Sjúkratrygging íslenskra ferðamanna erlendis
Þeir sem dvelja í minna en 6 mánuði erlendis án þess að flytja þangað eða byrja að vinna þar halda almennt tryggingum á Íslandi.
Ef ferðamaður þarf að greiða fyrir læknaþjónustu erlendis þá getur hann átt rétt á endurgreiðslu.
Athuga: Reglur um rétt ferðamanna til læknishjálpar erlendis eiga ekki við þegar um fyrir fram ákveðna læknismeðferð erlendis er að ræða.
Sjúkratryggingar benda einstaklingum á að hafa samband við sitt tryggingafélag varðandi ferðatryggingar. Slíkar tryggingar greiða fyrir fleira en almannatryggingar gera eins og kostnað vegna heimflutnings.
Kostnaður við læknaþjónustu getur verið innifalinn í þeim tryggingum sem greiðslukortafyrirtæki bjóða þegar farseðlar eru greiddir með greiðslukortum.
Ferðalög innan EES og Sviss
Ferðamaður í öðru EES-landi nýtur ákveðinna réttinda til læknishjálpar innan hins opinbera heilbrigðiskerfis í viðkomandi landi. Einungis er átt við nauðsynlega þjónustu.
Sjúkratryggingar hvetja alla til að hafa meðferðis Evrópska sjúkratryggingakortið til að greiða strax rétt verð fyrir læknisþjónustuna í viðkomandi landi.
Ef Evrópska sjúkratryggingakortinu er ekki framvísað við þjónustuaðila innan hins opinbera sjúkratryggingakerfis er hægt að sækja um greiðsluþátttöku hjá Sjúkratryggingum þegar heim er komið.
Ferðalög utan EES-landa
Ferðamaður í landi utan EES getur sótt um að fá greiðsluþátttöku hjá Sjúkratryggingum þegar heim kemur.
Tryggingaryfirlýsing
Sjúkratryggingar gefa út sérstaka tryggingaryfirlýsingu til einstaklinga sem tryggðir eru hér á landi en hyggjast dvelja um styttri tíma erlendis í löndum sem eru utan EES-svæðisins. Þar kemur fram að viðkomandi sé tryggður í almannatryggingum á Íslandi og hvað slík trygging felur í sér. Þegar einstaklingur framvísar tryggingaryfirlýsingu erlendis þarf hann að greiða fullt verð fyrir þjónustuna og svo sækja um endurgreiðslu.
Einstaklingar sem hafa ríkisfang utan EES-landa og eru sjúkratryggðir á Íslandi
Ekki er gefið út Evrópskt sjúkratryggingakort til einstaklinga með ríkisfang utan EES-landa þó svo einstaklingur sé sjúkratryggður á Íslandi. Þeir fá útgefna svokallaða tryggingaryfirlýsingu þegar þeir ferðast sem staðfestir að viðkomandi sé sjúkratryggður í almannatryggingakerfinu á Íslandi.
Nauðsynleg læknisþjónusta hjá einkareknum heilbrigðisveitanda
Þegar nauðsynleg læknisþjónusta er veitt af heilbrigðisveitanda í einkaeigu greiða einstaklingar alltaf fullt verð sjálfir en geta svo sótt um endurgreiðslu hjá Sjúkratryggingum.
Ef einstaklingur hefur greitt fyrir læknisþjónustu erlendis getur hann átt rétt á greiðsluþátttöku.
Fylgigögn
Afrit reikninga frá viðkomandi þjónustuveitanda (sundurliðað).
Greiðslustaðfesting.
Sjúkratryggingar hafa heimild til að óska eftir frekari gögnum ef þörf krefur eins og staðfestingu á námi og læknisvottorði.
Mikilvægt er að biðja um öll gögn á ensku. Sjúkratryggingar geta óskað eftir að einstaklingar láti þýða gögn sem ekki eru á ensku og sá kostnaður er ekki endurgreiddur af Sjúkratryggingum.
Bréfpóstur
Sjúkratryggingar, alþjóðamál
Vínlandsleið 16
113 ReykjavíkÍ eigin persónu:
Koma með umsókn og gögn í Þjónustumiðstöð Sjúkratrygginga. Hægt að fá þar aðstoð við útfyllingar á umsóknum.
Leiðbeiningar um örugg rafræn skil á gögnum til Sjúkratrygginga.
Reglugerð um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar nr. 442/2012
Reglur um endurgreiðslur kostnaðar vegna veikinda eða slysa erlendis nr. 281/2003
Reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu nr. 1251/2018
Reglugerð um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá nr. 463/1999
Ef þú finnur ekki þær upplýsingar sem þig vantar þá geturðu sent Sjúkratryggingum fyrirspurn
