Fara beint í efnið

Orlofsréttur

Launafólk á rétt á orlofi. Orlofsréttur er annars vegar réttur til orlofsdaga og/eða sumarleyfis og hins vegar réttur til launa á meðan leyfi stendur, orlofslauna.

Orlof

Starfsmaður ávinnur sér minnst tvo orlofsdaga fyrir hvern unninn mánuð á orlofsárinu, sem stendur frá 1. maí til 30. apríl. Lágmarksorlof er því 24 dagar á ári miðað við fullt starf.

Orlofsdögum fjölgar samkvæmt kjarasamningum með hærri lífaldri hjá opinberum starfsmönnum en með hærri starfsaldri á almennum vinnumarkaði. Útfærsla er mismunandi eftir samningum.

Starfsmaður hefur rétt á að taka orlof sitt í heilu lagi út á tímabilinu 2. maí til 15. september nema kjarasamningar kveði á um annað fyrirkomulag. Ákvörðun um orlof skal þó ætíð tekin í samráði við atvinnurekanda og með tilliti til starfseminnar.

Heimilt er að semja um að starfsmaður fari í orlof utan orlofstímabilsins.

Starfsmaður getur átt rétt á fullum fjölda orlofsdaga þó hann hafi ekki áunnið sér samsvarandi rétt til launa á meðan orlofi stendur. Þetta getur til að mynda átt við þá sem hafa farið í fæðingarorlof á orlofsárinu og þá sem skipt hafa um vinnuveitanda. 

Orlofslaun

Orlofslaun eru til þess ætluð að launafólk sé ekki án tekna meðan á sumarleyfi stendur. Þau eru viðbót við launagreiðslur hvers mánaðar og af þeim eru greiddir skattar og gjöld eins og af öðrum launum.

Orlofslaun reiknast við hverja útborgun og eru minnst 10,17% af heildarlaunum. Þetta hlutfall getur verið hærra samkvæmt kjarasamningum.

Orlofslaun eru ýmist laus til útborgunar við upphaf orlofstímabils eða greidd út á meðan orlofi stendur, þá á sama tíma og laun eru venjulega greidd. Hið síðarnefnda er algengt fyrirkomulag hjá mánaðarlaunafólki.

Þegar starfsmaður hættir störfum á vinnuveitandi hans að gera upp áunnin orlofslaun og greiða út.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir