Frá 1. janúar 2026 skal greiða kílómetragjald af öllum ökutækjum, óháð orkugjafa. Gjaldið ræðst af þyngd ökutækis.
Eigendur rafmagns-, tengiltvinn- og vetnisbifreiða sem skráð hafa kílómetrastöðu síðastliðin 2 ár halda áfram að skrá kílómetrastöðu að minnsta kosti einu sinni á ári.
Mikilvægar dagsetningar fyrir fyrstu skráningu
20. janúar 2026 - Síðasti skráningardagur Skrá þarf kílómetrastöðuna á Mínum síðum eða í Ísland.is appinu í síðasta lagi þennan dag ef engin skráning hefur verið gerð á árinu 2025.
1. febrúar 2026 - Fyrsti gjalddagi Gjalddagi kílómetragjalds fyrir akstur í janúar. Reikningurinn byggist á reiknuðum meðalakstri eða áætlun ríkisskattstjóra um meðalakstur ef ekki eru til tvær skráningar kílómetrastöðu. Eindagi er 14 dögum síðar.
1. apríl 2026 - Vanskráningargjald Vanskráningargjald að upphæð 20.000 kr. leggst á þá sem ekki hafa skráð kílómetrastöðuna. Ef engin skráning hefur verið gerð fyrir 1. apríl getur þú ekki lengur skráð rafrænt og verður að fara með bílinn á skoðunarstöð til að láta lesa af mælinum. Vanskráningargjald fellur niður ef þú mætir á skoðunarstöð innan 30 daga frá álagningu gjaldsins.
Gjald
Gjaldið er 6,95 krónur á hvern kílómetra fyrir bifreiðar og jeppa upp í 3,5 tonn.
Gjaldtakan er mjög áþekk því sem tíðkast í veitureikningum fyrir rafmagn og heitt vatn. Áætlun á þínum meðalakstri byggir á þínum skráningum. Innheimt er samkvæmt áætlun þangað til þú skráir næst. Við hverja skráningu verður til ný áætlun á meðalakstri og um leið er gert uppgjör fyrir liðin tímabil.
með því að panta tíma í sérstakan álestur, Aðalskoðun og Frumherji bjóða upp á slíka þjónustu
með öppum eins og til dæmis N1 appinu
Tíðni og framkvæmd skráninga
Bifhjól og bifreiðar, eftirvagnar og dráttarvélar upp að 10 tonnum
Tíðni: Að lágmarki einu sinni á ári en leyfilegt er að skrá á 30 daga fresti.
Framkvæmd: Skráning skal gerð af eiganda eða umráðamanni ökutækis, faggiltri skoðunarstofu eða við reglubundna skoðun.
Vörubílar, rútur, eftirvagnar og dráttarvélar þyngri en 10 tonn
Tíðni: Að lágmarki á 6 mánaða fresti en leyfilegt er að skrá hvenær sem er.
Framkvæmd: Að minnsta kosti einu sinni á ári þarf skráningin að vera framkvæmd af álestraraðila, til dæmis við aðalskoðun. Hina skráninguna getur eigandi eða umráðamaður gert sjálfur eða pantað álestur hjá faggiltri skoðunarstofu.
Bílaleigubílar
Tíðni: Að lágmarki á 6 mánaða fresti en leyfilegt er að skrá hvenær sem er.
Um leigutaka bílaleigubíla í langtímaleigu, sem skráðir eru umráðamenn í ökutækjaskrá, gilda almennar reglur um tíðni og framkvæmd skráninga.
Skráningar á síðasta degi mánaðar taka gildi næsta dag.
Ef þú skráir ranga tölu getur þú skráð aftur sama dag og þá gildir seinni talan. Á miðnætti lokast fyrir skráningar næstu 30 daga.
Ef ekki næst að leiðrétta skráninguna innan dagsins og of há kílómetrastaða skráð þarf að fara með ökutækið í álestur á skoðunarstöð til þess að skrá inn rétta stöðu.
Síðan þarf að skrá aftur 30 dögum síðar á Ísland.is til þess að hafa tvær réttar skráningar frá þeirri röngu.
Ef meira en ár er liðið frá síðustu skráningu
getur þú ekki skráð lengur sjálfur og þarft að láta skrá stöðuna hjá faggiltri skoðunarstofu ökutækja
hækkar áætlunin þín upp hærri viðmiðunartölur (60 km/dag fyrir einstaklinga og 165 km fyrir fyrirtæki og stofnanir)
leggst á vanskráningargjald sem er 20.000 kr. fyrir bíla upp að 10 tonn og 40.000 kr. fyrir bíla sem eru þyngri en 10 tonn.
Við eigendaskipti eða skráningu á nýjum umráðamanni bifreiðar í ökutækjaskrá þarf að skrá kílómetrastöðu á akstursmæli.
Kaupandi eða nýr umráðamaður þarf að samþykkja skráða stöðu kílómetramælis. Við breytinguna er uppgjör sent á seljanda.
Nýr eigandi eða umráðamaður tekur við greiðslu kílómetragjalds næsta dag eftir skráningu á eigendaskiptum.
Ef ekki er hægt að lesa af mæli, til dæmis vegna þess að bíllinn er týndur eða ónýtur er miðað við þær skráningar sem til eru. Ef engar skráningar eru til er miðað við áætlun ríkisskattsstjóra á meðalakstri.
Þegar bifreið er flutt úr landi og síðar afskráð án þess að vera flutt aftur til Íslands þarf ekki að skrá stöðu á kílómetramæli við afskráningu ef staða kílómetramælis var skráð við útflutning.
Ökutæki skráð úr umferð
Ekki þarf að greiða kílómetragjald af ökutækjum sem hafa verið skráð úr umferð.
Samhliða beiðni um skráningu ökutækis úr umferð þarf að skrá kílómetrastöðuna. Uppgjör síðasta tímabils kemur um næstu mánaðarmót.
Óheimilt er að skrá ökutæki aftur í umferð nema gjaldfallið kílómetragjald (og eftir atvikum vanskráningargjald, dráttarvextir og innheimtukostnaður) sé greitt.
Skilyrði fyrir undanþágunni er að gjaldskyldur eigandi eða umráðamaður skrái stöðu akstursmælis ökutækis:
við brottför frá landinu
við komu til landsins
ásamt því að tilgreina að um tímabundinn flutning úr landi sé að ræða
Tollyfirvöldum er heimilt að staðreyna skráningu gjaldskylds aðila.
Ef ökutæki er 10 tonn eða meira að leyfðri heildarþyngd munu tollyfirvöld lesa af mæli við brottför og komu ökutækis til að staðfesta rétta skráningu gjaldskylds aðila.
Sækja þarf sérstaklega um niðurfellingu kílómetragjalds vegna aksturs erlendis til ríkisskattstjóra eftir að ökutækið er komið aftur til landsins. Framvísa þarf staðfestingu á tímabundnum útflutningi.
Uppgjör við flutning úr landi
Við skráningu á stöðu akstursmælis vegna flutnings ökutækis úr landi þarf að gera upp kílómetragjald frá síðustu skráningu.
Skráningar sem gilda til útreiknings kílómetragjalds:
Í hvert sinn sem eftirtaldar breytingar eru gerðar á skráningu í ökutækjaskrá:
Ökutæki skráð tímabundið úr umferð.
Skráð er breyting á notkun ökutækis.
Tilkynnt er um eigendaskipti eða breyting gerð á skráningu umráðamanns.
Ökutæki er nýskráð, afskráð eða sótt er um endurgreiðslu á skilagjaldi ökutækis.
Skráningar sem gilda ekki til útreiknings:
Þegar ökutæki fara í viðgerð.
Þegar tryggingatjón verður.
Þegar lögregla telur þörf á, til dæmis ef ökumaður hefur verið stöðvaður við umferðareftirlit.
Mánaðarleg greiðsla
Áætlun á meðalakstri
Fjárhæð kílómetragjalds byggir á áætlun á þínum meðalakstri sem unnin er út frá þeim gögnum sem til eru.
Ef þú átt tvær skráningar á kílómetrastöðu er áætlunin byggð á meðalakstri þínum á því tímabili. Dæmi: Ef meðaltalið á síðasta tímabili var 30 km/dag þá er gert ráð fyrir að þú haldir áfram að keyra 30 km/dag og þú færð reikning miðað við það.
Greiðslan er mánaðarleg bráðabirgðagreiðsla fram að næstu skráningu.
Gjaldið er eftirágreitt og greiðist mánaðarlega. Greiðsluseðill er sendur í netbanka.
Gjalddagi og eindagi
Gjalddagi greiðslu samkvæmt áætlun á meðalakstri er fyrsti dagur hvers mánaðar og eindagi 14 dögum síðar. Ef eindagi lendir á frídegi færist hann yfir á næsta virka dag. Dráttarvextir reiknast frá eindaga.
Ef kílómetragjald er ógreitt á eindaga getur þú ekki farið með ökutækið í aðalskoðun. Lögreglu er heimilt að taka númeraplötur af ökutækinu til geymslu þangað til gjaldið hefur verið greitt.
Uppgjör
Álagning byggð á raunakstri
Þegar þú skráir kílómetrastöðu er gert uppgjör sem leiðréttir greiðslurnar þínar aftur í tímann. Gerður er upp mismunur á áætluðum akstri og raunakstri á tímabilinu.
Dæmi: Ef liðnir eru 100 dagar milli skráninga og þú keyrðir 4.000 km, þá er meðalaksturinn 40 km á dag á tímabilinu.
Ef áætlunin gerði ráð fyrir að meðalaksturinn væri 50 km/dag þá áttu inneign. Ef þú skuldar ríkissjóði þá gengur inneignin upp í skuldina.
Ef áætlunin byggði á að meðalaksturinn væri 30 km/dag þá hefur þú greitt of lítið og færð reikning fyrir mismuninum.
Ef þú skráir ekki innan tímamarka hækkar áætlun á meðakstri frá þeim tíma samkvæmt áætlun ríkisskattstjóra.
Uppgjörsgreiðsla
Við hverja skráningu á raunakstri er gert uppgjör.
Gjaldið er eftirágreitt og greiðsluseðill er sendur í netbanka.
Tveir reikningar
Ef áætlun á meðalakstri var of lág á síðasta tímabili berast tveir reikningar eftir að uppgjör hefur farið fram:
Reikningur fyrir því sem upp á vantaði miðað við raunakstur á síðasta tímabili.
Reikningur samkvæmt nýrri áætlun á meðalakstri.
Gjalddagi og eindagi
Gjalddagi við uppgjör er fyrsti dagur annars mánaðar eftir síðustu skráningu og eindagi 14 dögum síðar. Ef eindagi lendir á frídegi færist hann yfir á næsta virka dag. Dráttarvextir reiknast frá eindaga.
Dæmi: Ef þú skráir 24. mars þá er áætlun fyrir mars gerð út frá þeirri skráningu. Uppgjör fyrir tímabilin þar á undan berst 1. maí.
Eigendur rafmangs-, tengiltvinn- og vetnisbifreiða hafa skráð kílómetrastöðu og greitt kílómetragjald frá árinu 2024. Skráning á stöðu kílómetramælis þessara bifreiða á árinu 2026 kallar á uppgjör á meðalakstri vegna tímabila frá síðasta álestri. Það getur náð til tímabila á árinu 2025.
Fyrirkomulag uppgjörsins fer eftir því hver fjárhæð kílómetragjalds var þá.
Kílómetragjald var á árinu 2025:
6 krónur á hvern kílómetra fyrir rafmagnsbíla og vetnisbíla.
2 krónur á hvern kílómetra fyrir tengiltvinnbíla (aðeins plug-in).
Greiðandi
Skráður eigandi er almennt sá sem ber ábyrgð á greiðslu gjaldsins.
Ef bifreið er á leigusamningi (svo sem fjármögnunarleigu eða langtímaleigu) færist gjaldskyldan yfir á skráðan umráðamann í ökutækjaskrá.
Eigandi og umráðamaður bera þó óskipta ábyrgð á greiðslu kílómetragjalds, sektum og öðrum kostnaði, sem þýðir að innheimtumaður getur gengið að hvorum aðilanum sem er.
Leiðréttingar og viðurlög
Leiðrétting á áætlun eða álagningu kílómetragjalds
Álagningu kílómetragjalds og vanskráningargjalds má kæra til ríkisskattstjóra innan 30 daga frá birtingu í stafrænu pósthólfi.
Ríkisskattstjóri hefur þrjá mánuði til að úrskurða.
Kæra til yfirskattanefndar
Heimilt er að kæra úrskurð ríkisskattstjóra og endurákvörðun til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæðum laga um yfirskattanefnd.
Ef þú skráir ekki kílómetrastöðu að minnsta kosti einu sinni á hverju ári er vanskráningargjald lagt á eiganda bifreiðar og hann boðaður í álestur á stöðu kílómetramælis hjá skoðunarstofu.
Fjárhæð vanskráningargjalds
20.000 krónur vegna ökutækis sem er undir 10 tonn.
40.000 krónur vegna ökutækis sem er 10 tonn og þyngri
Vanskráningargjald lækkar um 50% ef þú greiðir gjaldið og lætur skrá stöðuna hjá faggiltri skoðunarstofu innan 30 daga.
Ef skráning hefur ekki verið gerð þremur mánuðum eftir álagningu vanskráningargjalds má lögreglan fjarlægja skráningarmerki. Merkin eru afhent aftur eftir að skráning hjá faggiltri skoðunarstofu hefur farið fram.
Eigandi og umráðamaður bera óskipta ábyrgð á greiðslu vanskráningargjalds, sem þýðir að innheimtumaður getur gengið að hvorum aðilanum sem er.
Aðrar reglur giltu á árunum 2024 og 2025
Afleiðingar þess að skrá ekki kílómetrastöðu að minnsta kosti einu sinni á hverju ári:
Innheimt er vanskráningargjald að upphæð 50.000 krónur eftir 30. janúar.
Eigandi er boðaður í álestur á stöðu kílómetramælis hjá skoðunarstofu.
Vanskráningargjald lækkar um 50% ef þú lætur skrá stöðuna hjá faggiltri skoðunarstofu innan 15 daga.
Ef skráning hefur ekki verið gerð þremur mánuðum eftir álagningu vanskráningargjalds má lögreglan fjarlægja skráningarmerki. Merkin eru afhent aftur eftir að skráning hjá faggiltri skoðunarstofu hefur farið fram.
Afleiðingar þess að greiða ekki kílómetragjaldið.
Synjun um reglubundna skoðun.
Ef gjaldfallinn reikningur vegna kílómetragjalds er kominn fram yfir eindaga skal skoðunarmaður neita um skoðun.
Engin eigendaskipti. Kílómetragjald seljanda þarf að vera greitt svo hægt sé að skrá eigendaskipti.
Fjarlægja má númeraplötur. Lögregla má taka númeraplötur til geymslu ef kílómetragjald hefur ekki verið greitt á eindaga eða ef vanskráningargjald hefur ekki verið greitt innan þriggja mánaða og kílómetrastaðan enn óskráð.
Krefjast má nauðungarsölu. Ógreitt kílómetragjald, vanrækslugjald, dráttarvextir og innheimtukostnaður hvílir sem lögveð á bílnum. Þetta veð (skuld) hefur forgang fram yfir önnur veð sem gætu verið á bílnum, til dæmis vangreidd bílalán. Það þýðir að krefjast má nauðungarsölu á bílnum upp í skuldirnar án dóms, sáttar eða fjárnáms.
Framkvæma má fjárnám.
Einnig er heimilt að innheimta gjaldfallnar skuldir vegna kílómetragjalds og vanrækslugjalds með fjárnámi hjá skráðum eiganda eða umráðamanni án dóms, sáttar eða fjárnáms.
Ríkisskattstjóri fer með eftirlit með forsendum fyrir álagningu kílómetragjalds og annarra atriða sem ætlað er að tryggja að rétt sé staðið að skilum á gögnum og upplýsingum. Það á bæði við um gjaldskylda aðila svo og þá sem eru skilaskyldir, svo sem skoðunarstofur og verkstæði.
Brot á lögum um kílómetragjald geta leitt til sekta og stórfelld brot geta varðað við fangelsi.
Hafðu samband
Ertu með fyrirspurn um kílómetragjald? Sendu okkur línu á km@skatturinn.is