Að sækja um vegabréfsáritun
Hægt er að sækja um vegabréfsáritun til Íslands í þeim löndum og borgum sem talin eru upp í listanum hér að neðan.
Sendiráð Íslands annast útgáfu áritana í fjórum borgum: London, Nýju-Delí, Peking og Washington D.C. Í um 120 öðrum borgum víðs vegar um heiminn hefur utanríkisþjónustan falið öðrum Schengen-samstarfsríkjum að sjá um útgáfu áritana fyrir íslensk stjórnvöld.
Mörg sendiráð og ræðisskrifstofur notfæra sér þjónustuskrifstofur við móttöku umsókna. Umsókn er þá afhent á skrifstofu þjónustuaðila en sendiráð metur umsókn og veitir áritun.
Gjald fyrir umsókn um vegabréfsáritun er 90 evrur (45 evrur fyrir sex til tólf ára).
Umsóknarferli
Umsóknarferlið er mismunandi eftir því hvar sótt er um. Því er mikilvægt að umsækjandi skoði vel heimasíðu viðkomandi sendiráðs eða þjónustuskrifstofu til að fá leiðbeiningar um feril sinnar umsóknar. Smella þarf á viðkomandi land (+) í listanum neðar á síðunni til að sjá nánari upplýsingar um útgáfustaði.
Athugið að öllum fyrirspurnum varðandi vegabréfsáritanir þarf að beina til viðeigandi sendiráðs eða ræðisskrifstofu.
Almennt er nauðsynlegt að mæta í eigin persónu til að sækja um vegabréfsáritun. Ef öll gögn og upplýsingar eru til staðar og ekki þarf að óska eftir frekari gögnum er afgreiðslutími vegabréfsáritana oftast um tvær vikur.
Í flestum tilfellum hafa sendiráðin og ræðisskrifstofurnar heimild til að veita áritanir án samráðs við Útlendingastofnun. Í einstaka tilvikum eru umsóknir sendar til Útlendingastofnunar til ákvörðunar.
Athugið að sendiráðin og ræðisskrifstofurnar á listanum gefa aðeins út vegabréfsáritanir til stuttrar dvalar (short-stay visa / C-áritun), til dæmis fyrir ferðamenn, fjölskylduheimsóknir, opinber erindi, viðskiptaheimsóknir og námsferðir.
Þessi listi á ekki við um útgáfu D-áritana, sem gefnar eru út til einstaklinga sem Útlendingastofnun hefur veitt dvalarleyfi á Íslandi. Upplýsingar um útgáfustaði D-áritana er að finna hér.
Sendiráð og ræðisskrifstofur sem veita C-áritanir til Íslands
Hvernig fæ ég áritun til Íslands
Þjónustuaðili
Útlendingastofnun