Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 22. des. 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 29. maí 2021

70/2013

Reglugerð um losunarleyfi rekstraraðila í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og tryggja að rekstraraðilar starfsstöðva sem heyra undir gildissvið viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir uppfylli skilyrði fyrir þátttöku í kerfinu.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um losunarleyfi rekstraraðila sem heyra undir gildissvið viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir skv. lögum nr. 70/2012 um loftslagsmál, þ. á m. um skilyrði fyrir útgáfu losunarleyfis, form og efni losunarleyfis, málsmeðferð við útgáfu losunarleyfis og breytingar á losunarleyfi.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari skulu orð og orðasambönd hafa eftirfarandi merkingu:

Búnaður: Allar tegundir sjóðara, brennara, hitara, hverfla, ofna, brennsluofna, kalkofna, hverfiofna, þurrkara, véla, afgasbrennara, efnarafala, eftirbrennslueininga og annars konar búnaður sem notaður er í starfsemi.

Gróðurhúsalofttegundir: Lofttegundir sem tilgreindar eru í III. viðauka laga nr. 70/2012 um loftslagsmál.

Hráefni: Efni sem notuð eru við framleiðslu á vörum. Hráefni eru oft náttúruauðlindir, s.s. kol, olía og málmgrýti.

Hjálparefni: Efni sem notuð eru í ákveðnum tæknilegum tilgangi við framleiðslu á vöru, án þess að efnunum sé ætlað að koma fyrir eða hafa áhrif í fullunninni vöru.

Koldíoxíðsígildi: Eitt tonn af koldíoxíðsígildi samsvarar einu tonni af koldíoxíði eða því magni gróðurhúsalofttegunda sem hefur sambærilegan hnatthlýnunarmátt.

Losun gróðurhúsalofttegunda: Útstreymi gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið af mannavöldum.

Losunarheimild: Heimild til losunar gróðurhúsalofttegunda. Ein losunarheimild jafngildir heimild til losunar á einu tonni af koldíoxíðsígildi á tilteknu tímabili.

Losunarleyfi: Leyfi til losunar gróðurhúsalofttegunda sem rekstraraðila ber að hafa til þess að geta stundað starfsemi sem getið er í I. viðauka laga nr. 70/2012 um loftslagsmál og sótt um og fengið úthlutað losunarheimildum.

Rekstraraðili: Aðili sem starfrækir eða stjórnar starfsstöð eða ber fjárhagslega ábyrgð á tæknilegri virkni starfsstöðvar þar sem fram fer starfsemi sem getið er í I. viðauka laga nr. 70/2012 um loftslagsmál.

Starfsstöð: Staðbundin tæknileg eining þar sem fram fer ein eða fleiri tegundir starfsemi sem getið er í I. viðauka laga nr. 70/2012 um loftslagsmál og öll önnur starfsemi sem gæti haft áhrif á losun og mengun og tengist með beinum og tæknilegum hætti þeirri starfsemi sem fram fer á staðnum.

Verulegar breytingar á rekstri starfsstöðvar: Veruleg aukning á framleiðslugetu, veruleg minnkun á framleiðslugetu, varanleg stöðvun starfsemi, tímabundin stöðvun starfsemi eða stöðvun starfsemi að hluta, sbr. reglugerð um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til rekstraraðila staðbundinnar starfsemi í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir: Kerfi sem starfrækt er á Evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt tilskipun 2003/87/EB, með síðari breytingum, sbr. samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

4. gr. Umhverfisstofnun.

Umhverfisstofnun fer með útgáfu losunarleyfa og ber að tryggja að kröfur og skilyrði í losunarleyfum og veiting þeirra sé í samræmi við ákvæði laga og reglugerða þar að lútandi.

Stjórnvaldsákvarðanir Umhverfisstofnunar samkvæmt reglugerð þessari eru kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum sem um úrskurðarnefndina gilda.

5. gr. Skylda til að hafa losunarleyfi.

Rekstraraðilar sem stunda starfsemi sem getið er í I. viðauka laga nr. 70/2012 um loftslagsmál skulu hafa losunarleyfi. Óheimilt er að stunda starfsemi sem getið er í viðaukanum nema losunarleyfi sé í gildi á þeim tíma sem starfsemin fer fram.

Þrátt fyrir 1. mgr. er rekstraraðilum starfsstöðva sem undanskildar hafa verið gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir ekki skylt að hafa losunarleyfi. Ef ljóst er að starfsstöð uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir því að vera undanskilin gildissviði viðskiptakerfisins ber rekstraraðila án tafar að sækja um losunarleyfi í samræmi við reglugerð þessa.

Ef rekstraraðili starfrækir fleiri en eina starfsstöð skal hver starfsstöð fyrir sig hafa losunarleyfi. Þó getur Umhverfisstofnun ákveðið að gefa út eitt losunarleyfi fyrir fleiri en eina starfsstöð sem staðsettar eru á sömu lóð og starfræktar eru af sama rekstraraðila ef stofnunin telur nægileg tengsl milli viðkomandi starfsemi. Í slíkum tilvikum skal hver starfsstöð um sig þó hafa vöktunaráætlun skv. d-lið 2. mgr. 6. gr. reglugerðar þessarar.

6. gr. Umsókn um losunarleyfi.

Rekstraraðili skal senda umsókn um losunarleyfi til Umhverfisstofnunar um leið og ljóst verður að starfsemi hans heyrir undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

Umsókn um losunarleyfi skal hafa að geyma:

  1. lýsingu á starfsstöð og starfsemi rekstraraðila, þ. á m. þeirri tækni sem notuð er,
  2. lýsingu á hráefnum, hjálparefnum og búnaði sem notuð eru í starfseminni og má ætla að valdi losun gróðurhúsalofttegunda, þ.m.t. upplýsingar um nafnvarmaafl búnaðar,
  3. lýsingu á uppsprettum gróðurhúsalofttegunda frá viðkomandi starfsstöð,
  4. vöktunaráætlun sem samræmist ákvæðum reglugerðar um vöktun og skýrslugjöf í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, og
  5. samantekt á almennu máli um þau atriði sem getið er í a-d-lið.

Umhverfisstofnun er heimilt að krefjast þess að umsókn sé skilað á sérstöku eyðublaði sem stofnunin lætur rekstraraðilum í té. Umhverfisstofnun er einnig heimilt að krefjast þess að gögnum sé skilað á rafrænu formi sem stofnunin ákveður.

Ef Umhverfisstofnun telur umsókn um losunarleyfi ófullnægjandi skal hún gera rekstraraðila grein fyrir því hvaða gögn eða upplýsingar skortir og gefa honum hæfilegan frest til að bæta úr. Umsókn telst hafa borist Umhverfisstofnun á þeim degi þegar fullnægjandi gögn eða upplýsingar berast.

7. gr. Skilyrði losunarleyfis.

Losunarleyfi skal því aðeins gefið út fyrir starfsstöð að Umhverfisstofnun telji umsókn sýna fram á að rekstraraðili viðkomandi starfsstöðvar uppfylli skilyrði reglugerðar þessarar og sé fær um að vakta losun frá starfsstöð sinni og gefa um hana árlega skýrslu í samræmi við reglugerð um vöktun og skýrslugjöf í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

8. gr. Útgáfa losunarleyfis.

Umhverfisstofnun skal taka ákvörðun um útgáfu losunarleyfis innan þriggja mánaða frá því að umsókn berst stofnuninni.

Ef Umhverfisstofnun telur skilyrði ekki uppfyllt fyrir útgáfu losunarleyfis skal stofnunin tilkynna rekstraraðila um að fyrirhugað sé að hafna umsókn hans og upplýsa um ástæður þess. Rekstraraðila skal veittur tveggja vikna frestur til að gera nauðsynlegar úrbætur. Ef Umhverfisstofnun telur skilyrði ekki uppfyllt fyrir útgáfu losunarleyfis að frestinum liðnum skal hún hafna umsókninni.

9. gr. Efni losunarleyfis.

Í losunarleyfi skal eftirfarandi koma fram:

  1. nafn og heimilisfang rekstraraðila,
  2. lýsing á starfsemi og losun gróðurhúsalofttegunda frá henni,
  3. skilyrði um að vöktun, þ.m.t. aðferðafræði og tíðni vöktunar, samræmist ákvæðum reglugerðar um vöktun og skýrslugjöf í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir,
  4. skilyrði um að rekstraraðili skili árlega skýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við ákvæði reglugerðar um vöktun og skýrslugjöf í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, og
  5. ákvæði um skyldu til að standa skil á losunarheimildum, öðrum en losunarheimildum sem gefnar hafa verið út til flugstarfsemi.

10. gr. Gildistími og endurskoðun losunarleyfis.

Losunarleyfi skal vera ótímabundið.

Umhverfisstofnun skal endurskoða losunarleyfi eigi sjaldnar en á fimm ára fresti og gera á því breytingar ef þörf er á. Endurskoðun losunarleyfis skal, ef unnt er, fara fram samhliða endurskoðun starfsleyfis viðkomandi starfsstöðvar skv. IX. kafla reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Umhverfisstofnun er þó heimilt að endurskoða losunarleyfi hvenær sem er og gera á því breytingar vegna breyttra forsendna, svo sem ef losun af völdum starfseminnar er meiri en búist var við þegar leyfið var gefið út, ef breytingar verða á rekstrinum sem varðað geta ákvæði losunarleyfis, vegna tækniþróunar eða vegna breytinga á lögum og reglugerðum er varða losunarleyfi. Ávallt skal endurskoða losunarleyfi ef verulegar breytingar verða á rekstri starfsstöðvar. Rekstraraðila skal tilkynnt um væntanlega endurskoðun á losunarleyfi og honum veitt tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Ef endurskoðun leiðir í ljós að gera þarf breytingar á losunarleyfi skal Umhverfisstofnun tilkynna rekstraraðila um þá afstöðu og veita honum hæfilegan frest til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Rekstraraðili skal verða við ósk Umhverfisstofnunar um upplýsingar sem stofnuninni eru nauðsynlegar til að meta þörf á breytingum á losunarleyfi eða til að gera viðeigandi breytingar á losunarleyfi.

Ef breytingar eru umfangsmiklar er Umhverfisstofnun heimilt að leggja fyrir rekstraraðila að sækja um nýtt losunarleyfi í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.

Rekstraraðilum er heimilt að uppfæra vöktunaráætlun skv. d-lið 2. mgr. 6. gr. reglugerðar þessarar án þess að gefa þurfi út nýtt losunarleyfi. Um breytingar á vöktunaráætlun fer skv. reglugerð um vöktun og skýrslugjöf í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

11. gr. Upplýsingaskylda rekstraraðila.

Rekstraraðilar skulu tilkynna Umhverfisstofnun tafarlaust með skriflegum hætti um allar fyrirhugaðar breytingar á rekstri starfsstöðvar sem geta haft áhrif á efni losunarleyfis.

12. gr. Niðurfelling losunarleyfis.

Umhverfisstofnun er heimilt að fella niður losunarleyfi ef forsendur þess bresta, s.s. ef starfsemi er hætt eða ef endurskoðað mat á starfsemi leiðir í ljós að hún fellur ekki undir I. viðauka laga nr. 70/2012 um loftslagsmál. Ef Umhverfisstofnun fyrirhugar að taka ákvörðun um niðurfellingu losunarleyfis skal hún senda rekstraraðila tilkynningu þar sem ástæður þess eru tilgreindar og veita honum hæfilegan frest til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en ákvörðun er tekin.

13. gr. Handhafi losunarleyfis.

Losunarleyfi skal gefið út til rekstraraðila þeirrar starfsemi sem leyfið tekur til. Handhafi losunarleyfis skal vera sá sami og handhafi starfsleyfis sem gefið hefur verið út vegna viðkomandi starfsemi. Ef nýr rekstraraðili kemur að starfsemi sem hefur gilt losunarleyfi er heimilt að færa losunarleyfið yfir á nýjan rekstraraðila án þess að gefið verði út nýtt losunarleyfi. Ef nauðsynlegt er að gefa út nýtt starfsleyfi skv. 2. mgr. 27. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun skal þó einnig sótt um nýtt losunarleyfi í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.

14. gr. Tengsl við starfsleyfi.

Umhverfisstofnun skal eftir því sem mögulegt er leitast við að samræma málsmeðferð við útgáfu og endurskoðun losunarleyfa við málsmeðferð vegna starfsleyfa skv. reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, í þeim tilgangi að draga úr stjórnsýslubyrði og kostnaði.

15. gr. Auglýsing losunarleyfis.

Ákvarðanir Umhverfisstofnunar um útgáfu og niðurfellingu losunarleyfis skulu auglýstar í B-deild Stjórnartíðinda.

16. gr. Aðgangur að upplýsingum.

Almenningur skal hafa aðgang að losunarleyfi hjá Umhverfisstofnun í samræmi við ákvæði laga um upplýsingarétt um umhverfismál.

17. gr. Þagnarskylda starfsmanna.

Starfsfólk Umhverfisstofnunar sem sinnir verkefnum skv. reglugerð þessari er bundið trúnaði um allar trúnaðarupplýsingar sem það verður áskynja í starfi sínu og leynt skulu fara. Undir trúnaðarupplýsingar heyra m.a. upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni rekstraraðila. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

Rekstraraðilar geta óskað eftir því að litið verði á tilteknar upplýsingar sem sendar eru Umhverfisstofnun skv. reglugerð þessari sem trúnaðarupplýsingar. Ef ósk berst um afhendingu slíkra upplýsinga er Umhverfisstofnun óheimilt að afhenda þær nema rekstraraðila hafi verið veittur a.m.k. sjö daga frestur til að tjá sig um framkomna beiðni.

Þrátt fyrir ákvæði þessarar greinar geta upplýsingar sem skulu koma fram í losunarleyfi skv. 9. gr. reglugerðar þessarar aldrei talist trúnaðarupplýsingar.

18. gr. Þvingunarúrræði og viðurlög.

Um þvingunarúrræði og viðurlög fer skv. XIII. kafla laga nr. 70/2012 um loftslagsmál.

19. gr. Innleiðing EES-gerða.

Reglugerðin er sett til innleiðingar á 4.-8. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB frá 13. október 2003 um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan bandalagsins og um breytingu á tilskipun ráðsins 96/61/EB, eins og henni var breytt með tilskipun 2008/101/EB og tilskipun 2009/29/EB, sbr. tölulið 21al í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2007, frá 27. október 2007, nr. 6/2011, frá 1. apríl 2011, og nr. 152/2012, frá 26. júlí 2012, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af reglugerð þessari, XX. viðauka samningsins, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans.

20. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 8. mgr. 8. gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Losunarleyfi sem gefin voru út skv. ákvæðum laga nr. 65/2007 um losun gróðurhúsalofttegunda halda gildi sínu til 15. ágúst 2014. Rekstraraðilar skulu senda Umhverfisstofnun umsókn um nýtt losunarleyfi skv. reglugerð þessari í síðasta lagi 15. maí 2014.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.