Veikindaréttur
Veikindaréttur felst í því að með vinnu ávinnur launafólk sér vissan rétt til launa í forföllum vegna eigin veikinda eða barna sinna. Um vinnuslys og atvinnusjúkdóma gilda sérstakar reglur.
Laun í veikindum
Starfsmaður sem verður óvinnufær vegna sjúkdóms eða slyss á rétt á launum frá vinnuveitanda sínum í tiltekinn tíma. Lög og kjarasamningar kveða á um útfærslu veikindaréttar; fjölda veikindadaga, skilyrði fyrir launuðu veikindaleyfi og fleira.
Starfsmaður þarf ávallt að tilkynna um veikindi sín við fyrsta tækifæri og framvísa læknisvottorði fari atvinnurekandi fram á það.
Ef starfsmaður er frá vinnu vegna sjúkdóms eða slyss, lengur en réttur hans til launa nær, getur hann sótt um dagpeninga úr sjúkrasjóði síns stéttarfélags.
Þeir sem ekki hafa launatekjur í veikindum geta átt rétt á sjúkradagpeningum frá Sjúkratryggingum Íslands. Sjúkradagpeningar á vef Sjúkratrygginga
Veikindadagar
Reglur um fjölda veikindadaga eru misjafnar eftir því hvort um er að ræða kjarasamninga á almennum vinnumarkaði eða opinberum.
Lágmarksréttur samkvæmt lögum er að fyrir hvern unninn mánuð geti starfsmaður átt rétt á launum í tvo daga í veikindaforföllum.
Almenna reglan er sú að veikindaréttur launafólks eykst eftir því sem lengur er unnið hjá sama atvinnurekanda. Fjöldi veikindadaga fer þó ekki yfir visst hámark sem er breytilegt eftir kjarasamningum.
Starfsmaður sem er veikur á meðan orlofi stendur getur átt rétt á viðbótarorlofi en tilkynna þarf um veikindin án tafar og framvísa læknisvottorði.
Veikindi barna
Foreldrar geta átt rétt á launuðu leyfi vegna veikinda barna sinna yngri en 13 ára. Reglur þar um eru breytilegar eftir kjarasamningum.
Ef veikindi barns standa lengur en réttur til launa nær, getur foreldri átt rétt á sjúkradagpeningum úr sjúkrasjóði síns stéttarfélags.
Foreldrar fatlaðra og langveikra barna geta sótt um umönnunargreiðslur frá Tryggingastofnun. Umönnunargreiðslur á vef TR
Vinnuslys
Starfsmaður sem verður fyrir vinnuslysi á rétt á dagvinnulaunum í allt að þrjá mánuði til viðbótar þeim veikindadögum sem hann á rétt á samkvæmt kjarasamningi. Þetta gildir einnig um atvinnusjúkdóma.
Ef starfsmaður er óvinnufær vegna vinnuslyss í tíu daga eða lengur á hann rétt á slysadagpeningum frá Sjúkratryggingum Íslands þar til bata er náð eða í allt að 52 vikur. Rétt er að taka fram að á meðan hinn slasaði er í launuðu veikindafríi renna dagpeningarnir til launagreiðanda hans. Slysatryggingar og -bætur á vef Sjúkratrygginga
Vinnuveitendum er skylt samkvæmt kjarasamningi að tryggja starfsfólk sitt með slysatryggingu. Ef vinnuslys veldur örorku eða dauða eru greiddar bætur samkvæmt skilmálum hennar.
Ef orsakir vinnuslyss eru á ábyrgð atvinnurekanda getur starfsmaður átt rétt á skaðabótum.
Vert að skoða
Lög og reglugerðir
Þjónustuaðili
Fjársýslan