við söfnum um umsækjendur um störf eru:
Lýðfræðilegar og persónuupplýsingar um þig (svo sem nafn, kennitala, heimilsfang, og svo framvegis)
Ferilskrá og kynningarbréf
Prófskírteini
Meðmæli
Niðurstöður úr atvinnuviðtali, stigagjöf
Hæfnismat
Viðbótarupplýsingar sem þeir sem fá störf hjá Landspítala þurfa að afhenda eru:
Bankaupplýsingar
Stéttarfélagsaðild.
Nemar
Upplýsingar um þig geta verið á pappírsformi eða á rafrænu formi sem er algengara.
Upplýsingar sem við söfnum um starfsmenn okkar eru:
Lýðfræðilegar og persónuupplýsingar um þig (svo sem nafn, kennitala, heimilsfang, og svo framvegis)
Menntunarstig
Frammistöðumat
Staðsetningu nema á deildum og viðveru
Aðstandendur, viðskiptavinir og aðrir
Við skráum tengiliðaupplýsingar eins og nafn, heimilisfang og símanúmer og í ákveðnum tilvikum kennitölu um aðstandendur og enn fremur bankaupplýsingar um viðskiptavini spítalans.
Gestanet spítalans (WIFI)
Heilbrigðisupplýsingatæknideild Landspítala skráir netnotkun þeirra sem tengjast þráðlausu gestaneti spítalans samkvæmt þeim skilmálum sem notandi undirgengst við innskráningu. Þegar aðilar nýta sér gestanet Landspítalans getur verið að Landspítalinn safni persónulegum upplýsingum um notendur sem dæmi: nafni, símanúmeri og kennitölu ásamt upplýsingum um tækið eins og. IP-tölu.
Landspítali miðlar ekki persónuupplýsingum til þriðja aðila nema á grundvelli lagaskyldu, samningsákvæða eða með samþykki hins skráða.
Sjúklingar
Miðlun upplýsinga út fyrir spítalann á sér eingöngu stað í samræmi við lög, meðal annars geta heilbrigðisstarfsmenn sem starfa utan Landspítala fengið upplýsingar sem eru varðveittar á spítalanum þegar sjúklingar leita til þeirra vegna sinna veikinda og einnig hafa landlæknir og Sjúkratryggingar Íslands aðgang að upplýsingum í vissum tilvikum. Þá er spítalinn í ákveðnum tilvikum skuldbundinn til að miðla upplýsingum til annarra aðila, svo sem barnaverndaryfirvalda, sóttvarnarlæknis og landlæknis og byggist það einnig á lagasetningu. Með samþykki viðkomandi sjúklinga er upplýsingum í fáum tilvikum miðlað til annarra. Þá geta íslenskir vísindamenn sem stunda rannsóknir í heilbrigðisfræðum fengið aðgang að upplýsingum á spítalanum eftir að þeir hafa aflað leyfis vísindasiðanefnda í samræmi við lög. Ritstjórn sjúkraskrár á Landspítala er stefnumótunar- og eftirlitsnefnd sem stuðla skal að bættri og skilvirkri skráningu sjúkraskrár í þágu sjúklinga og vinnur samkvæmt stefnu Landspítala um sjúkraskrá.
Starfsmenn
Allar launa- og starfsmannaupplýsingar ásamt upplýsingum um umsækjendur eru varðveittar í Orra, fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins og Vinnustund eins og fyrr segir. Fjársýsla ríkisins hefur aðgang að nauðsynlegum upplýsingum en upplýsingafyrirtækið Advania sér um hýsingu allra gagna fyrir hönd ríkisins.
Í vissum tilvikum er nauðsynlegt að miðla upplýsingum um laun til Vinnumálastofnunar til dæmis í þeim tilvikum sem um tímabundið atvinnu/dvalarleyfi er að ræða, eða þegar um er að ræða svokallaða vinnusamninga.
Aðrir (nemar, umsækjendur, fleiri)
Almennt er upplýsingum um umsækjendur, nemendur og viðskiptavini spítalans ekki miðlað út fyrir spítalann. Gögn um alla umsækjendur eru geymd í mannauðskerfi ríkisins sem er í umsjón Fjársýslu ríkisins.
Sérhver starfsmaður Landspítala ber lagalega skyldu til þess að þínar upplýsingar, hvort heldur þú ert sjúklingur eða starfsmaður, séu geymdar á öruggan hátt og að trúnaðar sé gætt og er það staðfest í ráðningarsamningi hvers og eins.
Þær upplýsingar um þig sem Landspítalinn geymir eru varðar með ströngum reglum og ferlum bæði þegar kemur að manns höndinni og rafrænu umhverfi. Á þetta einnig við um utanaðkomandi vinnsluaðila spítalans sem koma að afmörkuðum verkefnum fyrir spítalann. Hér gæti verið um að ræða tæknivinnu vegna rafrænna upplýsingakerfa eða tímabundin úrvinnsluverkefni. Hvort heldur er ber Landspítali ábyrgð á því að fyllsta öryggis sé gætt hjá vinnsluaðila við meðhöndlun upplýsinga. Þetta varðar öryggi, lögmæti og trúnað. Þriðji aðili getur einungis unnið með gögn eins og Landspítali fer fram á - ekki er hægt að nota þau á neinn annan hátt. Fjársýslan er með samning við upplýsingatæknifyrirtækið Advania um hýsingu gagna úr Orra kerfinu og Vinnustund fyrir allar ríkistofnanir.
Oft er þörf á því að deila þínum sjúkraskrárupplýsingum með öðrum heilbrigðisstarfsmönnum bæði innan og utan Landspítala til þess að við getum unnið saman í þína þágu. En við munum eingöngu deila þínum upplýsingum þegar lögmæt nauðsyn er fyrir hendi og þá eru einungis notaðar traustar aðferðir við miðlun upplýsinga.
Í undantekningartilvikum kann þínum upplýsingum að vera deilt til þriðja aðila án þíns samþykkis. Til dæmis gæti slíkt komið upp í tengslum við dómsúrskurð eða vegna rannsóknar á alvarlegum glæp.
Þú hefur rétt á því að vera upplýst(ur) um það hvernig unnið er með upplýsingar um þig. Tilgangur persónuverndarstefnunnar er einmitt að upplýsa þig um það hvernig við notum upplýsingar um þig. En ef þú ert óviss, eða hefur þörf fyrir ítarlegri útskýringar á meðferðaraðili þinn, eða sá starfsmaður sem þú ert í sambandi við, að geta aðstoðað þig frekar, eða vísað þér á aðila sem býr yfir þeim upplýsingum. Einnig má benda á lista aftast í þessum texta yfir aðila sem hægt að fá frekari upplýsingar frá.
Þú hefur rétt á friðhelgi og trúnaði og vissu um að Landspítalinn tryggi öryggi þinna trúnaðarupplýsinga.
Þú hefur rétt á því að mótmæla notkun eða deilingu þinna trúnaðargagna umfram það sem snýr að þinni meðferð og umönnun; að mótmæli þín séu tekið til greina; og ef ekki er hægt að verða við þínum óskum, að gefa þér gild svör, þar með talið lagalegan rökstuðning fyrir því.
Þú hefur rétt til að leiðréttingar séu gerðar á þeim gögnum sem við geymum um þig ef einhverjar staðreyndarvillur fyrirfinnast. Það er skylda okkar að tryggja að þær upplýsingar sem við geymum um þig séu ætíð réttar og uppfærðar. Við göngum úr skugga um það við hver ný samskipti sem þú átt við okkur. Við biðjum þig vinsamlegast um að hjálpa okkur að viðhalda þeim réttum, til dæmis með því að láta okkur vita ef eitthvað hefur breyst eins og ef þú hefur skipt um heimilislækni eða ef heimilisfang þitt er annað en gefið er upp í þjóðskrá. Það skiptir máli að þínar upplýsingar séu réttar. Vinsamlegast snúðu þér til starfsmanna á þinni meðferðardeild eða til þíns yfirmanns ef þú ert starfsmaður.
Hvort sem þú ert sjúklingur eða starfsmaður á Landspítala hefur þú rétt á aðgangi að þínum persónuupplýsingum. Ef þú ert sjúklingur gætir þú viljað fá afrit úr þinni sjúkraskrá. Ef þú ert umsækjandi um starf eða starfsmaður gætir þú viljað fá afrit af þínum skrám. Í slíkum tilvikum fyllir þú út þar til gert eyðublað um gagnaafhendingu.
Hvernig þú getur nálgast sjúkraskrána þína
Þú eða umboðsmaður þinn eigið rétt samkvæmt lögum á aðgangi að þinni sjúkraskrá eða að fá afhent afrit af henni óskir þú þess, í heild eða að hluta og til að fá útskýringar á hverju því sem þú hugsanlega skilur ekki. Undir vissum kringumstæðum, gæti þér verið meinaður aðgangur að hluta upplýsinga, til dæmis ef talið er að slíkt gæti á einhvern hátt leitt til heilsufarsskaða fyrir þig eða ef það brýtur trúnað við þriðja aðila. Ef óskað er upplýsinga úr sjúkraskrá skal fylla út þar til gerða beiðni um upplýsingar úr sjúkraskrá.
Hvernig þú getur nálgast ráðningar- og starfsambandsupplýsingar um þig
Þú hefur rétt á því að fá afhent afrit af þeim skrám sem spítalinn heldur um þitt starfssamband. Ef óskað er upplýsinga um ráðningarferli eða starfssamband skaltu hafa samband við persónuverndarfulltrúa Landspítala
Persónuverndarfulltrúi Landspítala er Aðalbjörg Guðmundsdóttir.
Persónuverndarfulltrúi er óháður og sjálfstæður í störfum sínum og hefur eftirlit með því að öll meðferð persónuupplýsinga í tengslum við starfsemi og rekstur spítalans sé í samræmi við lög um persónuvernd.
Fyrirspurnir eða athugasemdir um persónuvernd skal beint til persónuverndarfulltrúans með því að:
senda tölvupóst á personuvernd@landspitali.is
fylla út fyrirspurnarform
hringja í síma 543 1000
senda bréf í pósti merktan: Persónuverndarfulltrúi Landspítala, Skaftahlíð 24, 105 Reykjavík.
Nánari upplýsingar um hvernig er unnið með .
