Prentað þann 23. des. 2024
606/2021
Reglugerð um viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir.
Efnisyfirlit
- I. KAFLI Almenn ákvæði.
- II. KAFLI Rekstraraðilar í staðbundnum iðnaði.
- 5. gr. Skylda rekstraraðila til að hafa losunarleyfi.
- 6. gr. Umsókn um losunarleyfi.
- 7. gr. Útgáfa losunarleyfis.
- 8. gr. Efni losunarleyfis.
- 9. gr. Gildistími og endurskoðun losunarleyfis.
- 10. gr. Afturköllun losunarleyfis.
- 11. gr. Heildarfjöldi endurgjaldslausra losunarheimilda til staðbundinnar starfsemi.
- 12. gr. Takmarkanir á úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til rekstraraðila.
- 13. gr. Starfsemi sem telst hætt við kolefnisleka.
- 14. gr. Tilkynning rekstraraðila um breytingar á starfsstöð.
- 15. gr. Nýsköpunarsjóður.
- III. KAFLI Flugrekendur.
- IV. KAFLI Vöktun, skýrslugjöf og vottun.
- 17. gr. Vöktun, skýrslugjöf og vottun vegna losunar gróðurhúsalofttegunda.
- 18. gr. Heimild smálosenda til að áætla eldsneytisnotkun.
- 19. gr. Faggilding vottunaraðila og eftirlit.
- 20. gr. Heimild til að óska eftir faggildingu.
- 21. gr. Gagnkvæm viðurkenning vottunaraðila.
- 22. gr. Almennar reglur um markaðseftirlit, faggildingu o.fl.
- V. KAFLI Upplýsingaskylda, aðgangur að upplýsingum, þagnarskylda o.fl.
- VI. KAFLI Gjaldtaka.
- VII. KAFLI Málsmeðferð og kærur.
- VIII. KAFLI Þvingunarúrræði og viðurlög.
- IX. KAFLI Innleiðing og gildistaka EES-gerða.
- X. KAFLI Lagastoð og gildistaka.
I. KAFLI Almenn ákvæði.
1. gr. Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og tryggja að flugrekendur og rekstraraðilar starfsstöðva sem heyra undir gildissvið viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir skv. lögum um loftslagsmál uppfylli skilyrði fyrir þátttöku í kerfinu.
2. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um rekstraraðila í staðbundinni starfsemi og flugrekendur sem heyra undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir skv. lögum um loftslagsmál og mælir hún m.a. fyrir um losunarleyfi, úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda, vöktun, skýrslugjöf og vottun vegna losunar, faggildingu, nýsköpunarsjóð, hvaða flugrekendur heyra undir umsjón Íslands og annað er viðkemur viðskiptakerfinu.
3. gr. Skilgreiningar.
Í reglugerð þessari er merking orða og orðasambanda sem hér segir:
- Búnaður: Allar tegundir sjóðara, brennara, hitara, hverfla, ofna, brennsluofna, kalkofna, hverfiofna, þurrkara, véla, afgasbrennara, efnarafala, eftirbrennslueininga og annars konar búnaður sem notaður er í starfsemi.
- Flugrekandi: Aðili sem rekur loftfar og notar það til að stunda flugstarfsemi sem tilgreind er í II. viðauka laga um loftslagsmál eða, ef aðilinn er óþekktur eða ekki tilgreindur af eiganda loftfars, eigandi loftfarsins. Flugrekandi er einnig nefndur umráðandi loftfars.
- Gróðurhúsalofttegundir: Lofttegundir sem tilgreindar eru í 3. gr. laga um loftslagsmál.
- Heildarfjöldi endurgjaldslausra losunarheimilda í staðbundnum iðnaði á Evrópska efnahagssvæðinu: Sá fjöldi losunarheimilda sem gefinn er út til staðbundinnar starfsemi í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir á hverju ári. Hann dregst saman árlega samkvæmt línulegum stuðli.
- Hráefni: Efni sem notuð eru við framleiðslu á vörum. Hráefni eru oft náttúruauðlindir, s.s. kol, olía og málmgrýti.
- Hjálparefni: Efni sem notuð eru í ákveðnum tæknilegum tilgangi við framleiðslu á vöru, án þess að efnunum sé ætlað að koma fyrir eða hafa áhrif í fullunninni vöru.
- Kolefnisleki: Það að starfsemi sem losar gróðurhúsalofttegundir flyst frá ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu vegna áhrifa sem beinn og óbeinn kostnaður viðkomandi rekstraraðila vegna viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir hefur á markaðsaðstæður hans.
- Koldíoxíðsígildi: Eitt tonn af koldíoxíðsígildi samsvarar einu tonni af koldíoxíði eða því magni gróðurhúsalofttegunda sem hefur sambærilegan hnatthlýnunarmátt.
- Losun gróðurhúsalofttegunda: Útstreymi gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið frá upptökum í starfsstöð eða losun frá loftfari í flugstarfsemi sem tilgreind er í II. viðauka laga um loftslagsmál.
-
Losun sem tilheyrir ríki:Losun frá flugstarfsemi sem tilgreind er í II. viðauka laga um loftslagsmál sem rekja má til:
- flugs sem felur í sér flugtak frá flugvelli í viðkomandi ríki, eða
- flugs sem felur í sér lendingu á flugvelli í viðkomandi ríki þegar flogið er frá ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins.
- Losunarheimild: Heimild til losunar gróðurhúsalofttegunda. Ein losunarheimild jafngildir heimild til losunar á einu tonni af koldíoxíðsígildi.
- Losunarleyfi: Leyfi til losunar gróðurhúsalofttegunda frá starfsstöð sem rekstraraðili skal hafa til þess að stunda starfsemi sem getið er í I. viðauka laga um loftslagsmál og til þess að geta sótt um og fengið úthlutað losunarheimildum, sbr. þó 14. gr. a sömu laga (um starfsstöðvar með árlega losun undir 25.000 tonnum af koldíoxíði).
- Lögbært stjórnvald: Stjórnvald sem ber ábyrgð á framkvæmd reglna um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.
- Nýr þátttakandi í staðbundinni starfsemi: Starfsstöð þar sem fram fer ein eða fleiri tegundir þeirrar starfsemi sem tilgreind er í I. viðauka laga um loftslagsmál, sem hefur fengið losunarleyfi í fyrsta skipti eftir 30. júní 2019 hvað varðar úthlutunartímabilið 2021-2025 og eftir 30. júní 2024 hvað varðar úthlutunartímabilið 2026-2030.
- Rekstraraðili: Aðili sem hefur starfsleyfi skv. lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og stjórnar starfsstöð eða ber fjárhagslega ábyrgð á tæknilegri virkni starfsstöðvar sem fellur undir gildissvið laga um loftslagsmál, sbr. I. viðauka við lögin.
- Smálosandi: Flugrekandi sem annast færri en 243 flugferðir á hverju tímabili í þrjú samfelld fjögurra mánaða tímabil og flugrekandi sem annast flugferðir þar sem heildarlosun á ári er minni en 25.000 tonn koldíoxíðs.
- Starfsstöð: Staðbundin tæknileg eining þar sem fram fer ein eða fleiri tegundir starfsemi sem getið er í I. viðauka laga um loftslagsmál og öll önnur starfsemi sem gæti haft áhrif á losun og mengun og tengist með beinum og tæknilegum hætti þeirri starfsemi sem fram fer á staðnum. Starfsstöð er einnig nefnd stöð.
- Umsjónarríki: Ríki sem ber ábyrgð á framkvæmd reglna um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gagnvart flugrekanda.
- Vottun: Störf sem vottunaraðili annast í þeim tilgangi að gefa út vottunarskýrslu skv. reglugerð (ESB) 2018/2067, sbr. 31. gr. reglugerðar þessarar. Vottun er einnig nefnd sannprófun.
- Vottunaraðili: Lögaðili sem annast vottunarstörf samkvæmt reglugerð þessari og hefur verið faggiltur af til þess bærum aðila eða einstaklingur sem annast vottunarstörf samkvæmt reglugerð þessari og hefur fengið til þess heimild með öðrum hætti. Vottunaraðili er einnig nefndur sannprófandi.
- Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir: Kerfi sem starfrækt er á Evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt tilskipun 2003/87/EB, með síðari breytingum, eins og hún hefur verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
4. gr. Umhverfisstofnun.
Umhverfisstofnun er lögbært stjórnvald vegna viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir.
Umhverfisstofnun fer með útgáfu losunarleyfa og ber að tryggja að kröfur og skilyrði losunarleyfa og veiting þeirra sé í samræmi við ákvæði laga og reglugerða þar að lútandi. Stofnunin tekur m.a. ákvarðanir um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda, aðlaganir á úthlutun og ákvarðanir um vöktun, skýrslugjöf og vottun vegna losunar eftir því sem kveðið er á um í reglugerð þessari og þeim EES-gerðum sem innleiddar eru með henni, sbr. IX. kafla.
II. KAFLI Rekstraraðilar í staðbundnum iðnaði.
5. gr. Skylda rekstraraðila til að hafa losunarleyfi.
Rekstraraðilar sem heyra undir reglugerð þessa skulu hafa losunarleyfi. Óheimilt er að stunda starfsemi sem getið er í I. viðauka laga um loftslagsmál nema losunarleyfi sé í gildi á þeim tíma sem starfsemin fer fram.
Þrátt fyrir 1. mgr. er rekstraraðilum starfsstöðva sem undanskildar hafa verið gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir skv. 14. gr. a laga um loftslagsmál ekki skylt að hafa losunarleyfi. Ef ljóst verður að starfsstöð uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir því að vera undanskilin gildissviði viðskiptakerfisins ber rekstraraðila án tafar að sækja um losunarleyfi í samræmi við reglugerð þessa.
Ef rekstraraðili starfrækir fleiri en eina starfsstöð skal hver starfsstöð fyrir sig hafa losunarleyfi. Þó getur Umhverfisstofnun ákveðið að gefa út eitt losunarleyfi fyrir fleiri en eina starfsstöð sem staðsettar eru á sömu lóð og starfræktar eru af sama rekstraraðila ef stofnunin telur nægileg tengsl milli viðkomandi starfsemi. Í slíkum tilvikum skal hver starfsstöð um sig þó hafa vöktunaráætlun skv. 1. mgr. 21. gr. b laga um loftslagsmál og 17. gr. reglugerðar þessarar.
6. gr. Umsókn um losunarleyfi.
Rekstraraðili skal senda umsókn um losunarleyfi til Umhverfisstofnunar um leið og ljóst verður að starfsemi hans heyrir undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.
Umsókn um losunarleyfi skal hafa að geyma:
- lýsingu á starfsstöð og starfsemi rekstraraðila, þ. á m. þeirri tækni sem notuð er,
- lýsingu á hráefnum, hjálparefnum og búnaði sem notaður er í starfseminni og ætla má að valdi losun gróðurhúsalofttegunda, þ.m.t. upplýsingar um nafnvarmaafl búnaðar,
- lýsingu á uppsprettum gróðurhúsalofttegunda frá viðkomandi starfsstöð,
- vöktunaráætlun sem samræmist 17. gr. reglugerðar þessarar og ákvæðum reglugerðar (ESB) 2018/2066, sbr. 31. gr. reglugerðar þessarar,
- samantekt á almennu máli um þau atriði sem getið er í a-d-lið.
Umsókn telst hafa borist Umhverfisstofnun á þeim degi er fullnægjandi gögn eða upplýsingar hafa borist að mati stofnunarinnar.
7. gr. Útgáfa losunarleyfis.
Umhverfisstofnun skal taka ákvörðun um útgáfu losunarleyfis innan þriggja mánaða frá því að umsókn berst stofnuninni. Losunarleyfi skal því aðeins gefið út að allar tilskildar upplýsingar hafi borist og Umhverfisstofnun telji umsókn sýna fram á að rekstraraðili viðkomandi starfsstöðvar sé fær um að vakta og gefa árlega skýrslu um losun frá starfsstöðinni í samræmi við reglugerð þessa og reglugerð (ESB) 2018/2066, sbr. 31. gr. reglugerðar þessarar.
Losunarleyfi skal gefið út til rekstraraðila þeirrar starfsemi sem leyfið tekur til. Handhafi losunarleyfis skal vera sá sami og handhafi starfsleyfis sem gefið hefur verið út vegna viðkomandi starfsemi á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Telji Umhverfisstofnun skilyrði fyrir útgáfu losunarleyfis ekki uppfyllt, skal umsókn hafnað.
8. gr. Efni losunarleyfis.
Í losunarleyfi skal eftirfarandi koma fram:
- nafn og heimilisfang rekstraraðila,
- lýsing á starfsemi og losun gróðurhúsalofttegunda frá henni,
- skilyrði um vöktun, þ.m.t. aðferðafræði og tíðni vöktunar sem samræmast 17. gr. reglugerðar þessarar og ákvæðum reglugerðar (ESB) 2018/2066, sbr. 31. gr. reglugerðar þessarar,
- skilyrði um að rekstraraðili skili árlega skýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við 17. gr. reglugerðar þessarar og ákvæði reglugerðar (ESB) 2018/2066, sbr. 31. gr. reglugerðar þessarar, og
- ákvæði um skyldu til að standa skil á losunarheimildum, sbr. 10. og 17. gr. laga um loftslagsmál.
9. gr. Gildistími og endurskoðun losunarleyfis.
Losunarleyfi skal vera ótímabundið.
Ávallt skal endurskoða losunarleyfi ef verulegar breytingar verða á rekstri starfsstöðvar, s.s. ef starfsemi er lögð niður, tímabundið eða varanlega, eða veruleg minnkun eða aukning verður á framleiðslugetu, og er Umhverfisstofnun í slíkum tilvikum heimilt að leggja fyrir rekstraraðila að sækja um nýtt losunarleyfi í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar. Þrátt fyrir framangreint getur Umhverfisstofnun heimilað rekstraraðilum að uppfæra vöktunaráætlun skv. 1. mgr. 21. gr. b laga um loftslagsmál án þess að gefið verði út nýtt losunarleyfi. Ef nýr rekstraraðili sem hefur gilt losunarleyfi kemur að starfsemi er heimilt að færa losunarleyfið yfir á nýjan rekstraraðila án þess að gefið verði út nýtt losunarleyfi.
Umhverfisstofnun er heimilt að endurskoða losunarleyfi og gera á því breytingar hvenær sem er vegna breyttra forsendna, svo sem ef losun af völdum starfseminnar er meiri en búist var við þegar leyfið var gefið út, ef breytingar verða á rekstrinum sem varðað geta ákvæði losunarleyfis, vegna tækniþróunar eða vegna breytinga á lögum og reglugerðum er varða losunarleyfi. Rekstraraðili skal verða við ósk Umhverfisstofnunar um upplýsingar sem stofnuninni eru nauðsynlegar til að meta þörf á breytingum eða til að gera viðeigandi breytingar á losunarleyfi.
10. gr. Afturköllun losunarleyfis.
Umhverfisstofnun er heimilt að afturkalla losunarleyfi ef forsendur þess bresta, s.s. ef starfsemi er hætt skv. 26. gr. reglugerðar (ESB) 2019/331, sbr. 32. gr. reglugerðar þessarar, ef endurskoðað mat á starfsemi leiðir í ljós að hún fellur ekki undir I. viðauka laga um loftslagsmál eða ef skilyrði losunarleyfis eru ekki uppfyllt.
11. gr. Heildarfjöldi endurgjaldslausra losunarheimilda til staðbundinnar starfsemi.
Auk árangursviðmiða sem vísað er til í 9. gr. laga um loftslagsmál, grundvallast úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til rekstraraðila á þeim heildarfjölda endurgjaldslausra losunarheimilda sem gefinn er út til staðbundinnar starfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu á ári hverju. Framkvæmdastjórn ESB ákvarðar framangreindan heildarfjölda skv. 9. gr. tilskipunar 2003/87/EB, sbr. 31. gr. reglugerðar þessarar. Heildarfjöldi losunarheimilda dregst saman árlega samkvæmt línulegum stuðli sem frá og með árinu 2021 skal vera 2,2%.
12. gr. Takmarkanir á úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til rekstraraðila.
Engum losunarheimildum skal úthlutað skv. 9. gr. laga um loftslagsmál til starfsstöðvar sem hefur hætt starfsemi nema rekstraraðili geti sýnt fram á að starfsemi geti hafist á ný innan hæfilegs tíma, sbr. 9. gr. sömu laga. Skilyrði þess að starfsemi teljist hafa hætt má finna í 26. gr. reglugerðar (ESB) 2019/331, sbr. 32. gr. reglugerðar þessarar.
Engum losunarheimildum skal úthlutað endurgjaldslaust til raforkuframleiðenda eða vegna föngunar og flutnings koldíoxíðs eða niðurdælingar og varanlegrar geymslu þess í jarðlögum. Engum losunarheimildum skal úthlutað endurgjaldslaust til nýrra þátttakenda í staðbundinni starfsemi vegna raforkuframleiðslu.
13. gr. Starfsemi sem telst hætt við kolefnisleka.
Starfsemi sem telst hætt við kolefnisleka skal til ársins 2030 fá úthlutað endurgjaldslausum losunarheimildum sem nema 100% af þeim fjölda sem ákvarðaður er í samræmi við 9. gr. laga um loftslagsmál.
14. gr. Tilkynning rekstraraðila um breytingar á starfsstöð.
Rekstraraðilar skulu tilkynna Umhverfisstofnun tafarlaust með skriflegum hætti um allar fyrirhugaðar breytingar eða aðrar breytingar í tengslum við rekstur starfsstöðvar sem geta haft áhrif á efni losunarleyfis eða úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda, s.s. um hvers kyns aukningu eða verulega minnkun á framleiðslugetu.
15. gr. Nýsköpunarsjóður.
Stjórnvöld skulu vera framkvæmdastjórn ESB til samráðs og aðstoðar við umsóknarferli, ákvarðanir og annað er viðkemur nýsköpunarsjóðnum og þróun hans og skulu taka á móti skýrslum eftir því sem nánar er mælt fyrir um í reglugerð (ESB) 2019/856, sbr. 32. gr. reglugerðar þessarar.
III. KAFLI Flugrekendur.
16. gr. Umsjónarríki flugrekenda.
Um umsjónarríki flugrekenda fer skv. 16. gr. laga um loftslagsmál.
Niðurröðun flugrekenda á umsjónarríki á Evrópska efnahagssvæðinu skal vera í samræmi við skrá framkvæmdastjórnar ESB skv. reglugerð þar um, sbr. 2. mgr. 33. gr. reglugerðar þessarar. Ef ósamræmi er á milli niðurröðunar flugrekenda í skránni og 1. mgr. 16. gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál skal niðurröðun samkvæmt skránni ganga framar. Tilgreining flugrekanda eða skortur á tilgreiningu hans í skránni hefur ekki áhrif á það hvort flugrekandi heyri undir gildissvið laga nr. 70/2012 um loftslagsmál.
IV. KAFLI Vöktun, skýrslugjöf og vottun.
17. gr. Vöktun, skýrslugjöf og vottun vegna losunar gróðurhúsalofttegunda.
Um vöktun og skýrslugjöf rekstraraðila og flugrekenda vegna losunar gróðurhúsalofttegunda og vottun þar að lútandi gilda, auk ákvæða reglugerðar þessarar, ákvæði 21. gr. b laga um loftslagsmál, ákvæði reglugerðar (ESB) 2018/2066, reglugerðar (ESB) 2018/2067 og reglugerðar (ESB) 2019/1842, sbr. 31. og 32. gr. reglugerðar þessarar.
Vöktunaráætlun rekstraraðila vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, sbr. 1. mgr. 21. gr. b laga um loftslagsmál, skal fylgja með umsókn um losunarleyfi sem send skal Umhverfisstofnun skv. 6. gr. reglugerðar þessarar. Um málsmeðferð Umhverfisstofnunar vegna yfirferðar og samþykkis vöktunaráætlunar rekstraraðila gilda ákvæði um losunarleyfi skv. II. kafla eftir því sem við á.
Umhverfisstofnun skal taka ákvörðun um samþykkt vöktunaráætlunar rekstraraðila eða flugrekanda eins fljótt og verða má eftir að hún berst. Ef Umhverfisstofnun telur skilyrði vöktunaráætlunar ekki uppfyllt skal henni hafnað.
Umhverfisstofnun er heimilt að krefjast þess að losunarskýrslu sem skila skal fyrir 31. mars ár hvert skv. 1. mgr. 21. gr. b laga um loftslagsmál sé skilað fyrr, en þó ekki fyrr en 28. febrúar á viðkomandi ári. Umhverfisstofnun skal í slíkum tilvikum tilkynna rekstraraðilum eða flugrekendum um kröfu sína í síðasta lagi 30. nóvember árið á undan og tilgreina ástæður þess að heimildin skuli nýtt. Ákvörðun um breyttan skilafrest skal ná til allra rekstraraðila eða allra flugrekenda sem senda Umhverfisstofnun skýrslu á viðkomandi ári. Skilafrestur þarf þó ekki að vera sá sami fyrir rekstraraðila og flugrekendur.
18. gr. Heimild smálosenda til að áætla eldsneytisnotkun.
Flugrekendum sem teljast smálosendur er heimilt að áætla eldsneytisnotkun með aðstoð sérhæfðra reiknivéla sem þróaðar hafa verið til að einfalda skýrslugjöf í viðskiptakerfinu. Skilyrði þess er að Umhverfisstofnun hafi veitt samþykki sitt fyrir notkun viðkomandi reiknivélar.
19. gr. Faggilding vottunaraðila og eftirlit.
Faggildingarsvið Hugverkastofunnar faggildir vottunaraðila og hefur eftirlit með þeim. Faggildingarsviði Hugverkastofunnar er þó heimilt að fela stofnun sem fer með faggildingar í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins að framkvæma faggildingu og eftirlit.
Faggildingarsviði Hugverkastofunnar ber að halda úti skrá yfir alla vottunaraðila sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt þessari grein og skal hún vera aðgengileg almenningi.
20. gr. Heimild til að óska eftir faggildingu.
Eingöngu lögaðilum er heimilt að óska eftir faggildingu skv. 19. gr. reglugerðar þessarar.
21. gr. Gagnkvæm viðurkenning vottunaraðila.
Faggilding vottunaraðila sem framkvæmd hefur verið af stofnun sem fer með faggildingar í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins skal metin jafngild faggildingu skv. 19. gr. reglugerðar þessarar. Það er þó skilyrði að vottunarstofa starfi á ensku eða Norðurlandamáli, öðru en finnsku.
Vottunaraðili skv. 1. mgr. sem hyggst votta gögn fyrir rekstraraðila eða flugrekanda skal áður en starf við vottun hefst senda faggildingarskjal á ensku eða Norðurlandamáli, öðru en finnsku, til Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun skal innan eins mánaðar frá því að öll nauðsynleg gögn hafa borist, taka afstöðu til þess hvort vottunaraðili uppfyllir kröfur 1. mgr. og tilkynna vottunaraðila um niðurstöðu sína.
Umhverfisstofnun skal halda úti skrá yfir alla vottunaraðila sem hlotið hafa viðurkenningu samkvæmt þessari grein og skal hún vera aðgengileg almenningi.
22. gr. Almennar reglur um markaðseftirlit, faggildingu o.fl.
Litið skal á tilvísanir reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/2067, sbr. 31. gr. reglugerðar þessarar, til reglugerðar (EB) nr. 765/2008 sem tilvísanir til reglugerðar nr. 566/2013 um markaðseftirlit, faggildingu o.fl.
V. KAFLI Upplýsingaskylda, aðgangur að upplýsingum, þagnarskylda o.fl.
23. gr. Upplýsingaskylda rekstraraðila og flugrekenda.
Umhverfisstofnun er heimilt að krefja rekstraraðila og flugrekendur sem falla undir gildissvið reglugerðar þessarar um allar þær upplýsingar sem stofnunin þarf á að halda til að meta hvort skyldur laga nr. 70/2012 um loftslagsmál, reglugerðar þessarar eða þeirra EES-gerða sem innleiddar eru með henni, sbr. IX. kafla, hafi verið efndar á fullnægjandi hátt. Umhverfisstofnun er heimilt að krefjast þess að tilteknar upplýsingar séu vottaðar af óháðum vottunaraðila.
Umhverfisstofnun skal veita rekstraraðila eða flugrekanda hæfilegan frest til að afhenda upplýsingar skv. 1. mgr. og skal tilgreina ástæður þess að upplýsinganna er krafist.
24. gr. Form gagna.
Umhverfisstofnun er heimilt að fara fram á að umsóknum, skýrslum eða öðrum gögnum sem skila skal til stofnunarinnar samkvæmt lögum nr. 70/2012 um loftslagsmál, reglugerð þessari og þeim EES-gerðum sem innleiddar eru með henni, sbr. IX. kafla, sé skilað á því formi sem stofnunin ákveður.
25. gr. Aðgangur að upplýsingum.
Umhverfisstofnun skal birta ákvarðanir um útgáfu og afturköllun losunarleyfis skv. 7. og 10. gr. reglugerðar þessarar og ákvarðanir um úthlutun losunarheimilda til rekstraraðila og flugrekenda skv. 9. og 20. gr. laga um loftslagsmál á vefsvæði sínu. Birting á vefsíðu Umhverfisstofnunar telst vera opinber birting.
Um aðgang að losunarleyfi og öðrum upplýsingum sem varða úthlutun losunarheimilda skv. lögum um loftslagsmál, þ. á m. losunarskýrslum skv. 1. mgr. 21. gr. b laga, fer eftir upplýsingalögum.
26. gr. Þagnarskylda.
Um þagnarskyldu starfsfólks Umhverfisstofnunar og annarra stjórnvalda og stofnana sem sinna verkefnum skv. reglugerð þessari fer samkvæmt ákvæðum X. kafla stjórnsýslulaga og 38. gr. laga um loftslagsmál.
Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 38. gr. laga um loftslagsmál geta upplýsingar sem skulu koma fram í losunarleyfi skv. 8. gr. reglugerðar þessarar og upplýsingar sem birtar eru í viðskiptadagbók framkvæmdastjórnar ESB (EUTL) skv. reglugerð um skráningarkerfi með losunarheimildir aldrei talist trúnaðarupplýsingar.
VI. KAFLI Gjaldtaka.
27. gr.
Um gjaldtöku fyrir þau verkefni sem Umhverfisstofnun innir af hendi í tengslum við reglugerð þessa fer samkvæmt XII. kafla laga um loftslagsmál.
VII. KAFLI Málsmeðferð og kærur.
28. gr. Andmælaréttur.
Áður en ákvörðun er tekin í máli rekstraraðila eða flugrekanda samkvæmt lögum um loftslagsmál, reglugerð þessari eða þeim EES-gerðum sem innleiddar eru með henni, sbr. IX. kafla, skal Umhverfisstofnun tilkynna viðkomandi um fyrirhugaða ákvörðun og veita honum að jafnaði tveggja vikna frest til að tjá sig um efni máls enda komi ekki fram í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft að mati Umhverfisstofnunar.
29. gr. Kærur.
Stjórnvaldsákvarðanir Umhverfisstofnunar er varða losunarleyfi samkvæmt 5.-10. gr. reglugerðar þessarar eru kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 1. mgr. 39. gr. a laga um loftslagsmál. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt þeim lögum sem um úrskurðarnefndina gilda.
Aðrar stjórnvaldsákvarðanir Umhverfisstofnunar sem teknar eru samkvæmt lögum um loftslagsmál, reglugerð þessari eða þeim EES-gerðum sem innleiddar eru með henni, sbr. IX. kafla, eru kæranlegar til ráðherra, sbr. 2. mgr. 39. gr. a laga um loftslagsmál.
Að öðru leyti en því sem mælt er fyrir um í lögum um loftslagsmál fer um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæru samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga, sbr. 3. mgr. 39. gr. a laga um loftslagsmál.
VIII. KAFLI Þvingunarúrræði og viðurlög.
30. gr.
Um þvingunarúrræði og viðurlög vegna brota samkvæmt reglugerð þessari og þeim EES-gerðum sem innleiddar eru með henni, sbr. IX. kafla, fer samkvæmt XIII. kafla laga um loftslagsmál.
IX. KAFLI Innleiðing og gildistaka EES-gerða.
31. gr. Innleiðing EES-gerða er varða rekstraraðila og flugrekendur.
Reglugerð þessi er sett til innleiðingar og fyllingar þeirra EES-gerða sem gilda um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, sbr. IX. kafla.
Með reglugerð þessari eru innleiddar eftirfarandi EES-gerðir sem settar hafa verið í tengslum við rekstraraðila og flugrekendur í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir og skulu þær öðlast gildi hér á landi með þeim breytingum og viðbótum sem leiða af reglugerð þessari, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans:
- Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB frá 13. október 2003 um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins og um breytingu á tilskipun ráðsins 96/61/EB, eins og henni var breytt með tilskipun 2008/101/EB, tilskipun 2009/29/EB og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/410, sem vísað er til í tölul. 21al í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2007, frá 27. október 2007, nr. 6/2011 frá 1. apríl 2011, nr. 152/2012 frá 26. júlí 2012 og nr. 112/2020 frá 14. júlí 2020. Tilskipun 2003/87/EB er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 54 frá 30. september 2010, bls. 25-39, tilskipun 2008/101/EB er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 5 frá 28. janúar 2016, bls. 6-24, tilskipun 2009/29/EB er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 54 frá 27. september 2012, bls. 722-746 og tilskipun (ESB) 2018/410 er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 54 frá 13. ágúst 2020, bls. 245-269.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 550/2011 frá 7. júní 2011 um ákvörðun á tilteknum takmörkunum sem gilda um notkun alþjóðlegra inneigna vegna verkefna varðandi iðnaðargastegundir samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB, sem vísað er til í tölul. 21ale í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2011, frá 26. júlí 2012. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 59 frá 18. október 2012, 2012/EES/59/45, bls. 853-855.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1123/2013 frá 8. nóvember 2013 um að ákvarða alþjóðleg réttindi til inneignar samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2003/87/EB, sem vísað er til í tölul. 21alh í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 60/2014, frá 4. apríl 2014. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 23 frá 10. apríl 2014, 2014/EES/23/56, bls. 1042-1043.
- Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/2066 frá 19. desember 2018 um vöktun á losun gróðurhúsalofttegunda og skýrslugjöf um losunina samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB og um breytingu á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 601/2012, sem vísað er til í tölul. 21apj í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 320/2019, frá 13. desember 2019. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 5 frá 30. janúar 2020, 2020/EES/5/51, bls. 444-536.
- Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/2067 frá 19. desember 2018 um sannprófun á gögnum og um faggildingu sannprófenda samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB, sem vísað er til í tölul. 21apk í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 320/2019, frá 13. desember 2019. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 5 frá 30. janúar 2020, 2020/EES/5/52, bls. 537-577.
32. gr. Innleiðing EES-gerða er varða rekstraraðila.
Með reglugerð þessari eru eftirfarandi EES-gerðir sem settar hafa verið í tengslum við rekstraraðila í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir innleiddar og skulu þær öðlast gildi hér á landi með þeim breytingum og viðbótum sem leiða af reglugerð þessari, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans:
- Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/331 frá 19. desember 2018 um umbreytingarreglur á vettvangi Sambandsins um samræmda úthlutun losunarheimilda án endurgjalds skv. 10. gr. a í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB, sem vísað er til í tölul. 21all í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 144/2020, frá 25. september 2020. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 69 frá 29. október 2020, 2020/EES/69/48, bls. 632-693.
- Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/856 frá 26. febrúar 2019 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB að því er varðar starfsemi nýsköpunarsjóðsins, sem vísað er til í tölul. 21alk í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 143/2020, frá 25. september 2020. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 73 frá 12. nóvember 2020, 2020/EES/73/07, bls. 40-51.
- Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/1842 frá 31. október 2019 um reglur um beitingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB að því er varðar frekari ráðstafanir til að aðlaga úthlutanir losunarheimilda án endurgjalds vegna breytinga á starfsemisstigi, sem vísað er til í tölul. 21apl í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 167/2020, frá 23. október 2020. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 74 frá 12. nóvember 2020, 2020/EES/74/14, bls. 57-61.
33. gr. Innleiðing EES-gerða er varða flugrekendur.
Með reglugerð þessari eru eftirfarandi EES-gerðir innleiddar, sbr. 2.-5. mgr., sem settar hafa verið í tengslum við flugrekendur í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir og skulu þær öðlast gildi hér á landi með þeim breytingum og viðbótum sem leiða af reglugerð þessari, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans.
Reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar um skrá yfir umsjónarríki flugrekenda, sbr. 2. mgr. 16. gr. reglugerðar þessarar:
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 748/2009 frá 5. ágúst 2009 um skrána yfir umráðendur loftfara sem stunduðu flugstarfsemi sem tilgreind er í I. viðauka við tilskipun 2003/87/EB 1. janúar 2006 eða eftir þann dag þar sem ábyrgðaraðildarríki hvers umráðanda loftfars er tilgreint, sem vísað er til í tölul. 21as í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2011, frá 1. júlí 2011. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 55 frá 7. október 2011, 2011/EES/55/45, bls. 376-469.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 100/2012 frá 3. febrúar 2012 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 748/2009 um skrána yfir umráðendur loftfara sem stunduðu flugstarfsemi sem tilgreind er í I. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB 1. janúar 2006 eða eftir þann dag þar sem ábyrgðaraðildarríki hvers umráðanda loftfars er tilgreint að því er varðar rýmkun kerfis Sambandsins fyrir viðskipti með losunarheimildir þannig að það nái yfir EES-EFTA-lönd, sem vísað er til í tölul. 21as í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 116/2012, frá 15. júní 2012. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 56 frá 4. október 2012, 2012/EES/56/13, bls. 41.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 109/2013 frá 29. janúar 2013 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 748/2009 um skrána yfir umráðendur loftfara sem stunduðu flugstarfsemi sem tilgreind er í I. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB, 1. janúar 2006 eða eftir þann dag, þar sem ábyrgðarríki hvers umráðanda loftfars er tilgreint, einnig með tilliti til rýmkunar á kerfi Sambandsins fyrir viðskipti með losunarheimildir þannig að það nái yfir EFTA-löndin innan EES, sem vísað er til í tölul. 21as í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 96/2013, frá 3. maí 2013. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 28 frá 16. maí 2013, 2013/EES/28/58, bls. 475-649.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 815/2013 frá 27. ágúst 2013 um breytingu á reglugerð nr. 748/2009 um skrána yfir umráðendur loftfara sem stunduðu flugstarfsemi sem getið er í viðauka I við tilskipun 2003/87/EB 1. janúar 2006 eða síðar, þar sem ábyrgðarríki hvers umráðanda loftfars er tilgreint að teknu tilliti til aðildar Króatíu að Evrópusambandinu, sem vísað er til í tölul. 21as í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 56/2014 frá 8. apríl 2014. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 23 frá 10. apríl 2014, 2014/EES/23/50, bls. 500-687.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 100/2014 frá 5. febrúar 2014 um breytingu á reglugerð nr. 748/2009 um skrána yfir umráðendur loftfara sem stunduðu flugstarfsemi sem getið er í viðauka I við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB frá 1. janúar 2006 eða eftir þann dag þar sem ábyrgðarríki hvers umráðanda loftfars er tilgreint, sem vísað er til í tölul. 21as í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 56/2014 frá 8. apríl 2014. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 23 frá 10. apríl 2014, 2014/EES/23/53, bls. 770-958.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/180 frá 9. febrúar 2015 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 748/2009 um skrána yfir umráðendur loftfara sem stunduðu flugstarfsemi sem getið er í viðauka I við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB frá 1. janúar 2006 eða eftir þann dag þar sem ábyrgðarríki hvers umráðanda loftfars er tilgreint, sem vísað er til í tölul. 21as í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 169/2015 frá 11. júní 2015. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 46 frá 20. ágúst 2015, 2015/EES/46/19, bls. 246-435.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/282 frá 26. febrúar 2016 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 748/2009 um skrána yfir umráðendur loftfara sem stunduðu flugstarfsemi sem getið er í viðauka I við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB frá 1. janúar 2006 eða eftir þann dag þar sem ábyrgðarríki hvers umráðanda loftfars er tilgreint, sem vísað er til í tölul. 21as í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2016 frá 8. júlí 2016. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 52 frá 22. september 2016, 2016/EES/52/33, bls. 252-422.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/294 frá 20. febrúar 2017 um breytingu á reglugerð nr. 748/2009 um skrána yfir umráðendur loftfara sem stunduðu flugstarfsemi sem getið er í viðauka I við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB frá 1. janúar 2006 eða eftir þann dag þar sem ábyrgðarríki hvers umráðanda loftfars er tilgreint, sem vísað er til í tölul. 21as í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 147/2017 frá 7. júlí 2017. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 48/2017 frá 3. ágúst 2017, 2017/EES/48/37, bls. 610-802.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/336 frá 8. mars 2018 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 748/2009 um skrána yfir umráðendur loftfara sem stunduðu flugstarfsemi sem tilgreind er í I. viðauka við tilskipun 2003/87/EB frá 1. janúar 2006 eða eftir þann dag þar sem ábyrgðarríki hvers umráðanda loftfars er tilgreint, sem vísað er til í tölul. 21as í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 166/2018 frá 6. júlí 2018. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 49, 8. mars 2018, 2018/EES/49/30, bls. 399-511.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/225 frá 6. febrúar 2019 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 748/2009 að því er varðar umráðendur loftfara sem Bretland er tilgreint sem ábyrgðaraðildarríki fyrir, sem vísað er til í tölul. 21as í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 43/2019 frá 29. mars 2019. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 38, 16. maí 2019, 2019/EES/38/12, bls. 44-142.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/226 frá 6. febrúar 2019 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 748/2009 um skrána yfir umráðendur loftfara sem stunduðu flugstarfsemi sem tilgreind er í I. viðauka við tilskipun 2003/87/EB 1. janúar 2006 eða eftir þann dag þar sem ábyrgðarríki hvers umráðanda loftfars er tilgreint, sem vísað er til í tölul. 21al í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 177/2019 frá 14. júní 2019. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 49, 20. júlí 2019, 2019/EES/49/42, bls. 298-400.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2020/535 frá 8. apríl 2020 um breytingu á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 748/2009 um skrána yfir umráðendur loftfara sem stunduðu flugstarfsemi sem tilgreind er í I. viðauka við tilskipun 2003/87/EB 1. janúar 2006 eða eftir þann dag þar sem ábyrgðaraðildarríki hvers umráðanda loftfars er tilgreint, sem vísað er til í tölul. 21as í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 75/2020 frá 5. febrúar 2021. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 22, frá 25. mars 2021, 2021/EES/22/109, bls. 647-802.
EES-gerðir sem tengjast úthlutun losunarheimilda til flugrekenda:
- Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2011/149/ESB frá 7. mars 2011 um fyrri losun frá flugi samkvæmt 4. mgr. 3. gr. c í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins, sem vísað er til í tölul. 21apb í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 87/2011, frá 1. júlí 2011. Ákvörðunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 54, frá 6. október 2011, 2011/EES/54/29, bls. 74-75.
- Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2011/389/ESB frá 30. júní 2011 um samanlagðan fjölda losunarheimilda í Sambandinu sem um getur í a-d-lið 3. mgr. 3. gr. e í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins, sem vísað er til í tölul. 21apc í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2011, frá 20. júlí 2011. Ákvörðunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 54, frá 6. október 2011, 2011/EES/54/35, bls. 82-84.
- Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2011/638/ESB frá 26. september 2011 um viðmiðanir vegna úthlutunar heimilda til losunar gróðurhúsalofttegunda án endurgjalds til umráðenda loftfara skv. 3. gr. e í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB, sem vísað er til í tölul. 21apd í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 122/2011, frá 21. október 2011. Ákvörðunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 70, frá 22. desember 2011, 2011/EES/70/12, bls. 24.
- Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2014/389/ESB frá 23. júní 2014 um frekari fyrri losun frá flugi og viðbótarlosunarheimildir vegna flugs með tilliti til aðildar Króatíu að Evrópusambandinu, sem vísað er til í tölul. 21api í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 294/2014, frá 12. desember 2014. Ákvörðunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 55, frá 17. september 2015, 2015/EES/55/08, bls. 31-33.
- Framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/775 frá 18. maí 2016 um viðmiðun vegna úthlutunar heimilda til losunar gróðurhúsalofttegunda án endurgjalds til umráðenda loftfara skv. 5. mgr. 3. gr. f í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB, sem vísað er til í tölul. 21ali í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 252/2016 frá 2. desember 2016. Ákvörðunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 24, frá 20. apríl 2017, 2017/EES/24/03, bls. 16-17.
EES-gerðir um breytingar eða viðbætur við tilskipun 2003/87/EB hvað varðar flugrekendur:
- Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 421/2014 frá 16. apríl 2014 um breytingu á tilskipun 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins með tilliti til framkvæmdar á alþjóðasamningi um beitingu sameiginlegrar markaðstengdrar heildarráðstöfunar um alþjóðlega losun frá flugi frá árinu 2020, sem vísað er til í tölul. 21al í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 62/2014, frá 30. apríl 2014. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 54, frá 25. september 2014, 2014/EES/54/93, bls. 884-887.
- Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2392 frá 13. desember 2017 um breytingu á tilskipun 2003/87/EB til að viðhalda núverandi takmörkunum á umfangi flugstarfsemi og til að undirbúa framkvæmd hnattrænnar markaðstengdrar ráðstöfunar frá 2021, sem vísað er til í tölul. 21al í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 99/2018, frá 27. apríl 2018. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, nr. 33, frá 17. maí 2018, 2018/EES/33/26, bls. 245-252.
- Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/1603 frá 18. júlí 2019 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB að því er varðar ráðstafanir sem Alþjóðaflugmálastofnunin samþykkti vegna vöktunar, skýrslugjafar og sannprófunar á losun frá flugi í þeim tilgangi að koma hnattrænni markaðstengdri ráðstöfun til framkvæmda, sem vísað er til í tölul. 21apm í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 74/2021, frá 5. febrúar 2021. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 22, frá 25. mars 2021, 2021/EES/22/108, bls. 643-646.
Aðrar EES-gerðir er varða flugrekendur:
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 606/2010 frá 9. júlí 2010 um samþykki á einfölduðu tæki sem Evrópustofnun um öryggi flugleiðsögu (Eurocontrol) hefur þróað til að áætla eldsneytisnotkun tiltekinna umráðenda loftfara sem losa lítið, sem vísað er til í tölul. 21ape í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 185/2012, frá 28. september 2012. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 67 frá 29. nóvember 2012, 2012/EES/67/55, bls. 520-521.
X. KAFLI Lagastoð og gildistaka.
34. gr.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 6. mgr. 8. gr., 5. mgr. 9. gr., 4. mgr. 16. gr., 6. mgr. 18. gr., 9. mgr. 19. gr., 5. mgr. 21. gr. b, 27. gr. a, 27. gr. b, 33. gr., 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis IV og 6. mgr. bráðabirgðaákvæðis V laga nr. 70/2012 um loftslagsmál. Reglugerðin öðlast gildi við birtingu og falla þá jafnframt eftirtaldar reglugerðir úr gildi, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða:
- Reglugerð nr. 896/2012 um hvaða flugrekendur heyra undir umsjón Íslands í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, ásamt reglugerð nr. 782/2013, reglugerð nr. 413/2014, reglugerð nr. 791/2015, reglugerð nr. 909/2016, reglugerð nr. 788/2017, reglugerð nr. 887/2018, reglugerð nr. 822/2019 og reglugerð nr. 943/2019.
- Reglugerð nr. 897/2012 um losunarheimildir og einingar sem viðurkenndar eru í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, ásamt reglugerð nr. 964/2013 og reglugerð nr. 364/2014.
- Reglugerð nr. 70/2013 um losunarleyfi rekstraraðila í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, ásamt reglugerð nr. 823/2013.
- Reglugerð nr. 72/2013 um vöktun og skýrslugjöf í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, ásamt reglugerð nr. 352/2014, reglugerð nr. 662/2014, reglugerð nr. 133/2015 og reglugerð nr. 532/2020.
- Reglugerð nr. 73/2013 um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til rekstraraðila staðbundinnar starfsemi í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, ásamt reglugerð nr. 128/2014, reglugerð nr. 16/2015 og reglugerð nr. 908/2017.
- Reglugerð nr. 131/2013 um vottun og viðurkenningu vottunaraðila í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, ásamt reglugerð nr. 1139/2013 og reglugerð nr. 533/2020.
- Reglugerð nr. 540/2014 um innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 421/2014 frá 16. apríl 2014 um breytingu á tilskipun 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins með tilliti til framkvæmdar á alþjóðasamningi um beitingu sameiginlegrar markaðstengdrar heildarráðstöfunar um alþjóðlega losun frá flugi frá árinu 2020.
- Reglugerð nr. 100/2016 um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til flugrekenda, ásamt reglugerð nr. 886/2018.
- Reglugerð nr. 601/2018 um innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2392 frá 13. desember 2017 sem breytir tilskipun 2003/87/EB um áframhald takmörkunar gildissviðs flugstarfsemi til þess að undirbúa innleiðingu hnattræns samkomulags frá 2021.
- Reglugerð nr. 1170/2020 um innleiðingu á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/1842 um reglur um beitingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB að því er varðar frekari ráðstafanir til að aðlaga úthlutanir losunarheimilda án endurgjalds vegna breytinga á starfsemisstigi.
Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Þrátt fyrir d-lið 34. gr. skal reglugerð nr. 70/2013 sem innleiðir ákvæði reglugerðar (ESB) nr. 601/2012 gilda áfram að því er varðar vöktun, skýrslugjöf og vottun losunar og, eftir atvikum, gögn um starfsemi sem átti sér stað fyrir 1. janúar 2021.
II.
Þrátt fyrir e-lið 34. gr. skal reglugerð nr. 73/2013 gilda áfram um úthlutanir sem varða tímabilið fyrir 1. janúar 2021.
III.
Þrátt fyrir f-lið 34. gr. skal reglugerð nr. 131/2013 sem innleiðir ákvæði reglugerðar (ESB) nr. 600/2012 gilda áfram að því er varðar vottun losunar og, eftir atvikum, gögn um starfsemi sem átti sér stað fyrir 1. janúar 2019.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 11. maí 2021.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
Sigríður Auður Arnardóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.