Fara beint í efnið

Fjármál og skattar

Fjárnám

Fjárnám er aðgerð sem sýslumaður framkvæmir og felur í sér að taka veð í eigum skuldara til tryggingar greiðslu krafna á hendur honum. 

Skilyrði til fjárnáms

Kröfuhafi getur krafist fjárnáms hjá skuldara ef fyrir liggur svokölluð aðfararheimild, sem er skrifleg heimild til að innheimta skuld með fjárnámi. Aðfararheimildir eru til dæmis dómar og úrskurðir dómstóla, kröfur um skatta og önnur gjöld sem innheimt eru samkvæmt lögum af innheimtumönnum ríkissjóðs. 

Ekki er þó alltaf þörf á að fara með kröfu fyrir dóm til að fá heimild til fjárnáms. Ef skuldabréf kveða skýrlega á um aðför án undangengins dóms eða sáttar, er hægt að krefjast fjárnáms til tryggingar á greiðslu þeirra án þess að fara fyrir dóm. Víxlar og tékkar eru einnig undanþegnir dómsúrskurði ásamt sáttum, nauðasamningum og ógreiddum gjöldum til ríkis og sveitarfélaga.

Kostnaður

Svokallað aðfaragjald, sem greitt er í ríkissjóð, er bætt við kröfuna. Það nemur 1% af upphaflegri upphæð kröfunnar en er þó aldrei minna en 8.000 kr. eða meira en 25.000 kr. 

Framkvæmd fjárnáms

Þegar aðfaraheimild liggur fyrir er hún send til sýslumanns sem boðar kröfuhafa og skuldara til fundar eða fyrirtöku á skrifstofu sinni þar sem beiðni um fjárnám er tekin fyrir.

Skuldarinn er yfirleitt boðaður til fundarins með bréfi sem birt er af stefnuvotti eða sent með ábyrgðarpósti. Það hvernig fjárnámið fer fram ræðst af því hvort skuldarinn, eða einhver fyrir hans hönd, mætir á fundinn eða ekki. 

Kröfuhafinn verður að upplýsa um nákvæma stöðu kröfunnar með áföllnum vöxtum á fundinum. Ef skuldarinn eða fulltrúi hans mætir er honum kynnt fjárnámsbeiðnin og gefinn kostur á að tjá sig um kröfuna. Ef skuldarinn hefur ekkert við hana að athuga en greiðir samt ekki kröfuna, þá er skorað á hann að benda á eignir sem hann kann að eiga og nægja til að tryggja greiðslu upphæðarinnar sem krafist er. 

Fyrirtöku fjárnámsins lýkur með mismunandi hætti efir því hvort skuldarinn á eignir eða ekki.

Ef skuldari á eignir

Ef skuldari á eignir sem nægja til að tryggja greiðslu kröfunnar er fyrirtökunni lokið með fjárnámi í þeim eignum. 

Sýslumaður skráir þá hvaða eignir það eru sem gert er fjárnám í og kröfuhafinn getur látið þinglýsa fjárnáminu á eignirnar þar sem það á við. Þannig eru lögð svokölluð veðbönd á eignina. Skuldaranum er óheimilt að fara með eign sem fjárnám hefur verið gert í á þann hátt að hún gæti eyðilagst eða verðmæti hennar minnkað. 

Fjórum vikum eftir að fjárnám hefur farið fram, getur kröfuhafi óskað eftir að eignin eða eignirnar verði seldar á nauðungarsölu og gengur þá ágóði sölunnar upp í greiðslu kröfunnar. 

Í hverju er hægt að gera fjárnám?

Það er hægt að gera fjárnám í fasteignum, ökutækjum, tækjum, lager og öðrum verðmætum sem talin eru standa undir skuldinni. 

Vissar eignir eru undanþegnar fjárnámi og eru þessar helstar:

  • lausafjármunir sem nauðsynlegir eru til að halda látlaust heimili

  • munir sem hafa minjagildi 

  • munir sem teljast nauðsynlegir vegna örorku eða heilsubrests, svo sem sérútbúnir bílar

  • námsgögn sem eru nauðsynleg vegna skólagöngu

  • munir sem nýttir eru til atvinnu að samanlögðu verðmæti allt að 50.000 kr. 

Ef skuldari á ekki eignir

Ef skuldari á ekki nægjanlegar eignir til að tryggja greiðslu kröfunnar lýkur fyrirtöku sýslumanns með árangurslausu fjárnámi. Við það fá allir kröfuhafar, sem eiga gjaldfallna kröfu á hendur skuldaranum, heimild til að óska eftir gjaldþrotaskiptum hjá honum fyrir dómstólum. Heimildin gildir í þrjá mánuði eftir að árangurslaust fjárnám er bókað.

Skráning á vanskilaskrá

Creditinfo heldur utan um svokallaða vanskilaskrá, þar sem skráðar eru upplýsingar um vanskil einstaklinga, meðal annars þeirra sem gert hefur verið árangurslaust fjárnám hjá. Tilgangur vanskilaskrár er meðal annars að veita lánveitendum færi á að kanna stöðu einstaklinga áður en lánaumsókn eða reikningsviðskipti eru samþykkt. 

Á meðan krafan er óuppgerð er það á valdi kröfuhafa hvort nafn skuldara sem gert hefur verið hjá árangurslaust fjárnám hjá er á þessari skrá eða ekki. Það má oft ná samkomulagi við kröfuhafa um að nafn þeirra verði fært af vanskilaskrá ef samningar takast um uppgjör kröfunnar. 

Færsla afskráð af vanskilaskrá

Færsla er afskráð af vanskilaskrá þegar staðfesting um uppgjör kröfunnar berst Creditinfo. Færslur sem aldrei eru gerðar upp eru afskráðar þegar fjögur ár eru liðin frá þeirri dagsetning sem stefna er árituð eða árangurslaust fjárnám er framkvæmt. 

Fjárnámi frestað eða aflýst

Skuldarinn þarf að hafa samband við kröfuhafa til að semja um greiðslufrest og er þá beiðni um fjárnám frestað.  Ef skuldarinn vill greiða kröfuna upp þarf hann að gera það í samráði við kröfuhafann og er þá fjárnámsbeiðnin afturkölluð eða veðböndum aflétt. 

Almennt er ekki veittur frestur á meðan á fyrirtöku stendur, nema báðir málsaðilar séu samþykkir því.

Ef gert hefur verið árangurslaust fjárnám, ber kröfuhafa að láta fjarlægja það af skrá hjá Creditinfo. Geri kröfuhafi það ekki getur skuldarinn sent fyrirtækinu gögn sem sýna fram á uppgreiðslu kröfunnar sem árangurslausa fjárnámið byggði á. 

Hægt er að fylgjast með stöðu skráningar um sig á vefnum Mitt Creditinfo með því að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. 

Ef skuldari býr erlendis

Skuldarann þarf að boða á fund sýslumanns með löglegum hætti, oft með bréfi sem birt er af stefnuvotti eða sent með ábyrgðarpósti. 

Til að hægt sé að birta greiðsluáskorun eða boðun í fjárnám fyrir einstaklingi sem er búsettur erlendis, þurfa að liggja fyrir upplýsingar um heimilisfang viðkomandi og fæðingardag hans eða kennitölu. 

Sýslumaður aðstoðar við stefnubirtingar erlendis

Ef skuldari mætir ekki til fyrirtöku hjá sýslumanni 

Dagsetningu á fyrirtöku er ekki breytt.

Ef skuldarinn mætir ekki til fyrirtöku vegna fjárnáms þó svo að boðun með stefnuvotti eða ábyrgðarpósti hafi farið fram, er samt hægt að gera fjárnám í eignum hans ef einhverjar eru. Skuldaranum er þá tilkynnt í hvaða eignum hafi verið gert fjárnám og fjórum vikum síðar getur kröfuhafi óskað eftir að eignirnar verði seldar á nauðungarsölu að undangenginni vörslusviptingu.

Ef ekki er vitað um eignir í eigu skuldarans þegar beiðni um fjárnám er tekin fyrir, stendur kröfuhafa til boða að:

  • sýslumaður boði skuldarann aftur á fund, í þetta sinn með aðstoð lögreglu sem færir hann á fundinn ef hann sinnir ekki boðuninni.

  • fara ásamt sýslumanni að heimili skuldarans, eða á annan stað þar sem líklegt er að hitta á hann. Þar er hann fenginn til að benda á eign til að taka fjárnámi eða lýsa yfir eignaleysi.

  • gera kröfu um að fjárnámi verði lokið án árangurs. Þessu fylgja sömu heimildir og kvaðir og ef skuldarinn hefði mætt í fyrirtökuna og lýst yfir eignaleysi. Það má þannig óska gjaldþrotaskipta yfir búi hans og hann lendir á vanskilaskrá. Skuldarinn getur þó farið fram á endurupptöku á fyrirtökunni ef hann telur sig eiga eignir til tryggingar kröfunni. 

Sýslumenn

Sýslu­menn