Fara beint í efnið

Geðheilsuteymi

Geðheilsuteymi HVE (Heilbrigðisstofnunar Vesturlands) er þverfaglegt teymi sem veitir þjónustu til einstaklinga 18 ára og eldri með alvarlegar geðraskanir og þurfa á þéttari aðstoð og eftirfylgd að halda en um er að ræða þegar fólk kemur fyrst inn á heilsugæsluna. Í teyminu starfa geðhjúkrunarfræðingur, iðjuþjálfi, geðlæknir, notendafulltrúi og sálfræðingar.

Meðferðarúrræði

Meðferðarúrræði geðheilsuteymisins eru breytileg en í teyminu er veitt þverfagleg meðferð þar sem þarfir einstaklingsins eru í fyrirrúmi. Í upphafi þjónustu er búin til einstaklingsmiðuð meðferðaráætlun sem mótuð er í samvinnu við skjólstæðing og sniðin eftir þörfum, óskum og markmiðum hans ásamt greiningu og klínísku mati meðferðaraðila. Í áætluninni getur falist sérhæfð lyfjameðferð, samtalsmeðferð, uppsetning virkniáætlunar með iðjuþjálfa, ráðgjöf eða stuðningur, viðtöl við fulltrúa notenda og heimavitjanir en umfang hennar fer fyrst og fremst eftir alvarleika veikindanna. Aðeins er stuðst við gagnreyndar meðferðir innan teymisins og er árangur meðferðar metinn reglulega yfir meðferðartímann.

Ekki er greitt komugjald fyrir tíma hjá meðferðaraðilum teymisins.

Geðheilsuteymi HVE sinnir því miður ekki ADHD greiningum, greindarprófunum, þroskamati eða einhverfugreiningum.

Geðheilsuteymi ADHD hjá Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins sér um ADHD greiningar fyrir allt landið en hægt er að fá tilvísun þangað í gegnum þína heilsugæslu.

Einhverfusamtökin geta gefið ráðleggingar um hvert sé hægt að leita vegna einhverfugreininga á fullorðinsaldri.

Vefsíða: https://www.einhverfa.is/is - Sími: 562-1590.

Tilvísanir

Tilvísanir til geðheilsuteymisins skulu berast í gegnum lækna heilsugæslunnar eða annarra stofnanna ef það á við. Þó geta ljósmæður í mæðravernd og ung- og smábarnavernd í vissum tilvikum sent tilvísun til teymisins. Tilvísanir geta einnig borist frá geðsviði Landspítala ef um beint framhald af innlögn er að ræða. Mikilvægt er að almennt sé búið að reyna önnur úrræði áður en vísað er til geðheilsuteymisins.

Staðsetning og svæði

Þjónusta geðheilsuteymisins nær til allra sveitarfélaga og íbúa á Vesturlandi en fer að mestu leyti fram á Akranesi og í Borgarnesi. Þó er reynt að koma til móts við íbúa alls staðar á svæðinu eins og mögulegt er með staðsetningu viðtala og rafrænum lausnum.

Samstarf

Geðheilsuteymi HVE sinnir samstarfi við önnur geðheilsuteymi og stofnanir þegar þörf er á. Þar má helst nefna móttökugeðdeildir og bráðamóttöku geðsviðs Landspítala. Einnig vinnur teymið saman með félagsþjónustu sveitarfélaga í þeim málum þar sem það á við eða öðrum stofnunum sem koma að félags- eða heilbrigðisþjónustu skjólstæðinga okkar. Geðheilsuteymið vísar einnig málum annað ef meðferð utan stofnunar er talin skila betri árangri.

Hafa samband

Heilsugæslan á Akranesi tekur við símtölum geðheilsuteymisins og kemur skilaboðum áleiðis. Símanúmer HVE á Akranesi er 432-1000. Hafir þú einnig ábendingar, kvartanir eða hrós varðandi starfsemi okkar viljum við gjarnan heyra frá þér þar sem allar ábendingar um okkar starfsemi hjálpa okkur að gera þjónustuna betri.

Hlutverk og markmið