Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Frá 1. janúar 2026 skal greiða kílómetragjald af öllum ökutækjum, óháð orkugjafa. Gjaldið ræðst af þyngd ökutækis.

Eigendur rafmagns-, tengiltvinn- og vetnisbifreiða sem skráð hafa kílómetrastöðu síðastliðin 2 ár halda áfram að skrá kílómetrastöðu að minnsta kosti einu sinni á ári.


Mikilvægar dagsetningar fyrir fyrstu skráningu

  • 20. janúar 2026 - Síðasti skráningardagur
    Skrá þarf kílómetrastöðuna á Mínum síðum eða í Ísland.is appinu í síðasta lagi þennan dag ef engin skráning hefur verið gerð á árinu 2025.

  • 1. febrúar 2026 - Fyrsti gjalddagi
    Gjalddagi kílómetragjalds fyrir akstur í janúar. Reikningurinn byggist á reiknuðum meðalakstri eða áætlun ríkisskattstjóra um meðalakstur ef ekki eru til tvær skráningar kílómetrastöðu. Eindagi er 14 dögum síðar.

  • 1. apríl 2026 - Vanskráningargjald
    Vanskráningargjald að upphæð 20.000 kr. leggst á þá sem ekki hafa skráð kílómetrastöðuna. Ef engin skráning hefur verið gerð fyrir 1. apríl getur þú ekki lengur skráð rafrænt og verður að fara með bílinn á skoðunarstöð til að láta lesa af mælinum. Vanskráningargjald fellur niður ef þú mætir á skoðunarstöð innan 30 daga frá álagningu gjaldsins.

Gjald

Gjaldið er 6,95 krónur á hvern kílómetra fyrir bifreiðar og jeppa upp í 3,5 tonn.

Gjaldið er stighækkandi eftir þyngd ökutækis.

Sjá nánar um gjald, gjaldskyldu og undanþágur:

Skráning kílómetrastöðu

Gjaldtakan er mjög áþekk því sem tíðkast í veitureikningum fyrir rafmagn og heitt vatn. Áætlun á þínum meðalakstri byggir á þínum skráningum. Innheimt er samkvæmt áætlun þangað til þú skráir næst. Við hverja skráningu verður til ný áætlun á meðalakstri og um leið er gert uppgjör fyrir liðin tímabil.

Hægt er að skrá:

Tíðni og framkvæmd skráninga

Bifhjól og bifreiðar, eftirvagnar og dráttarvélar upp að 10 tonnum

  • Tíðni: Að lágmarki einu sinni á ári en leyfilegt er að skrá á 30 daga fresti.

  • Framkvæmd: Skráning skal gerð af eiganda eða umráðamanni ökutækis, faggiltri skoðunarstofu eða við reglubundna skoðun.

Vörubílar, rútur, eftirvagnar og dráttarvélar þyngri en 10 tonn

  • Tíðni: Að lágmarki á 6 mánaða fresti en leyfilegt er að skrá hvenær sem er.

  • Framkvæmd: Að minnsta kosti einu sinni á ári þarf skráningin að vera framkvæmd af álestraraðila, til dæmis við aðalskoðun. Hina skráninguna getur eigandi eða umráðamaður gert sjálfur eða pantað álestur hjá faggiltri skoðunarstofu.

Bílaleigubílar

  • Tíðni: Að lágmarki á 6 mánaða fresti en leyfilegt er að skrá hvenær sem er.

  • Um leigutaka bílaleigubíla í langtímaleigu, sem skráðir eru umráðamenn í ökutækjaskrá, gilda almennar reglur um tíðni og framkvæmd skráninga.

Skráningar á síðasta degi mánaðar taka gildi næsta dag.

Mánaðarleg greiðsla

Áætlun á meðalakstri

Fjárhæð kílómetragjalds byggir á áætlun á þínum meðalakstri sem unnin er út frá þeim gögnum sem til eru.

  • Ef þú átt tvær skráningar á kílómetrastöðu er áætlunin byggð á meðalakstri þínum á því tímabili. Dæmi: Ef meðaltalið á síðasta tímabili var 30 km/dag þá er gert ráð fyrir að þú haldir áfram að keyra 30 km/dag og þú færð reikning miðað við það.

  • Ef þú átt ekki tvær skráningar er rukkað samkvæmt áætlun ríkisskattstjóra á meðalakstri.

Yfirlit yfir skráningu kílómetragjalds er hægt að skoða á Mínum síðum.

Greiðsla samkvæmt áætlun

Greiðslan er mánaðarleg bráðabirgðagreiðsla fram að næstu skráningu.

Gjaldið er eftirágreitt og greiðist mánaðarlega. Greiðsluseðill er sendur í netbanka.

Gjalddagi og eindagi

Gjalddagi greiðslu samkvæmt áætlun á meðalakstri er fyrsti dagur hvers mánaðar og eindagi 14 dögum síðar. Ef eindagi lendir á frídegi færist hann yfir á næsta virka dag. Dráttarvextir reiknast frá eindaga.

Ef kílómetragjald er ógreitt á eindaga getur þú ekki farið með ökutækið í aðalskoðun. Lögreglu er heimilt að taka númeraplötur af ökutækinu til geymslu þangað til gjaldið hefur verið greitt.

Uppgjör

Álagning byggð á raunakstri

Þegar þú skráir kílómetrastöðu er gert uppgjör sem leiðréttir greiðslurnar þínar aftur í tímann. Gerður er upp mismunur á áætluðum akstri og raunakstri á tímabilinu.

Dæmi: Ef liðnir eru 100 dagar milli skráninga og þú keyrðir 4.000 km, þá er meðalaksturinn 40 km á dag á tímabilinu.

  • Ef áætlunin gerði ráð fyrir að meðalaksturinn væri 50 km/dag þá áttu inneign. Ef þú skuldar ríkissjóði þá gengur inneignin upp í skuldina.

  • Ef áætlunin byggði á að meðalaksturinn væri 30 km/dag þá hefur þú greitt of lítið og færð reikning fyrir mismuninum.

Ef þú skráir ekki innan tímamarka hækkar áætlun á meðakstri frá þeim tíma samkvæmt áætlun ríkisskattstjóra.

Uppgjörsgreiðsla

Við hverja skráningu á raunakstri er gert uppgjör.

Gjaldið er eftirágreitt og greiðsluseðill er sendur í netbanka.

Tveir reikningar

Ef áætlun á meðalakstri var of lág á síðasta tímabili berast tveir reikningar eftir að uppgjör hefur farið fram:

  • Reikningur fyrir því sem upp á vantaði miðað við raunakstur á síðasta tímabili.

  • Reikningur samkvæmt nýrri áætlun á meðalakstri.

Gjalddagi og eindagi

Gjalddagi við uppgjör er fyrsti dagur annars mánaðar eftir síðustu skráningu og eindagi 14 dögum síðar. Ef eindagi lendir á frídegi færist hann yfir á næsta virka dag. Dráttarvextir reiknast frá eindaga.

Dæmi: Ef þú skráir 24. mars þá er áætlun fyrir mars gerð út frá þeirri skráningu. Uppgjör fyrir tímabilin þar á undan berst 1. maí.

Greiðandi

Skráður eigandi er almennt sá sem ber ábyrgð á greiðslu gjaldsins.

Ef bifreið er á leigusamningi (svo sem fjármögnunarleigu eða langtímaleigu) færist gjaldskyldan yfir á skráðan umráðamann í ökutækjaskrá.

Eigandi og umráðamaður bera þó óskipta ábyrgð á greiðslu kílómetragjalds, sektum og öðrum kostnaði, sem þýðir að innheimtumaður getur gengið að hvorum aðilanum sem er.

Leiðréttingar og viðurlög

Hafðu samband

Ertu með fyrirspurn um kílómetragjald? Sendu okkur línu á km@skatturinn.is

Skrá stöðu á kílómetramæli á Mínum síðum

Þjónustuaðili

Skatt­urinn