Fara beint í efnið

Útburður úr fasteign

Útburður felst í því að skylda aðila til að víkja af fasteign eða fjarlægja tiltekna hluti af henni. 

Fasteignaeigandi getur farið fram á útburð leigjanda ef hann hefur til dæmis ekki greitt leigu eða ef umgengni er verulega ábótavant. 

Dómsúrskurður þarf að liggja fyrir áður en sýslumaður getur tekið útburðarbeiðni fyrir


Hvenær get ég farið fram á útburð hjá sýslumanni?

Þegar héraðsdómur hefur heimilað útburð er skrifleg aðfararbeiðni send til sýslumanns í því umdæmi sem fasteignin er í.

Í aðfararbeiðni þarf að koma fram:

  • hverjir aðilar málsins eru - eigandi fasteignarinnar og sá sem á að bera út 

  • hvers er krafist með aðfarargerð - til dæmis útburður úr hvaða fasteign ásamt fastanúmer fasteignar

  • niðurstaða héraðsdóms

Kostnaður

Þegar aðfararbeiðni er lögð fram hjá sýslumanni þarf að greiða 12.000 kr. 
Sýslumaður tekur beiðnina fyrir eins fljótt og hægt er.

Ferlið hjá sýslumanni

Sýslumaður ákveður hvort beiðnin verði tekin fyrir á skrifstofu sýslumanns og eru þá báðir aðilar boðaðir til að mæta. Í þeirri fyrirtöku eru ákveðin næstu skref varðandi framkvæmdina, til dæmis á hvaða tíma útburðurinn muni fara fram. Í einstaka tilfellum er ákveðið að fara beint í framkvæmd útburðar án fyrirtöku á skrifstofu.

Ef sá sem á að bera út tæmir eignina og afhendir eiganda er beiðni um útburð afturkölluð.

Framkvæmd útburðar

Fasteignaeigandi þarf sjálfur að framkvæma útburð en hlutverk sýslumanns er að hafa eftirlit og umsjón með framkvæmdinni og að kalla til lögreglu til aðstoðar ef þörf krefur. 

Eigandi fasteignarinnar eða fulltrúi hans verður að vera á staðnum við útburðinn. 

Hann þarf sjálfur að leggja út fyrir öllum kostnaði sem fellur til við framkvæmdina en þeim sem er borinn út ber lagaleg skylda til að endurgreiða þann kostnað.

Við framkvæmd útburðar er það hlutverk fasteignaeigandans sjálfs að útvega eftir þörfum:

  • flutningamenn og annað sem þarf til að tæma fasteignina

  • sendibifreið 

  • lásasmið 

  • geymslu fyrir búslóðina 

Ef börn undir 18 ára dvelja á eða búa í eigninni er leitað liðsinnis viðkomandi barnaverndarnefndar.

Þegar búið er að tæma eignina er réttum eiganda afhent umráð hennar. 

Skyldur fasteignaeiganda eftir að útburði er lokið

Það eru engin lög eða reglur sem segja til um það hvernig skuli fara með þá muni sem bornir eru út, eða hversu lengi þarf að geyma þá. Það þarf þó að geyma eignirnar í það sem gæti talist nægilega langur tími fyrir eigandann að nálgast þær.

Ef sá sem er borinn út hirðir ekki um að taka eignir sínar til sín, mætti selja þær á uppboði upp í geymslukostnað eða farga þeim sem teljast lítils virði. 


Þjónustuaðili

Sýslu­menn

Tengt efni

Sýslumenn

Höfuð­borg­ar­svæðið

Mán. til fim. 8:30 - 15
Fös. 8:30 - 14

Vest­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Vest­firðir

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 13:30

Norð­ur­land vestra

Mán. til fös. 9 - 15

Norð­ur­land eystra

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Aust­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9-14

Suður­land

Mán. til fös. 9 - 15

Vest­manna­eyjar

Mán. til fim. 9:15 - 15
Fös. 9:15 - 14

Suðurnes

Mán. til fös. 8:30 - 15