Fara beint í efnið

Innsetning - Úrræði þegar brotið er gegn lögmætum réttindum

Getir þú ekki nýtt lögmæt réttindi þín vegna háttsemi annars aðila getur þú leitað til dómstóla og farið fram á dómsúrskurð um að framkvæma megi svokallaða innsetningu. Með henni ert þú settur inn í réttindi þín og lögmætu ástandi þannig komið á. Sýslumaður sér um framkvæmd innsetningargerða eftir að dómsúrskurður liggur fyrir.

Algeng dæmi um innsetningu eru:

  • útgáfa afsals ef seljandi fæst ekki til þess

  • að endurheimta ökutæki í langtímaleigu sem leigutaki hefur hætt að greiða af en skilar ekki

  • að veita aðgang að gögnum sem þú átt rétt á að sjá

  • að koma á umgengni þegar annað foreldri brýtur umgengnisrétt hins

  • að veita orkufyrirtækjum aðgang að húsnæði til að lesa af mælum sínum

Ef málið snýst um umráð fasteignar er um útburðarbeiðni að ræða.

Kostnaður

Sá sem leggur fram beiðni um innsetningu þarf að leggja út fyrir þeim kostnaði sem fylgir. Hann á svo endurkröfu á brotlega aðilann fyrir öllum útlögðum kostnaði við aðgerðirnar. Slíkan kostnað er hægt að innheimta með fjárnámi.

Innsetningarbeiðni kostar 12.000 krónur, sem greiða þarf þegar beiðnin er lögð fram hjá sýslumanni.

Oft er auka kostnaður við að finna eignina eða annað sem um ræðir. Það er greitt beint til þess fyrirtækis sem þú færð til að aðstoða.

Ferlið

Dómsúrskurður

Niðurstaða dómstóla þarf að liggja fyrir til að hægt sé að fara fram á aðstoð sýslumanns við að koma á lögmætu ástandi. Heimilt er að leita til sýslumanns í því embætti þar sem ökutækið, barnið eða annað sem málið snýst um er staðsett.

Kæra dómsúrskurðar frestar almennt ekki innsetningargerðinni.

Beiðni lögð fram hjá sýslumanni

Útbúa þarf skriflega beiðni og leggja fram hjá sýslumanni.

Koma þarf fram í beiðni:

  • nöfn, kennitala og heimilisföng allra aðila málsins. Ef beiðnin beinist að fyrirtæki eða lögaðila þarf að tilgreina fyrirsvarsmann 

  • hvers er krafist

  • á hvaða heimild eða dómi krafan byggir og þarf heimildaskjalið að fylgja beiðninni

Fyrirtaka eða beint í innsetningu

Sýslumaður fer yfir beiðni og ákveður í samráði við þann sem biður um innsetninguna, hvort eigi að fara beint í innsetningu eða boða aðila til fundar þar sem málið verður tekið fyrir.

Lögmætum réttindum komið á

Ef sækja á ökutæki eða aðrar eignir til að afhenda réttum eiganda, þarf fyrst að finna út hvar þær eignir eru niðurkomnar. Sýslumaður sér ekki um að leita að eignum. Oft er ekki vitað um staðsetningu þeirra eigna sem gerðin snýst um. Þegar þannig er háttað, þarf sá sem biður um innsetningu sjálfur að hafa uppi á því sem gerðin beinist að. 

Þegar eignin hefur verið afhent réttum eiganda er gerðinni lokið.

Lög og reglugerðir

Nánar um innsetningu í 73.gr. aðfararlaga nr. 90/1989

Þjónustuaðili

Sýslu­menn

Sýslumenn

Höfuð­borg­ar­svæðið

Mán. til fim. 8:30 - 15
Fös. 8:30 - 14

Vest­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Vest­firðir

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 13:30

Norð­ur­land vestra

Mán. til fös. 9 - 15

Norð­ur­land eystra

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Aust­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9-14

Suður­land

Mán. til fös. 9 - 15

Vest­manna­eyjar

Mán. til fim. 9:15 - 15
Fös. 9:15 - 14

Suðurnes

Mán. til fös. 8:30 - 15