Vegabréfsáritun til Íslands
Fylgigögn umsóknar
Hér að neðan eru talin upp þau gögn sem almennt er gerð krafa um að lögð séu fram með umsókn.
Athugið að þetta eru aðeins grunnkröfur. Umsóknarferlið getur verið mismunandi eftir því hvar sótt er um og því er umsækjanda bent á að skoða vel heimasíðu viðkomandi sendiráðs til að fá ítarlegri leiðbeiningar.
Passamynd af umsækjanda (35x45 mm).
Vegabréf.
- Það má ekki vera eldra en tíu ára.
- Gildistími skal vera minnst þrír mánuðir fram yfir áætlaða dvöl.
- Það verða að vera að minnsta kosti tvær auðar blaðsíður í vegabréfinu.Gögn til staðfestingar á fjárráðum. Annaðhvort þarf að leggja fram
- bankayfirlit umsækjanda eða
- ábyrgðaryfirlýsing frá gestgjafa, ásamt bankayfirliti eða launaseðlum.
Gögn sem sýna tengsl umsækjanda við heimaland svo hægt sé að meta ásetning hans um að fara aftur heim, dæmi:
- Miði til heimferðar eða hringferðar.
- Yfirlýsing vinnuveitanda um atvinnuþátttöku umsækjanda og staðfesting á því að umsækjandi geti snúið aftur til starfa eftir leyfi.
- Staðfesting skóla á skólavist umsækjanda.
- Sönnun þess að umsækjandi eigi fé í búsetulandi (staðfest reikningsyfirlit banka).
- Sönnun þess að umsækjandi eigi fasteign.
- Ættartengsl í heimalandi.
- Sönnun þess að umsækjandi hafi aðlagast búsetulandinu, ef hann býr ekki í því landi sem hann hefur ríkisfang í. Dvalarleyfi í öðru landi verður að gilda í minnst þrjá mánuði fram yfir áætlaða dvöl á Íslandi.
Ferðasjúkratrygging að lágmarki 30.000 evrur. Umsækjendur skulu að jafnaði tryggja sig í því ríki þar sem þeir eru búsettir. Ef ekki er unnt að koma því við skulu þeir reyna að fá tryggingu í öðru ríki. Tryggingin skal gilda á öllu Schengen-svæðinu og í þann tíma sem umsækjandi hyggst dvelja á svæðinu.
Gögn sem staðfesta tilgang ferðar:
- Boðsbréf frá gestgjafa á Íslandi
- Fæðingarvottorð til staðfestingar á skyldleika, ef ætlunin er að heimsækja ættingja.
- Staðfesting frá fyrirtæki á Íslandi, ef um viðskiptaferð er að ræða.
- Hótelbókun/ferðabókun, ef umsækjandi er ferðamaður.
- Staðfesting frá viðkomandi stofnun, ef ætlun umsækjanda er að sækja námskeið eða fund.
Þegar umsókn er lögð inn skal umsækjandi heimila að fingraför hans séu tekin og greiða gjald fyrir umsóknina.
Þjónustuaðili
Útlendingastofnun