Fara beint í efnið

Fjármál og skattar

Teljir þú þig eiga lögmæta kröfu á greiðslu peninga frá öðrum aðila en þarft að fara í dómsmál áður en hægt er að krefjast fjárnáms hjá skuldara, getur þú farið fram á kyrrsetningu eigna viðkomandi til að tryggja kröfuna þar til dæmt verður í málinu. Kyrrsetning tryggir að viðkomandi aðili geti ekki ráðstafað tilteknum eignum sínum fyrr en dómur hefur verið kveðinn.

Skilyrði fyrir kyrrsetningu eigna

  • Rökstuðningur þess að viðkomandi eigi lögmæta kröfu um pening frá öðrum aðila.

  • Rökstuðningur fyrir því að sennilegt megi telja að draga muni úr líkindum þess að krafa fáist greidd, ef kyrrsetning fari ekki fram.

Ferlið

Beiðni

Leggja þarf fram skriflega beiðni hjá sýslumanni í því umdæmi þar sem sá sem krafan um kyrrsetningu beinist að á heimili eða er staddur, þar sem hann rekur atvinnustarfsemi eða þar sem hann á eignir.
Beiðnin er oftast gerð af lögfræðingi/lögmanni. Í beiðninni þarf meðal annars að koma fram

  • hver krefst kyrrsetningar

  • gegn hverjum kyrrsetningin beinist

  • rökstuðningur fyrir kröfunni

  • rökstuðningur fyrir því að kyrrsetning sé nauðsynleg til að tryggja hagsmuni meðan beðið er eftir dómsniðurstöðu

Kyrrsetningarbeiðnir eru teknar fyrir eins fljótt og hægt er, yfirleitt innan nokkurra daga. Sýslumaður samþykkir eða hafnar beiðninni. Ef sýslumaður hafnar beiðni er hún endursend ásamt stuttum rökstuðningi.

Trygging

Sýslumaður ákveður tryggingu til bráðabirgða sem þarf að leggja inn á reikning sýslumanns áður en málið er tekið fyrir. Endanlega ákvörðun um fjárhæð tryggingar er tekin
við meðferð málsins. Það er trygging fyrir öllum málskostnaði og mögulega skaðabótum ef dómsmál til staðfestingar kyrrsetningu tapast. Sýslumaður skilar tryggingu ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt, t.d ef kyrrsetning hefur verið staðfest fyrir dómstólum.

Fyrirtaka hjá sýslumanni

Sýslumaður boðar báða aðila til fundar um málið. Á fundinum gefst báðum aðilum færi á að koma sínum málstað á framfæri. Nauðsynlegt er að mæta á fundinn eða senda einhvern með umboð fyrir sína hönd. 

Í fyrirtökunni þarf sá sem kyrrsetningarbeiðni beinist gegn að upplýsa um hvaða eignir/bankareikninga hann á. Mælt er með að þú sért einnig búinn að kanna eignir viðkomandi og ákveða hvaða eign þú vilt benda á ef viðkomandi mætir ekki til gerðarinnar eða upplýsir ekki um eignir sínar. 

Sýslumaður ákvarðar um kyrrsetninguna á staðnum. Kæra má synjun kyrrsetningarbeiðna til héraðsdóms.

Ef ljóst þykir að hagsmunir séu í brýnni hættu til dæmis fjármunir á bankabók, getur sýslumaður tekið beiðni um kyrrsetningu fyrir án þess að boða þann sem beiðnin beinist gegn til fyrirtökunnar.

Kyrrsetning og dómsmál

Þegar sýslumaður hefur ákvarðað um kyrrsetningu eigna þarft þú að höfða dómsmál
til staðfestingar kyrrsetningargerðinni innan viku, annars fellur kyrrsetningin úr gildi.

Kostnaður

Gjald fyrir kyrrsetningu er 1% af þeirri upphæð sem kyrrsetningar er krafist fyrir, að meðtöldum vöxtum og kostnaði. Kostnaður er þótt aldrei minni en 8.000 krónur eða meiri en 25.000 krónur. 

Gjaldið er tekið fyrir hvern aðila sem krafist er kyrrsetningar hjá.
Gjaldið er ekki endurkræft þó kyrrsetningarbeiðnin sé afturkölluð eða ekki framkvæmd af öðrum ástæðum. 

Ekki er tekið gjald fyrir kyrrsetningar í eftirfarandi málum:

  • Mál til innheimtu vinnulauna.

  • Gjafsóknarmál (ekki lagt á þann sem fær gjafsóknina).

  • Mál vegna sekta og sakarkostnaðar í opinberum málum. 

Gjaldið skal greitt inn á bankareikning viðkomandi sýslumannsembættis.

Lög og reglugerðir

Lög um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

Þjónustuaðili

Sýslu­menn