Þjónustustefna Fjársýslunnar – 1.0
Samþykkt: 8.10.2025 - Uppfærð: 8.10.2025
Í þjónustustefnu Fjársýslunnar er fjallað um stefnu, markmið og verklag þegar kemur að veitingu þjónustu til viðskiptavina. Þjónustustefnan gildir um alla þá þjónustu sem Fjársýslan veitir, þar á meðal þjónustu sem veitt er innan stofnunarinnar. Hún gildir fyrir allt starfsfólk Fjársýslunnar.
Markmið og tengsl við heildarstefnu
Markmiðið með þjónustustefnunni er að útfæra og skýra þá þætti í heildarstefnu Fjársýslunnar 2024-2028 sem snúa að þjónustu. Í heildarstefnunni kemur fram að:
„Fjársýslan er þjónustumiðaður þekkingarkjarni á sviði opinberra fjármála, innkaupa og mannauðs með áherslu á skýra ferla, áreiðanlega upplýsingagjöf og stafrænar lausnir. Fjársýslan stuðlar að hagkvæmni og skilvirkni í ríkisrekstri og mætir þörfum viðskiptavina með frumkvæði, nýsköpun og stöðugri þróun.“
Tvö þriggja meginmarkmiða Fjársýslunnar eru nátengd þjónustu:
„Áreiðanleg og skilvirk grunnþjónusta sem fylgt er eftir með skýrum og gagnsæjum ferlum.“
„Virðisaukandi og þjónustumiðuð ráðgjöf til að auka hagkvæmni og skilvirkni í ríkisrekstri.“
Áherslur Fjársýslunnar þegar kemur að þjónustu eru:
Á1: Auka og einfalda aðgengi að upplýsingum fyrir viðskiptavini og starfsfólk með nútímalegum stafrænum lausnum.
Á2: Samræma þjónustuframboð, skýra kröfur og bæta upplýsingaflæði til þeirra sem nýta þjónustu Fjársýslunnar.
Á4: Innleiða aðferðir sem styðja við stöðugar umbætur í grunnþjónustu til viðskiptavina.
V2: Þekkja þarfir viðskiptavina og greina sameiginlegar áskoranir ríkisaðila til að þróa og veita góða þjónustu.
V4: Auka framboð á fræðslu, kennsluefni og leiðbeiningum til ríkisaðila með skipulögðum hætti.
H5: Innleiða stafrænar lausnir til að bæta gagnaskil og samskipti við viðskiptavini Fjársýslunnar.
Þjónustulýsing og þjónustupakkar
Þjónusta Fjársýslunnar skiptist í afmarkaðar þjónustutegundir sem endurspegla meginhlutverk Fjársýslunnar í þjónustu við viðskiptavini. Hér að neðan er útlistun á því hvaða þjónustuþættir felast í hverri þjónustutegund og skipting í þjónustustig. Kostnaður við þjónustu Fjársýslunnar er misjafn eftir þjónustustigi og er útlistaður í þjónustusamningi eða skv. gjaldskrá.
