Útgáfa dóma á vef
Efnisyfirlit
Tilgangur og reglur
Birting dóma á netinu miðar að því að varpa ljósi á starfsemi dómstólanna.
Tilgangur
Birting dóma á að tryggja rétt almennings í lýðræðislegu samfélagi til aðgangs að upplýsingum um réttarframkvæmd. Útgáfunni er líka ætlað að styðja við fyrirmæli stjórnarskrárinnar og meginreglu réttarfars um opinbera málsmeðferð. Þessar reglur eiga að veita dómstólum aðhald og stuðla að auknu trausti almennings á því að öll njóti jafnræðis við úrlausn mála fyrir dómstólum.
Reglur um birtingu dóma
Meginreglan er sú að dómar skulu birtir á vefsíðum dómstólanna. Þó eru undantekningar á þeirri reglu, sérstaklega varðandi dóma héraðsdómstólanna.
Í fyrsta lagi eftir klukkutíma
Dómur skal ekki birtur á netinu fyrr en liðin er að minnsta kosti klukkustund frá uppkvaðningu en þetta gefur lögmanni ráðrúm til að upplýsa skjólstæðing sinn um niðurstöðu málsins.
Innan 14 virkra daga
Dómstólar hafa allt að 14 virka daga frá uppkvaðningu til þess að birta dóm á netinu.
Birtingu frestað
Dómstóll má fresta birtingu ef rannsóknarhagsmunir í sakamáli krefjast þess.
Dómar héraðsdóms sem eru ekki birtir
Dómar héraðsdómstóla eru ekki birtir þegar um er að ræða:
Kröfu um gjaldþrotaskipti.
Kröfu um opinber skipti.
Beiðni um heimild til greiðslustöðvunar.
Beiðni um heimild til að leita nauðasamnings.
Mál samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997.
Beiðni um dómkvaðningu matsmanns.
Beiðni um úrskurð á grundvelli laga um horfna menn nr. 44/1981.
Mál samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002.
Mál samkvæmt barnalögum nr. 76/2003.
Mál samkvæmt hjúskaparlögum nr. 31/1993.
Mál um erfðir.
Kröfu um heimild til beinnar aðfarargerðar (innsetningar- og útburðarmál).
Úrskurð sem gengur undir rekstri máls og felur ekki í sér lokaniðurstöðu þess.
Einkamál þar sem ekki er haldið uppi vörnum.
Kröfu um úrskurð samkvæmt ákvæðum IX.-XV. kafla laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Kröfu um breytingu eða niðurfellingu ráðstafana samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Sakamál þar sem refsing er sekt undir áfrýjunarfjárhæð.
Þegar sérstaklega stendur á getur dómstjóri ákveðið að víkja frá þessari reglu. Hann getur því ákveðið að birta dóm sem samkvæmt framangreindum lista skuli ekki birta, sem og að ákveðið að ekki birta dóm sem hefði átt að birta. Dómstjóri þarf að skrá rökstuðning fyrir ákvörðun sinni í málaskrá dómstóla.
Fyrri dómsúrlausnir
Þegar dómar Landsréttar eða Hæstaréttar eru birtir skulu viðeigandi dómsúrlausnir lægri réttar fylgja, eða hlekkur á þær.