Umönnunargreiðslur eru fjárhagslegur stuðningur til framfærenda fatlaðra eða langveikra barna auk barna með þroskaraskanir.
Hægt er að sækja um umönnunargreiðslur þegar umönnun barns er umfram það sem eðlilegt getur talist hjá barni á sama aldri og einnig þegar kostnaður er mikill vegna:
heilbrigðisþjónustu
meðferðar
þjálfunar
Gildistími umönnunarmats er að hámarki 5 ár í senn.
Umsækjandi og barn verða að hafa sama lögheimili og búa á Íslandi.
Fjárhæðir
Fjárhæðir eru háðar umönnunarmati sem skiptist í fimm flokka en 5. flokki fylgja ekki greiðslur. Afslættir fást með umönnunarkorti.
Ef þú færð umönnunargreiðslur með barni, getur þú sótt um niðurfellingu bifreiðagjalda (pdf) og senda á trukkur@skatturinn.is.
Umsóknarferlið
Fylgigögn
Til að sækja um umönnunargreiðslur þarftu:
læknisvottorð þar sem kemur fram greining, meðferð og umönnunarþörf barnsins
upplýsingar um meðferðir barns
staðfestingar á útlögðum kostnaði (kvittanir)
eftir atvikum greinargerðir félagsráðgjafa, lækna, sálfræðinga, starfsmanna skóla og annars fagfólks
Svona sækir þú um
Smelltu á Sækja um.
Skráðu þig inn með rafrænum skilríkjum.
Veldu Umsóknir.
Hakaðu við flokkinn Fjölskyldur.
Veldu umsóknina Umönnunargreiðslur barna.
Fylltu út umsóknina og hengdu við fylgigögn ef þú ert með þau tiltæk.
Smelltu á Senda umsókn.
Athugaðu að skrá frá hvaða tíma sótt er um.
Ef umönnunarþörf barnsins breytist
Hægt er að óska eftir endurmati ef umönnunarþörf barnsins breytist. Sama umsóknarferli er við endurmat og er við fyrsta mat á umönnunarþörf barnsins.
Niðurstaða
Þegar niðurstaða liggur fyrir færðu tölvupóst og tilkynningu á Mínum síðum TR undir Mín skjöl.
Þar getur þú einnig séð upphæðir út árið í greiðsluáætlun.
Ef þú ert ósammála ákvörðuninni getur þú:
óskað eftir rökstuðningi á Mínum síðum TR,
sent erindi til umboðsmanns viðskiptavina TR,
Fyrirkomulag
Umönnunargreiðslur eru greiddar fyrirfram fyrsta dag hvers mánaðar.
Ef greiðslur eru samþykktar afturvirkt er inneign greidd út eins fljótt og auðið er á þann bankareikning sem skráður er á Mínar síður.
Greiðslur falla niður
Umönnunargreiðslur falla niður ef:
barn er í vistun utan heimilis (fóstur eða sambærilegt)
umbeðnum gögnum er ekki skilað inn við endurmat
barn og foreldri sem þiggur umönnunargreiðslur eru ekki lengur með sama lögheimili
barn og/eða foreldri sem þiggur umönnunargreiðslur flytja erlendis
Við andlát barns falla greiðslur niður en hægt er að sækja um áframhaldandi greiðslur til allt að 6 mánaða.
Umönnunargreiðslur - algengar spurningar
Þjónustuaðili
Tryggingastofnun