Fara beint í efnið
Heilbrigðisstofnun Vesturlands Forsíða
Heilbrigðisstofnun Vesturlands Forsíða

Heilbrigðisstofnun Vesturlands

Sálfræðingar

Sálfræðiþjónusta á Heilsugæslustöðvum Vesturlands (HVE)

Sálfræðiþjónusta á heilsugæslum HVE felur í sér mat á geðrænum vanda og sálfræðimeðferð fyrir börn og fullorðna, bæði einstaklings- og hópmeðferð. Áhersla er á meðferð við mildum til miðlungs kvíða, þunglyndi og áfallastreituröskun. Sálfræðiþjónusta í heilsugæslu er ekki langtíma úrræði fyrir alvarlegan geðrænan vanda.

Meðferð miðast við takmarkaðan fjölda viðtalstíma samkvæmt klínísku mati sálfræðinga. Alvarlegum geðrænum vanda er vísað í viðeigandi meðferðarúrræði utan heilsugæslu eða í Geðheilsuteymi HVE.

Sálfræðiþjónusta HVE sinnir ekki ADHD greiningum, greindarpófunum, þroskamaötum eða einhverfugreiningum.

Meðferðarúrræði
Meðferðarúrræði sálfræðinga HVE er hugræn atferlismeðferð (HAM). HAM er samtalsmeðferð byggð á þeim grunni að tilfinningaviðbrögð ráðast að mestu leyti af hugsunum okkar og viðhorfum. Meðferðin gengur út a að skoða samspil hugsana, hegðunar, líkamlegra einkenna og tilfinninga. Lögð er áhersla á að breyta hugarfari tengdri vanlíðan sem og að takast á við þá hegðun sem viðheldur vandanum. Meðferðin fer fram í reglulegum meðferðartímum hjá sálfræðingi sem og vinnu milli meðferðartíma. HAM er gagnreynt meðferðarúrræði sem merkir að meðferðin hefur sýnt endurtekinn árangur í rannsóknum í samanburði við aðrar meðferðir eða enga meðferð og er í dag árangursrík meðferð sem mælt er með í klínískum leiðbeiningum við margskonar geðrænum vanda.

Tilvísanir
Tilvísun þarf frá lækni í sálfræðiþjónustu HVE. Þó geta ljósmæður/hjúkrunarfræðingar í mæðravernd og ung- og smábarnavernd í vissum tilvikum einnig sent tilvísun til sálfræðinga innan HVE.

Staðsetning
Þjónusta sálfræðinga nær til allra sveitarfélaga á Vesturlandi eða starfssvæðis HVE. Sálfræðingar hafa aðsetur á sinni vinnustöð en ekki eru sálfræðingar staðsettir á öllum starfsstöðvum HVE. Reynt er að koma til móts við íbúa alls staðar á svæðinu eins og mögulegt er með staðsetningu viðtala og með rafrænum lausnum.

Samstarf
Sálfræðingar á HVE starfa sem hluti af þverfaglegum teymum, vinna í samstarfi við aðrar fagstéttir stofnunarinnar sem og aðrar stofnanir svo sem félags- og skólaþjónusta, Barna- og unglingageðdeild Landspítala, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og Geðheilsumiðstöð barna og barnavernd.  

Hafa samband
Móttaka á hverri heilsugæslustöð tekur við símtölum (símanúmer á hve.is) og kemur skilaboðum til sálfræðinga. Greitt er komugjald á heilsugæslu fyrir hvern tíma hjá sálfræðingi. Sama á við um hópmeðferðir en þar þarf einnig að greiða efnisgjald fyrir bækur.

Hér fyrir neðan eru upplýsingar um sálfræðiþjónustu á HVE fyrir fullorðna, börn og hópmeðferðir.

Þjónusta sálfræðinga