Fara beint í efnið

Að fara út á vinnumarkaðinn

Það er stórt skref að byrja í nýrri vinnu, hvort sem það er í fyrsta skipti eða á nýjum stað.

Efnisyfirlit

Ólíkar tegundir ráðninga

Réttindi þín og skyldur ráðast af því hvers konar ráðningarsambands er stofnað til. Launþegi er algengasta ráðningarformið, en verktakavinna felur í sér gjörólíkar skyldur vinnuveitanda gagnvart þér. Þú getur einnig verið sjálfstætt starfandi ýmist á eigin kennitölu eða sérstakri kennitölu fyrir rekstur.

Ráðning getur falið í sér mismunandi hlutfall vinnuframlags og getur að auki verið tímabundin.

Þrjú atriði til að huga að í upphafi nýrrar vinnu

Þegar þú hefur vinnu á nýjum stað skaltu fá skriflegan ráðningarsamning um þín laun og kjör.

Á Íslandi velur þú einnig það stéttarfélag sem þú tilheyrir og ráðast kjör þín og réttindi að hluta til af því hvaða reglur gilda hjá viðkomandi stéttarfélagi. Samtök atvinnulífsins hafa samið við stéttarfélög um flest af því sem mun þá sjálfkrafa gilda um þig og þinn vinnuveitanda (sem er aðili að Samtökum atvinnulífsins).

Þegar þú hefur ráðningarsamning og hefur valið þér stéttarfélag þarftu líka að velja lífeyrissjóð og hvort þú greiðir viðbótarlífeyrissparnað. Launagreiðandi greiðir mótframlag bæði í lífeyrissjóð og vegna viðbótarlífeyrissparnaðar.

Svona greiðir þú skatt af tekjum

Launþegar greiða staðgreiðslu af launum og ber vinnuveitandi ábyrgð á greiðslu staðgreiðslunnar og að standa skil af þeim greiðslum til hins opinbera. Vinnuveitandi greiðir einnig aðildargjald stéttarfélags (sjúkrasjóðsgjald) og hlut starfsmanns og vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Allar þessar greiðslur koma fram á mánaðarlegum launaseðli.

Ef skekkja er í greiðslu skatta er hún leiðrétt af skattayfirvöldum við skil skattframtals.

Svona greiðir þú í lífeyrissjóð

Greiðsla í lífeyrissjóð skal vera að minnsta kosti 4% af launum og 8% mótframlag launagreiðanda, en launþegi getur að auki valið hvort greitt er í viðbótarlífeyrissparnað og kemur þá mótframlag launagreiðanda þar ofan á.

Í sumum tilvikum er lífeyrissjóður ákvarðaður af stéttarfélagi og þeim kjarasamningi sem þú ert þannig aðili að, en í öðrum tilvikum getur þú valið þér lífeyrissjóð af þeim sjóðum sem standa þér til boða.

Stéttarfélag sem þú tilheyrir getur ráðist af atvinnunni sjálfri eða löggildum réttindum þínum í samhengi við menntun og starfsréttindi tengd henni.

Réttindi þín sem launþega

Hér á landi eru margvísleg réttindi bundin í lög eða reglugerðir. Aðbúnaður og öryggi á vinnustað, vinnutími, orlofsréttur (sumarfrí), vernd mæðra og þungaðra kvenna, reglur vegna eineltis, áreitni og ofbeldis á vinnustað, persónuvernd launafólks, jafnrétti á vinnumarkaði og ákvæði vegna uppsagnar er meðal þess sem kveðið er á um í lögum og/eða reglugerðum.

Lágmarkslaun eru ákvörðuð í kjarasamningum atvinnulífs og launþegahreyfingar. Þar eru einnig ákvæði um veikindarétt, vinnuframlag, orlofsrétt og ákvæði vegna ráðningar og uppsagnar.

Í mörgum tilvikum eru réttindi samofin annars vegar löggjöf sem tryggir grunnréttindi en að auki eru aukin réttindi tryggð í kjarasamningi, þá gilda ýmiss konar sérreglur um afmarkaða hópa, svo sem bankamenn og sjómenn.

Nánari upplýsingar um réttindi launþega.

Uppsagnarfrestur þinn

Sé þér sagt upp af vinnuveitanda tekur sú uppsögn gildi næstu mánaðamót. Hversu langur uppsagnarfrestur þinn er, ræðst af þeim kjarasamningi sem ráðning þín fellur undir (stéttarfélag sem þú ert aðili að) og í langflestum tilvikum lengist uppsagnarfrestur hratt fyrsta árið í vinnu.

Á uppsagnarfresti átt þú rétt á fullum launum og hlunnindum sem fylgja starfinu, vinnuveitandi á á móti rétt á fullu vinnuframlagi á uppsagnartímanum, nema þú hafir hafið störf á nýjum stað. Yfirleitt eru starfslok samkomulagsatriði milli þín og vinnuveitanda, en ráðlegt er að leita ráðgjafar hjá stéttarfélagi og huga að atvinnuleit.

Nánari upplýsingar um uppsagnir.