Þeir sem dvelja sex mánuði eða skemur erlendis án þess að taka þar upp búsetu eða hefja störf halda almennt tryggingavernd sinni á Íslandi. Verði ferðamaður fyrir kostnaði vegna læknisþjónustu getur hann átt rétt á greiðsluþátttöku.
Athugið að reglur um rétt ferðamanna til læknishjálpar erlendis eiga ekki við þegar um fyrirfram ákveðna læknismeðferð erlendis er að ræða.
Einkatryggingar
Sjúkratryggingar benda einstaklingum á að hafa samband við sitt tryggingafélag varðandi ferðatryggingar. Slíkar tryggingar greiða fyrir fleira en almannatryggingar gera, til dæmis kostnað vegna heimflutnings.
Ferðalög innan EES og Sviss
Ferðamaður í öðru EES landi nýtur ákveðinna réttinda til læknishjálpar innan hins opinbera heilbrigðiskerfis í viðkomandi landi. Einungis er átt við nauðsynlega þjónustu miðað við tímalengd dvalar.
Sjúkratryggingar hvetja alla til að hafa meðferðis evrópska sjúkratryggingakortið til að greiða strax rétt verð fyrir læknisþjónustuna í viðkomandi landi.
Ef evrópska sjúkratryggingakorti er ekki framvísað við þjónustuaðila innan hins opinbera sjúkratryggingakerfis er hægt að sækja um greiðsluþátttöku hjá Sjúkratryggingum þegar heim er komið.
Ferðalög utan EES landa
Ferðamaður í landi utan EES getur sótt um að fá greiðsluþátttöku hjá Sjúkratryggingum þegar heim kemur.
Skila þarf inn umsókn um endurgreiðslu erlends sjúkrakostnaðar ásamt sundurliðuðum reikningum frá þjónustuveitanda og greiðslustaðfestingu.
Sjúkratryggingar hafa heimild til að óska eftir frekari gögnum ef þörf krefur.
Athugið að Sjúkratryggingar geta óskað eftir að einstaklingar láti þýða gögn sem ekki eru á ensku.
Athugið að sjúkrakostnaður getur verið innifalinn í þeim tryggingum sem greiðslukortafyrirtæki bjóða þegar farseðlar eru greiddir með greiðslukortum.
Tryggingaryfirlýsing
Sjúkratryggingar gefa út sérstaka tryggingaryfirlýsingu til einstaklinga sem tryggðir eru hér á landi en hyggjast dvelja um styttri tíma erlendis í löndum sem eru utan EES svæðisins. Þar kemur fram að viðkomandi sé tryggður í almannatryggingum á Íslandi og hvað slík trygging felur í sér.
Athugið að þegar viðkomandi framvísar tryggingaryfirlýsingu erlendis þarf hann að greiða fullt verð fyrir þjónustuna og svo skila inn umsókn um endurgreiðslu erlends sjúkrakostnaðar ásamt gögnum sem eru talin upp hér að ofan.
Einstaklingar sem hafa ríkisfang utan EES landa og eru sjúkratryggðir á Íslandi
Ekki er gefið út evrópskt sjúkratryggingakort til einstaklinga með ríkisfang utan EES landa þó svo einstaklingur sé sjúkratryggður á Íslandi. Þeir fá útgefna svokallaða tryggingaryfirlýsingu þegar þeir ferðast sem staðfestir að viðkomandi sé sjúkratryggður í almannatryggingakerfinu á Íslandi.
Þjónustuaðili
Sjúkratryggingar