Vísindastefna Landspítala
Vísindastefna er unnin eftir tillögu Vísindaráð Landspítala um stefnu í vísindum til ársins 2030 og samþykkt af forstjóra Landspítala. Öflug vísindastarfsemi er ein af mikilvægustu grunnstoðum hvers háskólasjúkrahúss. Samkvæmt 7. gr. a. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, eru þjónusta, vísindi og menntun þrjú meginhlutverk Landspítala.
Vísindastefna Landspítala 2025 til 2030
Vísindi auka fagmennsku, gæði og öryggi meðferðar og eru forsenda framþróunar í heilbrigðisþjónustu og menntun heilbrigðisstétta.
Það er stefna Landspítala að:
fjárframlög til vísindarannsókna séu sambærileg við norræn háskólasjúkrahús
aðstaða til vísindastarfa innan Landspítala sé stórbætt og ástundunvísindalegra rannsókna sé samofin daglegri starfsemi
styðja við uppbyggingu vísindastarfs þar sem vísindafólk á Landspítala er leiðandi aðili vísindaverkefna
áhersla sé lögð á fjölbreytni í rannsóknum, þverfaglega nálgun og samstarf og
leggja grunn að því að Landspítali geti orðið í fremstu röð á alþjóðlegum vettvangi vísinda.
Forstjóri Landspítala ber ábyrgð á vísindastefnu spítalans
Vísindaráð Landspítala er er ráðgefandi gagnvart forstjóra varðandi vísindaleg málefni Landspítala og fundar með honum í að minnsta kosti tvisvar á ári.
Forsvarsmenn rannsóknarhópa og einstakir vísindamenn bera ábyrgð á sínum rannsóknum
Þær aðstæður verði skapaðar að vísindamenn sjái tækifæri og augljósa kosti þess að starfa á Landspítala.
Skilgreindar verði forsendur þess að háskólamenntað starfsfólk spítalans geti fengið svigrúm og tíma til að leiða og/eða taka þátt í vísindarannsóknum.
Stutt verði við rannsóknarhópa með góðri aðstöðu, og fjármögnun samkeppnisstyrkja innan Landspítala sem ætlaðir eru til stærri og metnaðarfyllri verkefna.
Áhersla verði lögð á nýliðun, meðal annars með sérstökum nýdoktorastöðum.
Fjölgað verði doktorsnemum á spítalanum og leitast við að styðja starfsfólk sem áhuga hefur á doktorsnámi, meðal annars með því að tryggja aðstöðu fyrir vinnu að doktorsverkefni samhliða störfum.
Frekari þróun rafrænnar gagnamiðstöðvar og lífsýnasafns verði flýtt.
Unnið verði að því að bæta innviði og faglega aðstoð við umsjón verkefna, öflun ytri styrkja og frágang einkaleyfa, með samstarfi við aðrar stofnanir þar sem þess er kostur.
Farið verði fram á við fjárveitingarvaldið að fjárframlag til vísinda verði aukið og afmarkað sérstaklega í fjárveitingum til Landspítala.
Stefnt verði að því að innan næstu 5 ára verði vísindastarfsemi 3% af heildarveltu spítalans. Þá verði lagt til að fjárlagalið Landspítala verði þrískipt þannig að tiltekið fé verði merkt sérstaklega vísindastarfsemi.
Vísindamenn Landspítala fái svigrúm og aðstoð við að sækja um styrki í ytri samkeppnissjóði.
Leitað verði eftir fjárframlögum frá fyrirtækjum og almenningi til að efla vísindarannsóknir á Landspítala.
Fjármagn ætlað til vísindastarfsemi á Landspítala skiptist milli reksturs vísindastarfs og Vísindasjóðs Landspítala.
Fé til sjóðsins deilist í samkeppnissjóði sem veita m.a. styrki til:
metnaðarfullra vísindaverkefna sem leidd eru af vísindafólki Landspítala, bæði stórra og smárra verkefna
fjármögnunar á nýdoktorastöðum sem fylgi nægt rannsóknafé og séu ætlaðar upprennandi vísindafólki í tengslum við nýráðningar og nýliðun
uppbyggingar á aðstöðu starfsfólks í rannsóknartengdu framhaldsnámi
undirbúnings öflunar stórra styrkja úr ytri samkeppnissjóðum og
greiðslu kostnaðar af greinabirtingum vísindagreina í opnum aðgangi.
Innan næstu þriggja ára hafi orðið a.m.k. 5% aukning í birtingum vísindagreina með áhrifastuðul sem flokkast á viðkomandi fræðasviði til efstu 20%, þar sem fyrsti og/eða síðasti höfundur starfar á Landspítala, og aukist síðan um a.m.k. 3 % á ári.
Innan næstu tveggja ára verða fjármagnaðar, í gegnum samkeppnissjóð Landspítala, a.m.k. fjórar nýdoktorastöður til fjögurra ára, og fjórar til viðbótar innan næstu fimm ára.
Sókn í stærri innlenda og erlenda rannsóknasjóði aukist um 10% á ári, næstu fimm árin.
Fjöldi útskrifaðra nema í doktorsnámi í tengslum við spítalann og klínískar deildir hans aukist um 2% á ári.
Virkt og mælanlegt samstarf verði komið á innan næstu fimm ára við a.m.k. fimm erlenda háskóla, erlendar stofnanir, eða fyrirtæki á sviði heilbrigðisvísinda.
Fjöldi einkaleyfa sem Landspítali hefur aðkomu að aukist í a.m.k. fjögur á næstu fimm árum.
Skilgreindar verða mælanlegar aðgerðir til að auka sýnileika Landspítala sem vísindastofnunar.
Unnið verði að því að bæta innviði vísinda, efla þjónustu við vísindafólk og auka sýnileika vísindastarfs í rekstri Landspítala
Við þarfagreiningar, gerð rekstraráætlana og mat á mönnunarþörf deilda sé gert ráð fyrir vísindastarfi, á sama hátt og unnið er með og gert er ráð fyrir þjónustuhlutverki sjúkrahússins.
Á stöðufundum innan sviða og hjá framkvæmdastjórn sé fjallað um vísindastarfsemina á sama hátt og gert er í tengslum við þjónustuhlutverk spítalans.
Upplýsingar um stöðu vísindastarfs skulu uppfærðar á hálfs árs fresti og vera sýnilegar.
Í tilviki starfsfólk sem ræður sig til starfa á þeirri forsendu að vísindastarf sé hluti af starfskyldum þess skal í ráðningarsamningum og starfslýsingum gert ráð fyrir skilgreindum tíma til vísindarannsókna.
Markvissri þjónustu, byggðri á víðtækri greiningu á þörfum vísindafólks, verði komið á fót og sýnileiki hennar tryggður með auðveldu aðgengi og áberandi umfjöllun.
Öflugt stuðningsnet fyrir ábyrgðarmenn vísindarannsókna og ungt vísindafólk verði myndað og komið verði af stað hugarflugsfundum vísindafólks á Landspítala í því skyni að efla þverfaglegan stuðning og auka samvinnu.
Stuðningur við stoðdeildir spítalans sem sjá um þjónustu við vísindafólk verði aukinn, þ.m.t. fjárhagsumsjón (núverandi L-verk).
Komið verði á samstarfi við háskólana og aðrar innlendar stofnanir um fjárhagsumsjón styrkja úr erlendum rannsóknarsjóðum.
Starfsemi bókasafns Landspítala verði endurskoðuð og kannað hvort aukið samstarf við aðrar stofnanir skapi hagræðingu sem nýtist vísindafólki á spítalanum, t.d. hvað snertir aðgang að fagtímaritum í hæsta gæðaflokki.
Handhöfum stórra styrkja verði veitt svigrúm í takt við þann tíma sem fram kemur í styrkumsókn að verja þurfi til verkefnisins – enda hafi Landspítali skuldbundið sig til þess þegar styrkumsókn vísindafólks er veitt brautargengi.
Stuðlað verði að góðu aðgengi vísindafólks að rannsóknaraðstöðu, meðal annars með virkri þátttöku í sameiginlegri innviðauppbyggingu háskóla og annarra rannsóknarstofnanna.
Leitast verði við að afla aukins fjárstuðnings frá styrktaraðilum utan spítalans
Stofnuð verði hollvinasamtök vísinda á Landspítala – sem afla fjár og styðja við hagsmunagæslu spítalans.
Kynningar- og fjáröflunarstjóri vísinda á Landspítala verði ráðinn í tilraunaskyni. Viðkomandi aðili þarf að hafa árangursríka reynslu af því að afla fjármagns, ásamt því að hafa góða reynslu af samskiptum við fjölmiðla og almenning.
Styrkleiki og sérstaða Landspítala á sviði vísinda verði kynnt fyrir stjórnvöldum og almenningi
Mótuð verði umgjörð utan um kynningu á vísindastarfsemi Landspítala auk þess að gera rannsóknarhópa sýnilegri á vef spítalans.
Á ytri vef Landspítala verði sérstök síða helguð vísindastarfi á spítalanum ætluð almenningi – taka skal til fyrirmyndar sambærilegar síður erlendra háskólasjúkrahúsa.
Stutt verði við framleiðslu hlaðvarpa og annarra tegunda þáttagerða sem eiga heima á síðu Landspítala sem helguð er vísindum og vísindastarfi fyrir almenning.
Staðið verði fyrir árlegum viðburði þarsem stjórnmálamönnum er boðið á fund með vísindamönnum spítalans þar sem málefni vísinda og mikilvægi þeirra fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu yrðu rædd.
Árleg uppskeruhátíð vísinda (Vísindi á vordögum) verði gerð aðgengileg fyrir almenning með málstofum, fyrirlestrum og öðrum kynningum sem sniðnar eru að almenningi.
Unnið verði að því að kynna niðurstöður og ávinning af vísindastarfsemi Landspítala á innlendum og erlendum vettvangi
Brýnt verði fyrir vísindafólki Landspítala að nafn spítalans (e. Landspitali University Hospital) komi fram á öllum vísindagreinum sem þau eru höfundar að – nafn og merki spítalans sé á öllu kynningarefni.
Fjölgað verði vísindagreinum sem birtar eru í erlendum ritrýndum tímaritum með háan áhrifastuðul
Hærri styrkupphæðum verði úthlutað til metnaðarfullra verkefna með mikið vísindalegt vægi og nýnæmi, sem leidd eru af vísindafólki Landspítala.
Samstarf við háskólastofnanir um þjónustu og stuðning við vísindafólk verði aukið, þ.m.t. aðgengi að sérfræðingum í tölfræði, lífupplýsingafræði og gagnastjórnun.
Samstarf við háskóla, vísindastofnanir og fyrirtæki á sviði heilbrigðisvísinda verði aukið
Samstarf við vísinda- og menntastofnanir verði aukið í því skyni að efla Landspítala enn frekar sem rannsóknarstofnun.
Aukinn verði stuðningur og markviss fagleg aðstoð við gerð samstarfssamninga við innlendar og erlendar vísindastofnanir.
Tækifærum til samstarfs við fyrirtæki á sviði heilbrigðisvísinda verði fjölgað. Fyrirtækjum sem starfa á þessu sviði innanlands og utan verði boðið til samráðsfunda þar sem Landspítali kynni vísindastarfsemi sína og fyrirtækin sína starfsemi.
Úttekt á vísindastarfsemi
Auk hefðbundinna samantekta verði leitað til erlendra og innlendra sérfræðinga með þekkingu á grunnvísindum og klínískum vísindum til að leggja mat á vísindastefnu og vísindastarfsemi spítalans. Fulltrúar frá Vísindaráði Landspítala kæmu einnig að úttektum á vísindastarfseminni. Slík úttekt verði gerð innan þriggja ára og síðan á fimm ára fresti.
Mælingar á framlagi
Árangur af vísindastarfi verði mældur með eins fjölbreyttum aðferðum og kostur er og horft til nýjunga á því sviði til viðbótar við hefðbundna mælikvarða. Sérstaklega verði litið til fjölda birtra vísindagreina þar sem fyrsti og/eða síðasti höfundur starfar á Landspítala og fjölda tilvitnana í þær. Einnig til fjölda greina í tímaritum með háan áhrifastuðul. Mikilvægt er að tekið verði tillit til mismunandi fagstétta og að ekki sé alltaf réttlætanlegt að einskorða mælingu við ISI-greinar. Einnig verði horft til hlutfalls fjölda háskólatengds starfsfólks og fjölda útskrifaðra nema í rannsóknatengdu framhaldsnámi, og hversu lengi nemar eru að ljúka námi.