Fara beint í efnið

Kyrrsetning eigna til tryggingar greiðslu

Ef kyrrsetning beinist að þér

Ef annar aðili á lögmæta kröfu á greiðslu peninga frá þér getur hann farið fram á kyrrsetningu eigna þinna þar til dómstólar hafa úrskurðað í málinu. Fái hann kyrrsetninguna samþykkta þýðir það að þú getir ekki ráðstafað þeim eignum sem kyrrsettar eru meðan dómsmálið stendur yfir. 

Algengast er að kyrrsett sé lausafé, ökutæki og fasteignir.

  • Ef kyrrsetning er gerð í fasteign eða ökutæki fer kröfuhafi með kyrrsetinguna í þinglýsingu og fer hún á næsta lausa veðrétt eignarinnar 

  • Ef um kyrrsetningu lausafjár er að ræða þá eru reikningar frystir 

Aðeins eru kyrrsettar eignir sem samsvara upphæð kröfunnar. 

Réttindi þess sem kyrrsetning beinist að

Sýslumaður úrskurðar um kyrrsetningarbeiðnir. Þú getur haft áhrif á hvaða eignir eru kyrrsettar með því að mæta til fyrirtöku hjá sýslumanni þegar hann boðar þig. 

Samkvæmt lögum má ekki taka muni til kyrrsetningar sem eru taldir nauðsynlegir til framfærslu. 

  • Ef reikningar eru frystir þá er alltaf skilið eftir nóg til framfærslu samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara eða öðrum viðmiðum. 

  • Leyfilegt er að búa áfram í kyrrsettri eign. 

  • Leyfilegt er að nota bíl sem kyrrsettur hefur verið. 

Hægt er að selja kyrrsetta eign en þá er söluandvirðið yfirleitt lagt inn á reikning þar til dómstólar hafa úrskurðað í málinu.

Eins er hægt að biðja um færslu á milli eigna, en til þess þarf að fara fram á endurupptöku. 

Ferlið

Boðun til fyrirtöku

Hafi sýslumaður fallist á kyrrsetningarbeiðni gagnvart þér mætir stefnuvottur heim til þín með stefnuna og boðar þig á fund hjá sýslumanni. Birta má stefnu fyrir öllum, 15 ára og eldri, sem hittast fyrir á lögheimili þínu. 

Hægt er að ræða við viðkomandi aðila og reyna að semja um kröfuna. Ef ekki er samið, eða sættir nást ekki í málinu er beiðnin tekin fyrir hjá sýslumanni.

Fyrirtaka hjá sýslumanni

Til fyrirtöku mæta báðir aðilar eða einhver fyrir þeirra hönd. Beiðnin er tekin fyrir og sýslumaður fer yfir réttindi beggja aðila og hlustar á rök með og á móti kyrrsetningunni. Mikilvægt er að mæta í fyrirtökuna til að veita upplýsingar um eignir og hafa áhrif á hvaða eignir skuli kyrrsetja. 

Í fyrirtökunni er ákveðið hvort eða hvaða eign verður kyrrsett. Kyrrsetningin er á eignunum þangað til dómsmáli lýkur.  

Einnig er boðið uppá að leggja fram tryggingu fyrir kröfunni sem um ræðir til þess að koma í veg fyrir kyrrsetningu á eignum. Sýslumaður geymir fjárhæðina á meðan dómsmálið er í vinnslu. Verðir þú sýknaður af kröfunni fyrir dómi er tryggingin endurgreidd að fullu.

Skyndikyrrsetning

Sé talið að hagsmunir kröfuhafa séu í bráðri hættu getur sýslumaður úrskurðað að fara beint í kyrrsetningu án þess að taka málið fyrst fyrir á fundi. Í þeim tilvikum mætir sýslumaður ásamt lögmanni kröfuhafa á svæðið og kynnir kröfuna. Ef enginn er heima er kyrrsetningin skráð á staðnum og þú færð sent bréf þess efnis. 

Endurupptaka kyrrsetningar

Þú getur farið fram á að ákvörðun um kyrrsetningu verði endurskoðuð ef að

  • þú varst ekki viðstaddur kyrrsetninguna og óheimilt var að kyrrsetja þá eign sem var kyrrsett

  • þú vilt greiða tryggingu til að fá aflétt kyrrsetningu á eign að hluta eða öllu leyti

  • kröfuhafi höfðar ekki staðfestingarmál fyrir dómstólum innan viku frá kyrrsetningu

  • þú hefur verið sýknaður í dómsmálinu eða krafan hefur verið felld niður

Afgreiðslutími

Afgreiðsla kyrrsetningar mála tekur oftast skjótan tíma. Þó ekki sé hægt að segja til um nákvæman tímaramma. 

Skaðabótamál

Ljúki dómsmáli með því að kröfu sé hafnað getur þú höfðað skaðabótamál gegn kröfuhafa.

Lög og reglugerðir

Lög um kyrrsetningu, lögbann og fleira

Þjónustuaðili

Sýslu­menn

Sýslumenn

Höfuð­borg­ar­svæðið

Mán. til fim. 8:30 - 15
Fös. 8:30 - 14

Vest­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Vest­firðir

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 13:30

Norð­ur­land vestra

Mán. til fös. 9 - 15

Norð­ur­land eystra

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Aust­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9-14

Suður­land

Mán. til fös. 9 - 15

Vest­manna­eyjar

Mán. til fim. 9:15 - 15
Fös. 9:15 - 14

Suðurnes

Mán. til fös. 8:30 - 15