Fara beint í efnið

Lögbann vegna framkvæmda eða annarra ólögmætra gjörninga

Telji einstaklingur eða lögaðili að byrjuð eða yfirvofandi athöfn brjóti á réttindum þeirra, er hægt að fara fram á lögbann við henni. 

Með því er athöfnin stöðvuð til að koma í veg fyrir að réttindi fari forgörðum eða eyðileggist á meðan beðið er dóms um málið. 

Lögbann getur til dæmis verið sett á aðgerðir eins og niðurrif eða byggingu húss, notkun vörumerkis eða birtingu upplýsinga.

Ekki er hægt að leggja lögbann á framkvæmdir ríkis eða sveitafélaga eða ef önnur úrræði koma að gagni svo sem réttarreglur um refsingu og skaðabætur.

Ferlið

Beiðni um lögbann er send til sýslumanns í því umdæmi sem meint brot er byrjað eða yfirvofandi. Beiðnin þarf að vera skrifleg og er oft útbúin af lögfræðingi eða lögmanni.

Beiðnin er svo tekin fyrir hjá sýslumanni sem boðar báða aðila eða fulltrúa þeirra til fyrirtöku.

Sýslumaður úrskurðar og annaðhvort staðfestir beiðni um lögbann eða hafnar henni. Ef beiðni um lögbann er hafnað, má kæra ákvörðun sýslumanns til héraðsdóms innan viku frá ákvörðun sýslumanns.

Trygging

Sá sem krefst lögbanns þarf að leggja fram tryggingu sem er forsenda þess að málið verði tekið fyrir hjá sýslumanni.  Sýslumaður ákveður fjárhæð tryggingar og  á hún að taka mið af því fjárhagstjóni sem sá sem lögbannið er lagt á getur orðið fyrir við það að stöðva framkvæmdir. Fjárhæð tryggingar getur breyst við meðferð málsins hjá sýslumanni.

Sá sem krefst lögbanns þarf að höfða staðfestingarmál fyrir héraðsdómi innan viku frá því að sýslumaður leggur lögbann við athöfn, annars fellur lögbannið sjálfkrafa niður. Héraðsdómur getur annaðhvort fallist á lögbannið eða fellt það úr gildi.

Ef lögbannið er fellt úr gildi getur sá sem lögbannið var lagt á farið fram á skaðabætur sem eru greiddar af tryggingagjaldinu.

Beiðnir um lögbann eru í flestum tilfellum afgreiddar hratt, enda er um neyðarráðstöfun að ræða. Ef deilur rísa um lögbannið, er lögreglu skylt að veita aðstoð við að framfylgja því. 

Ekki er hægt að leggja lögbann við stjórnarathöfn ríkis eða sveitafélags. Þá er ekki hægt að leggja á lögbann við athöfn ef önnur úrræði koma að gagni svo sem réttarreglur um refsingu og skaðabætur.

Lög og reglugerðir

Lög um kyrrsetningu, lögbann o.fl.
 [SESR1]við stjórnarathöfn  [SESR2]lögbann við athöfn

Kostnaður

Greiða þarf 12.000 krónur fyrir vinnslu á beiðninni hjá sýslumanni.

Þjónustuaðili

Sýslu­menn