Vegabréfsáritun til Íslands
Ísland er aðili að Schengen-samstarfinu, sem miðar að því að tryggja frjálsa för fólks yfir landamæri aðildarríkjanna.
Schengen-ríkin gefa út samræmda vegabréfsáritun til áritunarskyldra einstaklinga og gildir hún til ferða um allt Schengen-svæðið í allt að 90 daga. Þetta þýðir að ef þú hefur þegar fengið útgefna áritun fyrir Schengen-svæðið þarftu ekki að sækja sérstaklega um áritun til að ferðast til Íslands.
Sótt um áritun
Þú leggur fram umsókn í sendiráði eða ræðisskrifstofu þess Schengen-ríkis sem er aðaláfangastaður þinn innan Schengen-svæðisins.
Aðaláfangastaður þinn er það Schengen-land sem þú ætlar að heimsækja lengst. Ef þú munt dvelja jafnlengi í tveimur eða fleiri löndum, þá er aðaláfangastaður þinn það land sem þú ætlar að heimsækja fyrst.
Að jafnaði verður þú að sækja um vegabréfsáritun í því sendiráði eða ræðisskrifstofu sem ber svæðisbundna ábyrgð gagnvart landinu þar sem þú hefur löglega búsetu.
Aðaláfangastaður: Ísland
Sendiráð Íslands annast útgáfu áritana í fjórum borgum: London, Nýju-Delí, Peking og Washington D.C.
Í um 120 öðrum borgum víðs vegar um heiminn hefur utanríkisþjónustan samið við önnur Schengen-ríki (fyrirsvarsríki) um að gefa út áritanir fyrir hönd Íslands.
Listi yfir lönd og borgir þar sem hægt er að sækja um vegabréfsáritun til Ísland.
Umsóknarferli
Mörg sendiráð og ræðisskrifstofur notfæra sér þjónustuskrifstofur við móttöku umsókna. Umsókn er þá afhent á skrifstofu þjónustuaðila en sendiráð metur umsókn og veitir áritun.
Umsóknarferlið er mismunandi eftir því hvar sótt er um. Því er mikilvægt að þú skoðir vel heimasíðu viðkomandi sendiráðs eða þjónustuskrifstofu til að fá leiðbeiningar um feril þinnar umsóknar.
Athugið að öllum fyrirspurnum varðandi vegabréfsáritanir þarf að beina til viðeigandi sendiráðs eða ræðisskrifstofu.
Kostnaður
Gjald fyrir umsókn um vegabréfsáritun er 90 evrur (45 evrur fyrir sex til tólf ára).
Afgreiðslutími
Almennt er nauðsynlegt að mæta í eigin persónu til að sækja um vegabréfsáritun. Ef öll gögn og upplýsingar eru til staðar og ekki þarf að óska eftir frekari gögnum er afgreiðslutími vegabréfsáritana oftast um tvær vikur.
Í flestum tilfellum hafa sendiráðin og ræðisskrifstofurnar heimild til að veita áritanir án samráðs við Útlendingastofnun. Í einstaka tilvikum eru umsóknir sendar til Útlendingastofnunar til ákvörðunar.
Vegabréfsáritun
Þjónustuaðili
Útlendingastofnun