Stefnur og starfsáætlun
Aðrar stefnur
Jafnréttisstefna Landspítala
Framtíðarsýn Landspítala er að fullt jafnrétti ríki á vinnustaðnum. Horft er til ákvæða laga nr. 150/2020 um jafnan rétt og jafna stöðu kynjanna en stefnt að því að horfa einnig til fleiri bakgrunnsþátta svo sem uppruna, aldurs og trúarbragða.
Við Landspítala starfar fimm manna jafnréttisnefnd skipuð af forstjóra, samkvæmt tilnefningum starfsmanna. Nefndin er skipuð til tveggja ára í senn. Formaður nefndarinnar er valinn úr hópi nefndarmanna, samkvæmt tillögu framkvæmdastjóra mannauðsmála.
Starfssvið
Starfssvið jafnréttisnefndar Landspítala nær til verkefna sem atvinnurekendum er gert að sinna samkvæmt lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (jafnréttislög).
Verkefni jafnréttisnefndar snúa einkum að III. kafla jafnréttislaga þar sem fjallað er um markvisst jafnréttisstarf á vinnumarkaði, skylduna til að vinna gegn kynjaskiptingu starfa, launajafnrétti, jafnrétti við ráðningar, starfsþjálfun, endur- og símenntun, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og fyrirbyggjandi starf gegn kynbundnu ofbeldi, kynbundinni og kynferðislegri áreitni.
Jafnréttisnefnd er þó einnig heimilt að taka til umræðu mál sem snúa að fjölbreytileika og jafnræði starfsmanna Landspítala út frá öðrum bakgrunnsþáttum svo sem aldri, þjóðernisuppruna, kynhneigð eða trúarbrögðum.
Hlutverk jafnréttisnefndar Landspítala
Að gera árlega tillögu um endurskoðun á jafnréttisáætlun Landspítala og um uppfærslu á framkvæmdaáætlun, sbr. 2.-5. mgr. 18. gr. jafnréttislaga.
Að skoða einu sinni á ári tölulegar upplýsingar tengdar jafnréttismálum og fjölbreytileika innan spítalans og koma með tillögur um aðgerðir til úrbóta.
Að veita framkvæmdastjórn ráðgjöf um jafnréttismál og fjölbreytileika og vera til samráðs fyrir framkvæmdaaðila við úrbætur á því sviði.
Starfshættir jafnréttisnefndar
Jafnréttisnefnd skal skilgreina farveg fyrir ábendingar starfsmanna um málefni sem heyra undir nefndina en hún tekur þó ekki einstaklingsmál til úrlausnar.
Jafnréttisnefnd skal að jafnaði funda mánaðarlega.
Jafnréttisnefnd skal halda fundargerðir og birta upplýsingar um starf sitt á innri vef spítalans ásamt gögnum um jafnréttismál sem nefndin telur ástæðu til að hafa aðgengileg fyrir starfsmenn.
Stuðningur við jafnréttisnefnd
Það er hlutverk allra stjórnenda á Landspítala að svara erindum jafnréttisnefndar og styðja við nefndina, svo hún geti uppfyllt hlutverk sitt.
Jafnréttisnefnd hefur aðgang að starfsmanni á mannauðssviði sem annast fundargerðir og aðra aðstoð við nefndina.
Enn fremur hefur jafnréttisnefnd aðgang að þjónustu hagdeildar Landspítala vegna gagnaöflunar.
Jafnlaunastefna Landspítala
6. útgáfa Jafnlaunastefnu Landspítala samþykkt 10. júní 2025
Jafnlaunastefna er hluti af jafnlaunastjórnunarkerfi Landspítala og nær til alls starfsfólks. Starfsmaður er sá sem hefur gildandi ráðningarsamband við Landspítala. Kerfið nær ekki til verktaka.
Landspítali greiðir laun í samræmi við gildandi kjara- og stofnanasamninga. Framkvæmdastjórar, eftir formlegu framsali valds frá forstjóra, fara með ráðningarvald og bera ábyrgð á öllum ráðningum sbr. yfirlýsingu forstjóra. (Yfirlýsing forstjóra).
Markmið Landspítala er að hæft og metnaðarfullt starfsfólk veljist til starfa. Launaákvarðanir skulu vera gagnsæjar og málefnalegar og byggja á kjara- og stofnanasamningum.
Mikilvægt er að laun taki mið af þeim kröfum sem starf gerir með tilliti til ábyrgðar, verkefna, álags og sérhæfni. Jafnframt þarf launasetning og stofnanasamningar að hafa að markmiði að starfsfólk Landspítala fái greidd jöfn laun og njóti sömu starfskjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf í samræmi við lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
Laun skulu ákvörðuð í samræmi við kröfur sem störf gera óháð kyni. Landspítali leggur áherslu á að vera eftirsóttur vinnustaður, þekktur fyrir gott starfsumhverfi, samkeppnishæf kjör og góð samskipti. Jafnlaunastefnu Landspítala er ætlað að styðja við framtíðarsýn, heildarmarkmið og starfsáætlanir hverju sinni.
Jafnlaunastefna Landspítala felur í sér eftirfarandi skuldbindingar:
Starfandi er jafnlaunahópur sem skjalfestir og viðheldur með stöðugum umbótum vottað jafnlaunastjórnunarkerfi sem byggir á staðlinum ÍST-85.
Stuðla skal að stöðugum umbótum og forvörnum, með eftirliti og viðbrögðum við frávikum.
Flokka skal störf út frá þeim kröfum sem þau gera og framkvæma hið minnsta árlega launagreiningu þar sem borin eru saman sömu eða jafnverðmæt störf til að athuga hvort óútskýrður kynbundinn launamunur sé til staðar.
Kynna skal starfsfólki niðurstöður launagreiningar sem er til úttektar nema persónuverndarhagsmunir mæli gegn því.
Fylgja skal lagalegum kröfum og öðrum kröfum sem eiga við um jafnlaunastjórnunarkerfi. Lögfræðileg ráðgjöf skal vera aðgengileg stjórnendum Landspítala til að tryggja að þessum kröfum sé mætt. Staðfesta skal árlega hlítni við þær lagalegu kröfur og aðrar kröfur sem eiga við um kerfið.
Framkvæma skal innri úttekt á öllum útgefnum skjölum sem tilheyra jafnlaunastjórnunarkerfi eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.
Framkvæma skal rýni stjórnenda árlega þar sem jafnlaunamarkmið eru sett fram og rýnd.
Jafnlaunamál eru hluti af heildarstefnu
Jafnlaunastefna skal kynnt fyrir starfsfólki og gerð aðgengileg almenningi á vefsíðu Landspítala.
Jafnlaunastefna er jafnframt launastefna Landspítala. Framkvæmdastjóri rekstrar- og mannauðssviðs ber ábyrgð á að stefnunni sé fylgt eftir og getur starfsfólk leitað til hans með athugasemdir eða sent fyrirspurnir á jafnlaun@landspitali.is
Staðfesting á vottun á að Landspítali starfræki ÍST 85:2012 jafnlaunakerfi.
Upplýsingaöryggisstefna Landspítala
Samþykkt af forstjóra Landspítala 23.janúar 2025
Stefna Landspítala í öryggi upplýsinga lýsir áherslum spítalans á verndun og meðferð gagna/upplýsinga í vörslu og eigu Landspítala.
Verja þarf þær upplýsingar sem Landspítali varðveitir fyrir öllum ógnum, innri og ytri, sem stafa af ásetningi, gáleysi eða slysni. Innleiðing og framkvæmd stefnunnar er grundvöllur að faglegum vinnubrögðum og er mikilvæg til að fullvissa starfsmenn Landspítala og notendur þjónustu spítalans, um heilindi og rétt vinnubrögð.
1. Umfang
Stefna um öryggi upplýsinga tekur til allra gagna/upplýsinga, í hvaða formi sem þau/þær eru og hvar sem þau/þær eru vistuð. Sérstök áhersla er lögð á:
a. Heilbrigðisgögn; heilsufarsupplýsingar og lífsýni.
b.Persónulegar upplýsingar sem tengjast starfsmönnum Landspítala.
Stefna um öryggi upplýsinga tekur jafnframt til þess húsnæðis, búnaðar og kerfa, sem hýsa eða flytja gögn/upplýsingar, þ.m.t.. tölvuvélasalir, netþjónar, upplýsingakerfi, gagnagrunnar, kaplar, nettengibúnaður og fjarskiptaskápar.
Stefna um öryggi upplýsinga nær jafnframt til starfsmanna Landspítala og samningsbundinna samstarfsaðila sem hafa aðgang að umræddum gögnum/upplýsingum, s.s. verktaka eða þjónustuaðila.
2. Markmið
Markmið með stefnu um öryggi upplýsinga eru að:
a. Upplýsingar séu réttar og aðgengilegar þeim sem aðgangsheimild hafa.
b. Leynd upplýsinga og trúnaði sé viðhaldið, þar sem það á við.
c. Upplýsingar sem fara um net Landspítala komist óskaddaðar til rétts viðtakanda.
d. Áhætta vegna vinnslu og varðveislu upplýsinga sé innan skilgreindra áhættumarka, í samræmi við áhættumat.
3. Leiðir að markmiðum
Leiðir að ofangreindum markmiðum eru:
a. Að ávallt sé farið eftir þeim lögum, reglum og reglugerðum sem gerðar eru til starfsemi Landspítala um varðveislu, meðferð, verndun og skráningu heilbrigðisupplýsinga.
b. Að áætlanir séu gerðar um samfelldan rekstur, þeim viðhaldið og þær prófaðar til að tryggja öruggan rekstur og endurreisn kerfa.
c. Að frávik frá stefnu um öryggi upplýsinga séu rannsökuð og þeim fylgt eftir.
d. Að vottun á starfsemi Heilbrigðis- og upplýsingatæknimála sé viðhaldið, samkvæmt ISO 27001.
e. Að reglulega og með formlegum hætti, sé framkvæmt áhættumat á mikilvægum þáttum (e. Information assets) og þeim veikleikum sem geta stefnt þeim í hættu.
f. Að halda skrá yfir upplýsingaeignir og flokka þær eftir leynd, réttleika og tiltækileika.
g. Að afrit séu tekin af öllum gögnum og hugbúnaðarkerfum Landspítala.
h. Að fylgja og uppfylla alla samninga sem Landspítali er aðili að og varða öryggi upplýsinga.
i. Að ávallt sé farið eftir lögum og reglum Siðanefndar Landspítala, Persónuverndar og Vísindasiðanefndar, um meðferð umsókna um aðgengi að heilsufarsupplýsingum úr kerfum Landspítala, til að mynda til vísindarannsókna.
j. Að aðgengi að heilsufarsupplýsingum og upplýsingum um að lífsýni séu í samræmi við lög, reglugerðir og tilmæli, sem landlæknir og Landspítali hefur sett fram.
k. Að lögum, reglum og reglugerðum um heilbrigðisstofnanir sé fylgt sem og reglum Landspítala.
l. Að viðhalda gæðahandbókum með verklagsreglum og verkferlum vegna meðferðar upplýsinga og sjá til þess að starfsmenn og samstarfsaðilar fylgi þeim.
m. Að starfsmenn fái þjálfun og fræðslu um öryggi upplýsinga.
n. Að tryggja verklag sem stuðlar að umbótum á sviði upplýsingaöryggis.
4. Ábyrgð
Ábyrgð við framkvæmd og viðhald stefnu um öryggi upplýsinga skiptist á eftirfarandi hátt:
a. Framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala ber ábyrgð á öryggi sjúkraskrár á Landspítala.
b. Framkvæmdastjórn Landspítala ber ábyrgð á stefnu um öryggi upplýsinga og að hún sé endurskoðuð og rýnd reglulega.
c. Þróunarsvið ber ábyrgð á framkvæmd stefnu um öryggi upplýsinga varðandi allt sem snýr að rafrænum gögnum.
d. Yfirmenn Landspítala bera ábyrgð á því að starfsmenn þeirra fari eftir þeim reglum og tilmælum sem gilda um öryggi upplýsinga, meðferð heilsufarsupplýsinga, meðferð upplýsinga um lífsýni. Yfirmenn Landspítala bera einnig ábyrgð á því að viðhalda öryggisvitund meðal starfsmanna.
e. Öllum starfsmönnum ber að vinna samkvæmt stefnu um öryggi upplýsinga. Þeim ber að tilkynna öryggisfrávik og veikleika sem varða öryggi upplýsinga til gæða- og/eða öryggisstjóra síns sviðs, ef það á við, eða þeirra eininga sem fara með Heilbrigðis- og upplýsingatæknimál Landspítala, innan Þróunarsviðs. Starfsmönnum Landspítala ber, eftir fremsta megni, að tryggja að aðeins þeir sem hafa réttindi til, geti nálgast heilsufarsupplýsingar eða upplýsingar um lífsýni.
5. Viðurlög
Þeir sem ógna upplýsingaöryggi Landspítala af ásettu ráði, eiga yfir höfði sér málshöfðun eða aðrar viðeigandi lagalegar aðgerðir. Jafnframt eiga þeir á hættu, samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, áminningu eða, ef um endurtekin eða alvarleg brot er að ræða, brottvikningu úr starfi.
Samþykkt af forstjóra Landspítala 23.janúar 2025
Stefna Landspítala um vinnurými
Tilgangur Stefnu Landspítala um vinnurými (.pdf) og starfsaðstöðu er að samræma hönnunarforsendur við endurnýjun og nýbyggingar vinnurýmaa og starfsaðstöðu, með áherslu á rými eða aðstöðu þar sem unnin er skrifborðs- og/eða tölvuvinna.
Sýn og stefna hjúkrunar á Landspítala
Upplýsingar um sýn og stefnu hjúkrunar á Landspítala (.pdf)
Vísindastefna Landspítala
Upplýsingar um Vísindastefnu Landspítala
